Sálmabók

779. Drottinn líknsamur, Herra hreinn

1 Drottinn líknsamur, Herra hreinn,
hjálparinn allra manna,
þú sem að ræður öllu einn,
ástsemda miskunn sanna,
bænheyr þú mig,
þess bið ég þig
í blessaða Jesú nafni,
með ljúfri náð
og legg á ráð
um lífs og sálar efni.

2 Þín náð það hefur svo til sett
að sérhver skyldi læra
embætti sitt að iðka rétt
og með handbjörg sig næra
um lönd og sjó
en liðsemd þó
lofaðir þeim að veita
sem treysta þér
en síðan sér
sinnar næringar leita.

3 Varðveit þú mig og veg minn greið,
vernd þín yfir mér standi,
frá beiskri sorg og bráðum deyð
bæði á sjó og landi.
Jesús minn trúr,
eymd allri úr
einn kanntu mig að leysa,
vertu mér næst
þá hér sem hæst
hafsins bylgjurnar geysa.

4 Í Guðs nafni og ótta enn
eftir hans náðar orði
veiðarfærinu vil ég senn
varpa frá skipsins borði,
þetta mitt verk,
miskunnin merk,
minn Herra Jesús blessi,
veiti hann mér
hvað vild hans er,
von mín og bón er þessi.

T Hallgrímur Pétursson, 1730 – Sb. 1945
Sjóferðasálmur
L Kristín Jóhannesdóttir 2009
Tilvísun í annað lag 733
Eldra númer 496
Eldra númer útskýring T

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is