Sálmabók

774. Ég er á langferð um lífsins haf

1 Ég er á langferð um lífsins haf
og löngum breytinga kenni.
Mér stefnu frelsarinn góður gaf,
ég glaður fer eftir henni.
Mig ber að dýrðlegum, ljósum löndum,
þar lífsins tré gróa' á fögrum ströndum
við sumaryl og sólardýrð.

2 Og stundum sigli ég blíðan byr
og bræðra samfylgd þá hlýt ég
og kjölfars hinna er fóru fyrr
án fyrirhafnar þá nýt ég.
Í sólarljósi er særinn fríður
og sérhver dagurinn óðar líður
er siglt er fyrir fullum byr.

3 En stundum aftur ég aleinn má
í ofsarokinu berjast.
Þá skellur niðadimm nóttin á
svo naumast hægt er að verjast.
Ég greini' ei vita né landið lengur
en ljúfur Jesús á öldum gengur
um borð til mín í tæka tíð.

4 Mitt skip er lítið en lögur stór
og leynir þúsundum skerja.
En granda skal hvorki sker né sjór
því skipi' er Jesús má verja.
Hans vald er sama sem var það áður,
því valdi' er særinn og stormur háður.
Hann býður: „Verði blíðalogn!“

5 Þá hinsti garðurinn úti er
ég eygi land fyrir stöfnum
og eftir sólfáðum sæ mig ber
að sælum, blælygnum höfnum.
Og ótal klukkur ég heyri hringja
og hersing ljósengla Drottins syngja:
"Velkominn hingað heim til vor!"

6 Lát akker falla! Ég er í höfn.
Ég er með frelsara mínum.
Far vel, þú æðandi dimma dröfn,
vor Drottinn bregst eigi sínum.
Á meðan akker í ægi falla
ég alla vinina heyri kalla
sem fyrri urðu hingað heim.

T Henry A. Tandberg 1909 – Valdemar V. Snævarr, 1926 – Sb. 1997
Jeg er en seiler på livets hav
L Klaus Østby 1909 – Sb. 1997
Jeg er en seiler på livets hav
Eldra númer 720
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is