88. Um sólarupprás ævi þinnar ♥
1 Um sólarupprás ævi þinnar
þig árla kallar Drottinn þinn,
í árdögg skærri skírnarinnar
hann skírir þig sem verkmann sinn
og vígir þig til víngarðsmanns
að vinna fyrir ríkið hans.
2 Um þriðju stundu þig hann kveður
er þinnar æsku sólin skín,
þá fegurð lífs og glys þig gleður
ei gleym að Drottinn sér til þín,
í víngarð sinn hann vísar þér
að vinna meðan dagur er.
3 Um sjöttu stund til starfs hann kveður
er starf hans ríkis gengur tregt,
þú hefur mikið höndum meður
en heyr þú: Eitt er nauðsynlegt,
að höndla dýrðar hnossið það
sem hefur Guð þér ákvarðað.
4 Um hinstu stundu hann þig kallar
er hnigin senn er ævisól,
þá degi lífs að húmi hallar
er hálfgjört enn það Guð þér fól.
Þar til hin hinsta dagsbrún deyr
í Drottins nafni vinn þú meir.
5 Og þegar síðast kvöldið kemur
hann kallar sérhvern verkmann heim,
hann geldur engum öðrum fremur
en öllum saman gefur þeim.
Ó, met sem gjöf en gjald ei það
sem Guðs son hefur verðskuldað.