Nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar


 



Umsókn skólavist 2025-2026

Umsóknarfrestur um nám við Tónskóla þjóðkirkjunnar er til 15. maí 2025

Í skólanum er kenndur orgelleikur á grunn-, mið- og framhaldsstigi en einnig er boðið upp á nám við framhaldsdeild í kirkjutónlist sem hentar vel þeim sem vilja undirbúa sig fyrir frekara nám í kirkjutónlist og kórstjórn. Einnig nýtist það tónlistarmönnum sem vilja bæta við sig fagþekkingu á sviði kirkjutónlistar og þeim sem kjósa tónlistarnám á breiðum grunni.

Almennt um orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar

Í orgelnáminu kynnast nemendur orgelverkum frá ólíkum tímabilum og í ýmsum stíltegundum. Einnig þjálfast nemendur í að leika undir og leiða almennan safnaðarsöng á orgel og í leik af fingrum fram. Þegar komið er upp í miðnám í orgelleik bætist við nám í píanóleik og á framhaldsstigi nám í hljómborðsleik á píanó. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af menntamálaráðuneytinu.

Nemendur eldri en 18 ára sem hyggja á nám í orgelleik þurfa að eiga viðtal við skólastjóra.

Miðað er við að nemendur séu orðnir 8-9 ára gamlir áður en nám í orgelleik hefst.

Lýsing á námi

Grunnnám

Í grunnnámi fær orgelnemandi 30 til 45 mínútur á viku eftir aldri og þroska nemenda. Þegar nemandi er komin áleiðis í orgelnáminu bætist við kennsla í tónfræði og tónheyrn samkvæmt námskrá. Nemandi þarf að ljúka grunnprófi í tónfræðagreinum áður en orgelpróf er tekið upp í miðnám. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af menntamálaráðuneytinu.

Miðnám

Í miðnámi fær orgelnemandi 60 mínútur á viku í einkakennslu á orgel. Ef nemendur hafa ekki stundað píanónám er mælst til þess að nemendur skrái sig í nám á píanó og í tónfræðagreinum við annan tónlistarskóla en nemandi þarf að bæði að ljúka miðprófi á píanó og á orgel auk tónfræðagreina áður en nám á framhaldsstigi í orgelleik getur hafist. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af menntamálaráðuneytinu.

Framhaldsnám

Í framhaldsnámi fær orgelnemandi 60 mínútur á viku í einkakennslu á orgel. Auk þess er kennsla hljómborðsleik (verklegri hljómfræði) samkvæmt námskrá. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af menntamálaráðuneytinu.

Námsmat

Grunnnám

Nemendur í grunnnámi fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að nemendur komi fram a.m.k. einu sinni á hverri önn í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið og einu sinni á tónleikum. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og menntamálaráðuneytisins.

Miðnám

Nemendur í miðnámi fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að a.m.k. einu sinni á önn komi nemendur fram á tónleikum og í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og menntamálaráðuneytisins.

Framhaldsnám

Nemendur í framhaldsnámi fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að a.m.k. einu sinni á önn komi nemendur fram á tónleikum og í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og menntamálaráðuneytisins.

Framhaldsprófstónleikar

Að loknu framhaldsprófi í orgelleik og lokaprófi í hljómborðsleik fara fram framhaldsprófstónleikar í orgelleik. Nemandi leikur 30 til 60 mínútna efnisskrá að eigin vali. Hluti efnisskrárinnar má vera spuni eða flutningur á eigin tónsmíð.

Píanóleikur með miðnámi í orgelleik

Hafi nemandi ekki stundað píanónám áður bætist við nám í píanóleik þegar komið er á miðstig í orgelleik. 

Mælst er til þess að nemendur skrái sig í nám á píanó og í tónfræðagreinum við annan tónlistarskóla en nemandi þarf að bæði að ljúka miðprófi á píanó og á orgel auk tónfræðagreina áður en nám á framhaldsstigi í orgelleik getur hafist.

Tónfræðagreinar

Miðað er við að nemendur hafi náð 11 ára aldri áður en formlegt nám í tónfræði hefst. Fram að því fer tónfræðikennsla fram samhliða hljóðfærakennslunni. Kennt er samkvæmt námskrá Menntamálaráðuneytisins. Miðað er við að nemendur ljúki grunn- og miðprófum í tónfræðagreinum samhliða sambærilegum áföngum í orgelnáminu.

Hljómborðsleikur - verkleg hljómfræði

Nemendur í framhaldsnámi í orgelleik og í framhaldsdeild í kirkjutónlist fá 30 mínútna kennslutíma á viku í hljómborðsleik í heilan vetur. Í faginu þjálfast nemendur í verklegri hljómfræði við hljómborðið þar sem unnið er út frá bókstafshljómum (einkum í sálmum og dægurtónlist/rytmískri tónlist). Kennd eru grunnatriði við hljómsetningar sálmalaga, almennra sönglaga og dægurtónlistar, tóntegundaskipti og tónflutningur þjálfaður og að spila eftir eyranu.

Markmið

Markmið hljómborðsleiks í orgelnámi á framhaldsstigi er að nemendur nái aukinni færni við hljómsetningar, við meðleik í ýmsum stíltegundum og geti notað píanóið við vinnu með kór, í guðsþjónustum og við að leika undir söng. Námi í hljómborðsleik lýkur með lokaprófi þar sem lögð er áhersla á færni í verklegri hljómfræði samkvæmt námslýsingu og meðleik með söng.

Nám við framhaldsdeild í kirkjutónlist er á framhaldsskólastigi og veitir góðan grunn fyrir frekari sérhæfingu á sviði kirkjutónlistar. Námið hentar einnig tónlistarfólki sem hefur annan bakgrunn en kirkjutónlist og hyggur á starf við kirkjur og nemendum sem kjósa tónlistarnám á breiðum grunni. Framhaldsdeild skiptist í tvö kjörsvið: kórstjórn og orgelleik. Hægt er að ljúka framhaldprófi í kirkjutónlist af öðru kjörsviðinu, en til þess að ljúka kantorsprófi þarf nemandi að ljúka námi af báðum kjörsviðum. Námið er metið til eininga í framhaldsskólum og er lágmarkskrafa um nám til starfsréttinda til starfs sem organisti og/eða kórstjóri við þjóðkirkjuna skv. starfsreglum hennar.

Í náminu fá nemendur kennslu á orgel, í söng, kórstjórn og ryþmískum hljómborðsleik auk bóklegra greina.

Inntökuskilyrði

Kórstjórnarkjörsvið

Nemandi þarf að hafa lokið miðprófi á píanó og í tónfræðagreinum auk matsprófs og viðtals. Gera má ráð fyrir tveggja til þriggja ára námstíma.

Orgelkjörsvið

Nemandi þarf að hafa lokið miðprófi á píanó, orgel og í tónfræðagreinum auk matsprófs og viðtals. Gera má ráð fyrir tveggja til þriggja ára námstíma.

Vinsamlegast hlaðið niður umsóknareyðublaðinu hér að neðan, fyllið út og sendið umsóknina á netfangið tonskoli@kirkjan.is fyrir 15. maí 2025

Orgelnám (einn vetur)

Forskóli (1. og 2. bekkur)                                                                            kr. 74.500,-

Grunnnám                                                                                                  kr. 98.500,-

Miðnám                                                                                                       kr. 112.500,-

Framhaldsnám                                                                                          kr. 209.000,-

Valgrein með grunn- og miðnámi                                                         kr. 96.500,-

(Val um 14 tíma í söng eða ryþmískum hljómborðsleik)

Framhaldsdeild í kirkjutónlist

Fullt nám (einn vetur)                                                                               kr. 295.000,-

Nám eftir eldri námskrá

Kirkjuorganistanám (einn vetur)                                                             kr. 295.000,-

Endurmenntun og námskeið

Einleiksáfangi á orgel                                                                               kr. 209.000,-

Einkatímar í orgelleik (40 mínútur hver tími)

3 tímar                                                                                                         kr. 26.000,-

5 tímar                                                                                                         kr. 42.500,-

14 tímar (ein önn)                                                                                      kr. 104.000,-

Einkatímar í söng og raddbeitingu og ryþmískum hljómborðsleik (40 mínútur hver tími)

3 tímar                                                                                                         kr. 26.000,-

5 tímar                                                                                                         kr. 42.500,-

Kórstjórn, einn hóptími á viku í eina önn                                               kr. 89.900,-

Allar nánari upplýsingar um nám við endurmenntunardeild er að finna undir flipanum Endurmenntun og námskeið hér á síðunni.