Nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar

Í skólanum er kenndur orgelleikur á grunn-, mið- og framhaldsstigi en einnig er boðið upp á nám við framhaldsdeild í kirkjutónlist sem hentar vel þeim sem vilja undirbúa sig fyrir frekara nám í kirkjutónlist og kórstjórn. Einnig nýtist það tónlistarmönnum sem vilja bæta við sig fagþekkingu á sviði kirkjutónlistar og þeim sem kjósa tónlistarnám á breiðum grunni.
Almennt um orgelnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar
Í orgelnáminu kynnast nemendur orgelverkum frá ólíkum tímabilum og í ýmsum stíltegundum. Einnig þjálfast nemendur í að leika undir og leiða almennan safnaðarsöng á orgel og í leik af fingrum fram. Þegar komið er upp í miðnám í orgelleik bætist við nám í píanóleik og á framhaldsstigi nám í hljómborðsleik á píanó. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Nemendur eldri en 18 ára sem hyggja á nám í orgelleik þurfa að eiga viðtal við skólastjóra.
Miðað er við að nemendur séu orðnir 8-9 ára gamlir áður en nám í orgelleik hefst.
Lýsing á námi
Grunnnám
Í grunnnámi fær orgelnemandi 30 til 45 mínútur á viku eftir aldri og þroska nemenda. Þegar nemandi er komin áleiðis í orgelnáminu bætist við kennsla í tónfræði og tónheyrn samkvæmt námskrá. Nemandi þarf að ljúka grunnprófi í tónfræðagreinum áður en orgelpróf er tekið upp í miðnám. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Miðnám
Í miðnámi fær orgelnemandi 60 mínútur á viku í einkakennslu á orgel. Ef nemendur hafa ekki stundað píanónám er mælst til þess að nemendur skrái sig í nám á píanó og í tónfræðagreinum við annan tónlistarskóla en nemandi þarf að bæði að ljúka miðprófi á píanó og á orgel auk tónfræðagreina áður en nám á framhaldsstigi í orgelleik getur hafist. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Framhaldsnám
Í framhaldsnámi fær orgelnemandi 60 mínútur á viku í einkakennslu á orgel. Auk þess er kennsla hljómborðsleik (verklegri hljómfræði) samkvæmt námskrá. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Námsmat
Grunnnám
Nemendur í grunnnámi fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að nemendur komi fram a.m.k. einu sinni á hverri önn í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið og einu sinni á tónleikum. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og Menntamálaráðuneytisins.
Miðnám
Nemendur í miðnámi fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að a.m.k. einu sinni á önn komi nemendur fram á tónleikum og í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og Menntamálaráðuneytisins.
Framhaldsnám
Nemendur í framhaldsnámi fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að a.m.k. einu sinni á önn komi nemendur fram á tónleikum og í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og Menntamálaráðuneytisins.
Framhaldsprófstónleikar
Að loknu framhaldsprófi í orgelleik og lokaprófi í hljómborðsleik fara fram framhaldsprófstónleikar í orgelleik. Nemandi leikur 30 til 60 mínútna efnisskrá að eigin vali. Hluti efnisskrárinnar má vera spuni eða flutningur á eigin tónsmíð.
Píanóleikur með miðnámi í orgelleik
Hafi nemandi ekki stundað píanónám áður bætist við nám í píanóleik þegar komið er á miðstig í orgelleik.
Mælst er til þess að nemendur skrái sig í nám á píanó og í tónfræðagreinum við annan tónlistarskóla en nemandi þarf að bæði að ljúka miðprófi á píanó og á orgel auk tónfræðagreina áður en nám á framhaldsstigi í orgelleik getur hafist.
Tónfræðagreinar
Miðað er við að nemendur hafi náð 11 ára aldri áður en formlegt nám í tónfræði hefst. Fram að því fer tónfræðikennsla fram samhliða hljóðfærakennslunni. Kennt er samkvæmt námskrá Menntamálaráðuneytisins. Miðað er við að nemendur ljúki grunn- og miðprófum í tónfræðagreinum samhliða sambærilegum áföngum í orgelnáminu.
Hljómborðsleikur - verkleg hljómfræði
Nemendur í framhaldsnámi í orgelleik og í framhaldsdeild í kirkjutónlist fá 30 mínútna kennslutíma á viku í hljómborðsleik í heilan vetur. Í faginu þjálfast nemendur í verklegri hljómfræði við hljómborðið þar sem unnið er út frá bókstafshljómum (einkum í sálmum og dægurtónlist/rytmískri tónlist). Kennd eru grunnatriði við hljómsetningar sálmalaga, almennra sönglaga og dægurtónlistar, tóntegundaskipti og tónflutningur þjálfaður og að spila eftir eyranu.
Markmið
Markmið hljómborðsleiks í orgelnámi á framhaldsstigi er að nemendur nái aukinni færni við hljómsetningar, við meðleik í ýmsum stíltegundum og geti notað píanóið við vinnu með kór, í guðsþjónustum og við að leika undir söng. Námi í hljómborðsleik lýkur með lokaprófi þar sem lögð er áhersla á færni í verklegri hljómfræði samkvæmt námslýsingu og meðleik með söng.
Nám við framhaldsdeild í kirkjutónlist er á framhaldsskólastigi og veitir góðan grunn fyrir frekari sérhæfingu á sviði kirkjutónlistar. Námið hentar einnig tónlistarfólki sem hefur annan bakgrunn en kirkjutónlist og hyggur á starf við kirkjur og nemendum sem kjósa tónlistarnám á breiðum grunni. Ljúka þarf framhaldsprófi í orgelleik, lokaprófi í söng og hljómborðsleik, bóklegum greinum og útskriftartónleikum til að útskrifast með framhaldspróf í kirkjutónlist. Námið er metið til eininga í framhaldsskólum og er lágmarkskrafa um nám til starfsréttinda til starfs sem organisti við söfnuði þjóðkirkjunnar skv. starfsreglum hennar.
Í náminu fá nemendur kennslu á orgel, í söng, kórstjórn og ryþmískum hljómborðsleik auk bóklegra greina.
Inntökuskilyrði
Nemandi þarf að hafa lokið miðprófi á orgel og píanó eða annað hljómborðshljóðfæri og miðprófi í tónfræðagreinum. Gera má ráð fyrir tveggja til þriggja ára námstíma.
Námsgreinar framhaldsdeildar í kirkjutónlist
- Orgel
- Söngur
- Hljómborðsleikur
- Þátttaka í kórstarfi
- Kórstjórn (námskeið)
- Tónskólamessa
- Orgelhóptímar
- Kirkjufræði
- Hagnýt kirkjusöngsfræði
- Námskeið í barnakórstjórn
- Orgelfræði
- Lokatónleikar úr framhaldsdeild
Nemendur í framhaldsdeild eru hvattir til að taka þátt í öllum sérnámskeiðum og verkefnum á vegum skólans.
Orgelleikur
Orgelleikur er skyldugrein fyrir alla nemendur í framhaldsdeild í kirkjutónlist og fær nemandi 60 mínútur á viku í einkakennslu á orgel allan námstímann. Í orgelnáminu kynnast nemendur orgelverkum frá ólíkum tímabilum og í ýmsum stíltegundum. Einnig þjálfast nemendur í að leika undir og leiða almennan safnaðarsöng á orgel og í leik af fingrum fram. Náminu lýkur með framhaldsprófi í orgelleik auk lokatónleika úr framhaldsdeild. Kennt er samkvæmt námskrá hljómborðshljóðfæra, gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Markmið
Markmið orgelnámsins er að nemandi geti leikið á orgel ólík verk við guðsþjónustur, verði kunnugur sálmahefð kirkjunnar og geti leikið undir sálmasöng.
Námsmat í orgelleik í framhaldsdeild
Nemendur fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Miðað er við að a.m.k. einu sinni á önn komi nemendur fram á tónleikum og í guðsþjónustu þar sem þeir leiða söng við orgelið. Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrá Tónskóla þjóðkirkjunnar og Menntamálaráðuneytisins.
Söngur
Söngur er skyldugrein fyrir nemendur í framhaldsdeild í kirkjutónlist. Nemendur fá 45 mínútur í einkakennslu í hverri viku allan námstímann. Á hverri önn eru einnig kenndir hóptímar. Markmið söngnámsins er að undirbúa nemendur fyrir hlutverk organista sem forsöngvara og kórstjóra. Áhersla er lögð á samsöng og að nemandi öðlist þá þekkingu á raddbeitingu og hljómmyndun sem nýtist við tilsögn kóra. Meginþættir kennslunnar eru: raddbeiting, raddþjálfun, söngur og kennslufræði. Áhersla er lögð á líffærafræði raddarinnar og eðlilega beitingu líkamans.
Námsmat
Nemendur fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Að lokinni síðustu önn taka nemendur lokapróf og hafa val um að ljúka áfangaprófi í söng samkvæmt námskrá Menntamálaráðuneytisins.
Lokapróf í söng úr framhaldsdeild í kirkjutónlist
Á lokaprófi í söng í framhaldsdeild flytja nemendur samtals þrjú lög, þar af eitt samsöngslag og einn sálm. Einnig fer fram munnlegt viðtal við prófdómara þar sem nemandi sýnir þekkingu á raddbeitingu og hljómmyndun sem nýtist við tilsögn kóra.
Fyrir lokaprófið skila nemendur lista með 20 lögum, þar af skulu vera 10 sálmar úr gildandi sálmabók kirkjunnar. Á lokaprófi flytur nemandi tvö lög af listanum að eigin vali í samráði við kennara, þar af þarf eitt að vera í samsöng (tvísöng eða fjölraddað) þar sem nemandi er í burðarhlutverki (einn með sína rödd). Viku fyrir próf velur prófdómari einn sálm af listanum sem nemandi flytur á prófinu. Þyngdarstig verkefna á prófinu skulu miðuð við grunnstig í söng samkvæmt námskrá gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Hljómborðsleikur - verkleg hljómfræði
Nemendur fá 30 mínútna kennslutíma á viku í hljómborðsleik í heilan vetur. Fagið er skylda fyrir nemendur á framhaldsstigi í orgelleik og í framhaldsdeild í kirkjutónlist. Í faginu þjálfast nemendur í verklegri hljómfræði við hljómborðið þar sem unnið er út frá bókstafshljómum (einkum í sálmum og dægurtónlist/rytmískri tónlist). Kennd eru grunnatriði við hljómsetningar sálmalaga, almennra sönglaga og dægurtónlistar, tóntegundaskipti og tónflutningur þjálfaður og að spila eftir eyranu.
Markmið
Markmið hljómborðsleiks í orgelnámi á framhaldsstigi er að nemendur nái aukinni færni við hljómsetningar, við meðleik í ýmsum stíltegundum og geti notað píanóið við vinnu með kór, í guðsþjónustum og að leika undir söng.
Námsmat
Nemendur fá umsögn frá kennara fyrir frammistöðu og ástundun í lok hverrar annar. Námi í hljómborðsleik lýkur með lokaprófi þar sem lögð er áhersla á færni í verklegri hljómfræði samkvæmt námslýsingu og meðleik með söng.
Þátttaka í kórstarfi
Nemendur í framhaldsdeild þurfa að taka þátt í kórstarfi í tvær annir á námstímanum, þar af starfi kirkjukórs í a.m.k. eina önn. Kórarnir sem metnir eru til þátttöku þurfa að æfa a.m.k. einu sinni í viku og halda tónleika á hverri önn. Nemendur fá innsýn í innra starf kórstjórans og stjórnar kórsins og taka þátt í heilu ferli við undirbúning og framkvæmd á a.m.k. einum tónleikum á námstímanum. Nemandi þarf ekki að borga félagsgjöld í kórnum á námstímanum. Æskilegt er að kórstjóri veiti nemanda innsýn inn í starf kórstjórans og hvernig verk eru valin fyrir tónleika eða athafnir, hvernig inntökupróf fara fram, hvernig félagslífi kórsins er háttað og hvernig stjórnarstörfin fara fram.
Námsmat
Nemendur fá umsögn kórstjóra fyrir ástundun og virka þátttöku í lok hverrar annar. Mætingarskylda á æfingar kórs er 70%.
Kórstjórn
Kórstjórn er skyldugrein fyrir alla nemendur í framhaldsdeild í kirkjutónlist í tvær annir þar sem kennd eru undirstöðuatriði í kórstjórn. Í því felst að undirbúa kórverk, með eða án undirleiks, og stjórna flutningi þeirra. Nemendur öðlist tæknilega færni og þekkingu til að túlka og móta tónlistina á skýran hátt með tilliti til stíls, textainnihalds og stemmingar. Nemendur öðlist þekkingu á uppbyggingu kórastarfs, skipulagi kóræfinga, raddmótun og viðeigandi verkefnavali. Kórstjórn í framhaldsdeild er kennd á námskeiðsformi.
Markmið
Nemendur læri að slá grunntakttegundir með skýru, taktföstu slagi og góðri líkamsbeitingu, hafi vald á taktslagi fyrir mismunandi styrkleika og kunni skil á sjálfstæðri notkun handanna við túlkun kórverka. Nemendur öðlist þekkingu á tilgangi raddþjálfunar í kórstarfi og geti stýrt upphitun. Nemendur öðlist færni til að æfa og stjórna einföldu fjögurra radda kórverki og þjálfast í að velja kórverk fyrir tónleika og gera lagaröð.
Námsmat
Nemandi stjórnar einu kórverki í Tónskólamessu við lok námskeiðs, kennaramat.
Tónskólamessa
Á hverri vorönn undirbúa allir nemendur Tónskólans messu með virkri þátttöku. Þátttaka og undirbúningur messunnar er skylda fyrir nemendur framhaldsdeildar. Nemendur fá umsögn kennara fyrir ástundun og virka þátttöku.
Orgelhóptímar
Orgelhóptímar fara fram sex sinnum á hverjum vetri. Þátttaka og undirbúningur er skylda fyrir nemendur framhaldsdeildar. Nemendur fá umsögn kennara fyrir ástundun og virka þátttöku.
Kirkjufræði
Kirkjufræði er 12 tíma grunnnámskeið í biblíu- og trúfræði þar sem veitt er innsýn í guðfræði þjóðkirkjunnar og annarra kirkjudeilda. Einnig er farið í stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar.
Markmið
Að nemandi kynnist Biblíunni og notkun hennar og fái innsýn í trúfræði og játningar hinnar evangelísku-lúthersku kirjku. Að nemandi öðlist þekkingu á stjórn og starfsháttum Þjóðkirkjunnar.
Námsmat
Virk þátttaka og kennaramat.
Hagnýt kirkjusöngsfræði
21 tíma bóklegt og verklegt námskeið um messu- og sálmasöngshefði íslensku kirkjunnar. Á námskeiðinu kynnast nemendur sálmabók íslensku kirkjunnar, fræðast um grunnhugsun almennrar messu safnaðarins og æfast í sálmavali og messuflutningi. Farið er yfir sögu messuhalds frá siðbreytingu og þróun messusöngs frá þeim tíma til okkar daga.
Markmið
Að nemandi öðlist haldbæra þekkingu á almennri messu safnaðarins, verði handgenginn gildandi sálmabók og fái yfirlit yfir sögu og þróun messusöngs frá siðbreytingu.
Námsmat
Skrifleg og verkleg verkefni, virk þátttaka og kennaramat.
Námskeið í barnakórstjórn
12 tíma námskeið þar sem nemandi tekur þátt í þjálfun starfandi barnakórs undir leiðsögn stjórnanda hans. Námskeiðið fer fram sem fyrirlestrar, umræður og virk þátttaka á æfingum barnakórs.
Markmið
Markmið námskeiðs í barnakórstjórn er að nemandi fái innsýn í starf barnakórstjóra, kynnist aðferðafræði, nálgun og námsefni og öðlist grunnþjálfun í kennslu barnakóra.
Námsmat
Virk þátttaka og kennaramat.
Orgelfræði
Nám í orgelfræði er 21 tíma námskeið sem fram fer að hluta sem staðnám og að hluta sem fjarnám. Nemendur öðlast undirstöðuþekkngu á uppbyggingu orgelsins, læra að þekkja sögu orgela síðustu 600 ár og verða færir um að gera bilanagreiningu ásamt því að gera við einfaldar bilanir.
Markmið
Í verklegum hluta námsins læra nemendur um uppbyggingu orgelsins, fá kennslu í stillingu tunguradda og æfa bilanagreiningu. Lýsingar á hlutum orgels. Verklegur hluti fer fram í staðnámi. Í sögulegum hluta námskeðisins er fjallað um sögu orgelsins, sögulegum orgelum lýst og hlustað er á hljóðdæmi. Nemendur gera hljóðfæralýsingar frá hverju tímabili. Sögulegur hluti fer fram í fjarnámi.
Námsmat
Virk þátttaka og kennaramat.
Fjarnám
Hægt er að stunda nám í framhaldsdeild í kirkjutónlist að hluta í fjarnámi. Skilyrði er þó að nemandi geti a.m.k. fengið kennslu í orgelleik einu sinni í viku og sótt söngtíma og kórstarf í nærumhverfi. Staðlotur eru skipulagðar tengslum við orgelhóptíma í Reykjavík þar sem aðalaðsetur Tónskólans er. Skyldumæting er í staðloturnar fjórum sinnum yfir veturinn. Í staðlotum eru kenndir hóptímar í orgelleik, námskeið í kórstjórn, Tónskólamessa og önnur tilfallandi námskeið.
Lokatónleikar úr framhaldsdeild í kirkjutónlist
Námi við framhaldsdeild í kirkjutónlist lýkur með lokatónleikum eða framhaldsprófstónleikum á orgel. Áður en að lokatónleikum kemur þarf nemandi að hafa uppfyllt kröfur um þátttöku í kórstarfi, lokið bóklegum greinum og lokaprófum í hljómborðsleik, söng og kórstjórn og framhaldsprófi í orgelleik samkvæmt námskrá. Nemandi undirbýr 30-60 mínútna langa efnisskrá þar sem a.m.k. 12-15 mínúturu skulu vera einleikur á orgel. Efnisskráin getur að öðru leyti verið fjölbreytt eftir áhugasviði nemanda.
- Einleikur á orgel og/eða píanó
- Samspil með öðrum hljóðfæraleikurum eða söngvurum á hljómborðshljóðfæri
- Orgelspuni
- Flutningur á eigin tónsmíð
- Stjórna kór
- Samsöngur í litlum hóp þar sem nemandi er í burðarhlutverki (einn með sína rödd)
- Kenna áheyrendum lag og leiða almennan söng
Nám skv. eldri námskrá er aðeins í boði fyrir þá nemendur sem hófu nám við skólann haustið 2023 eða fyrr.
Námskrá 2023-2024
Kirkjuorganistapróf
Kantorspróf
Lokapróf í söng til kantorsprófs (breyting á eldri námskrá)
Á lokaprófi í söng til kantorsprófs flytja nemendur samtals fjögur lög, þar af eitt samsöngslag og tvo sálma. Einnig fer fram munnlegt viðtal við prófdómara þar sem nemandi sýnir þekkingu á raddbeitingu og hljómmyndun sem nýtist við tilsögn kóra.
Fyrir prófið skila nemendur lista með 20 lögum, þar af skulu vera 10 sálmar úr gildandi sálmabók. Á lokaprófi flytur nemandi tvö lög af listanum að eigin vali í samráði við kennara, þar af þarf eitt að vera í samsöng (tvísöng eða fjölraddað) þar sem nemandi er í burðarhlutverki (einn með sína rödd). Viku fyrir próf velur prófdómari tvo sálma af listanum sem nemandi flytur á prófinu. Þyngdarstig verkefna skulu miðuð við miðstig í söng samkvæmt námskrá gefinni út af Menntamálaráðuneytinu.
Orgelnám
Forskóli (1. og 2. bekkur) kr. 74.500,-
Grunnnám kr. 98.500,-
Miðnám kr. 112.500,-
Framhaldsnám kr. 209.000,-
Valgrein með grunn- og miðnámi kr. 96.500,-
(Val um 14 tíma í söng eða ryþmískum hljómborðsleik)
Framhaldsdeild í kirkjutónlist
Fullt nám kr. 295.000,-
Nám eftir eldri námskrá
Kirkjuorganistanám kr. 295.000,-
Endurmenntun og námskeið
Einleiksáfangi á orgel kr. 209.000,-
Einkatímar í orgelleik, söng eða ryþmískum hljómborðsleik (40 mínútur hver tími)
3 tímar kr. 26.000,-
5 tímar kr. 42.500,-
Ýmis námskeið: Sjá nánar undir flipanum Endurmenntun og námskeið hér á síðunni.