Sálmabók

791. Er Kristur helgaði land og lýð

Á mótum tugalda

1 Er Kristur helgaði land og lýð
fór ljós og ilmur um strönd og hlíð,
þá gladdist hvert strá sem Ísland ól
og lofaði lífsins sól.

2 Þá sungu vindarnir vorsins óð
um vonanna ríki, nýja þjóð,
og daggir minntust við dal og tind
sem tilbáðu lífsins lind.

3 Og ljósið breiddist um berg og völl,
þá brostu íslensku djásnin öll,
þar geislaði þökk og gleði lands
sem orðið var óðal hans.

4 Hans mark er dregið í heiðið hátt,
á hvítan jökul og fjallið blátt,
í rauða glóð og hvern geislakrans
frá draumum og dul vors lands.

5 Sjá, náð hans skín gegnum norðurljós,
hans nafn er á björk og engjarós,
allt líf og sú von sem Ísland á
er geisli hans huga frá.

6 Vort landið hrjúfa með heiðar brár
skal hans um ókomin þúsund ár,
hvert barn sem fæðist er bæn og þrá
og svarið er honum hjá.

7 Og farsæld, blessun, hins frjálsa lands
er fánans bæn sem er merki hans,
þess konungs sem Ísland kaus og laut
í frelsi sem förunaut.

8 Nú syngja vindarnir vorsins óð
um vonanna ríki, kristna þjóð,
og daggir Guðs kyssa dal og tind.
Vér bergjum á lífsins lind.

T Sigurbjörn Einarsson 2000 – Vb. 2013
L Veigar Margeirsson 2000 – Vb. 2013
Eldra númer 951
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is