76. Rís upp, mín sál ♥
1 Rís upp, mín sál, að nýju nú
og nýja lofgjörð byrja þú
því nú er nýtt ár komið,
sjá, ný gjöf þér enn nýveitt er,
hið nýja himnablómið.
2 Ó, lof sé þér fyrir' liðið ár,
þú lífs og náðar Drottinn hár,
þú æðsti kærleiks kraftur,
sem náð gafst mér svo nú ég er
á nýtt ár kominn aftur.
3 Þú einn varst traust og unun mín,
mín eina hlíf var gæskan þín,
ég gekk í geymslu þinni
og heill og ró þín hönd mér bjó
og huggun sálu minni.
4 Á nýju ári nýja þrá
þín nýja líkn mér kveiki hjá
að þjóna þér og hlýða,
mitt kall og stétt að rækja rétt
og reyna' ef vilt hið stríða.
5 Þá æviárum hallar hér
þitt hjálpráð, faðir, veittu mér
og ending allra nauða.
Gef orðið þitt sé athvarf mitt
og yndi' í lífi' og dauða.
6 Ó, allt það gott sem gafst mér þú
þín geymi máttug höndin nú
og blessi mig og mína.
Þitt auglit blítt um árið nýtt
oss öllum láttu skína.