Sálmabók

775. Líknargjafinn þjáðra þjóða

1 Líknargjafinn þjáðra þjóða,
þú sem kyrrir vind og sjó,
ættjörð vor í ystu höfum
undir þinni miskunn bjó.
Vertu með oss, vaktu hjá oss,
veittu styrk og hugarró.
Þegar boðinn heljar hækkar,
Herra, lægðu vind og sjó.

2 Föðurland vort hálft er hafið,
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af Drottins náð.
Föðurland vort hálft er hafið,
hetjulífi' og dauða skráð.

3 Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir, tregar þjóðin öll,
vertu ljós og leiðarstjarna,
lægðu storm og boðaföll,
líknargjafinn þjáðra þjóða,
þegar lokast sundin öll.

4 Drottinn, þinnar ástar óður
endurhljómi' um jörð og höf.
Breiddu þína blessun yfir
blóma lífs og þögla gröf.
Vígi' og skjöldur vertu þeim sem
vinda upp hin hvítu tröf.
Drottinn, þinnar ástar óður
endurhljómi' um jörð og höf.

T Jón Magnússon, 1940 – Sb. 1945
L Charles C. Converse 1868 – JH 1891
CONVERSE / What a Friend We Have in Jesus
Sálmar með sama lagi 678 682
Eldra númer 497
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is