Sálmabók

778. Hann sagði þeim að sigla á djúp

Siglt á djúp

1 Hann sagði þeim að sigla' á djúp
og sækja þar fisk í net.
Þótt ördauð virtust vötnin gljúp
þeir veiddu og settu met.
Þeir fylgdu honum fram á leið
og friður af honum skein.
Hann lægði storm og létti neyð
og læknaði sár og mein.
Hann þrauta'- og syndabyrði ber
og blessar líf á jörðu hér.
Á sjó og landi ljósið er
og líkn hans undan fer.

2 Er nístir hjarta krossins kvöl
og kæfandi myrkur hans,
hann allra reynir eymd og böl
og angist hvers syndugs manns.
Hann opnar þannig lífsins lind
sem liggur að hjartans æð
svo endurskapast mannsins mynd
er máttugt ljós skín úr hæð.
Hann þrauta'- og syndabyrði ...

3 Er leggja sjómenn langt á mið
og líta á kólgusvið
þeir æðruleysis finna frið
með frelsarann sér við hlið.
Þeir fylgja honum fram á leið
og fá styrk hans, hjálp og lið.
Hann lægir öldur, léttir neyð
og lífgar hin djúpu mið.
Hann þrauta'- og syndabyrði...

T Gunnþór Þ. Ingason 2000
L Arnór B. Vilbergsson 2000

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is