78. Sjá, nú er runninn nýársdagur ♥
1 Sjá, nú er runninn nýársdagur
en nótt hinn liðna tímann fól,
að nýju blómgast náðarhagur
því nú skín Drottins elsku sól.
Ó, Guð, vor faðir, þökk sér þér,
af þinni miskunn fögnum vér.
2 Hve mjög á liðnum æviárum
þér ávallt brotið höfum mót.
Vér biðjum því með trega' og tárum
í trausti Krists af hjartans rót:
Um eilífð hyl þú afbrot vor
og afmá nú vor syndaspor.
3 Með nýju ári nú vér biðjum
að nýjan mátt oss gefir þú
svo þér til dýrðar allt vér iðjum
með elsku, hlýðni' og sannri trú.
Þinn helgur andi leggi' oss lið
svo lesti' og syndir skiljumst við.
4 Krýn þú hið nýja náðarárið
með náðargæðum himni frá.
Græð þinna barna sérhvert sárið,
í sorg og neyð þeim vertu hjá.
Æ, farsæl vora fósturjörð
og frelsa þína kristnu hjörð.
5 Í Jesú nafni öll vor efni
þér, eilíf gæskan, felum nú.
Í verki' og hvíld, í vöku' og svefni
oss verndi' og blessi náð þín trú.
En þegar dauðans dregst að nótt,
ó, Drottinn, gef að sofnum rótt.
6 Oss síðar vek til lífs í ljósi
er ljómar dýrðarsólin skær
og sælan æ með sigurhrósi
og sérhvert unaðsblómið grær
þar sem að nýár eilíft er
og eilíft friðarlíf hjá þér.