Prestastefna ályktaði um umhverfismál

2. maí 2018

Prestastefna ályktaði um umhverfismál


Umhverfismál voru umfjöllunarefni Prestastefnu 2018 sem fór fram í Neskirkju dagana 24.-26. apríl sl. Fyrirlestrar og málstofur fjölluðu um umhverfismál út frá ýmsum hliðum.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson flutti ávarp, dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor fjallaði um loftslagsbreytingar og guðfræðilega siðfræði, Hólmfríður Þorsteinsdóttir sérfræðingur frá Umhverfisstofnun fjallaði um Grænu skrefin í ríkisrekstri og séra Halldór Reynisson, séra Elínborg Sturludóttir og séra Axel Árnason Njarðvík fjölluðu um framkvæmdaáætlun umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar, sem kirkjuþing 2017 hafði áður samþykkt.

Dr. Martin Ishöy sóknarprestur í Danmörku, fjallaði um Grænu kirkjuna í Danmörku.

Málstofur voru fjórar, þar sem dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor, leiddi málstofuna Er ástandið í umhverfismálum ákall um nýja siðbót? Dr. Halldór Björnsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni leiddi málstofu um loftslagsbreytingar, séra Elínborg Sturludóttir, fjallaði um pílagríma og umhverfismál og mag.theol. Sindri Geir Óskarsson, leiddi málstofu um umhverfismál og lúterska heimssambandið.

Prestastefnan 2018 samþykkti eftirfarandi ályktun:

Prestastefna 2018 hvetur stjórnvöld á Íslandi til dáða og styður vinnu að aðgerðaráætlun vegna loftslagsmála á Íslandi. Þá hvetur hún kirkjuleg stjórnvöld og söfnuði kirkjunnar til að leggja sitt af mörkum til þess að Íslendingar nái að standa við þau markmið í loftslagsmálum sem þeir hafa skuldbundið sig til. Má þar nefna að Íslendingar dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 35-40 prósent fyrir 2030, miðað við losun 1990 svo að hlýnun andrúmslofts verði vel innan við 2 gráður (miðað við stöðuna fyrir iðnbyltingu).

Prestastefna 2018 hvetur einnig biskup Íslands fyrir hönd þjóðkirkjunnar til að skrifa undir yfirlýsingu (s.k. Arctic Commitment) um að bruni svartolíu til að knýja skip verði bannaður á norðurslóðum, svo og flutningur á svartolíu nema óhjákvæmilegt sé fyrir íbúa nyrstu byggða.


Dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, flutti ávarp við setningu stefnunnar, auk biskups Íslands, sem boðar til prestastefnu á hverju ári, ávarp biskups má nálgast hér:

Myndir frá stefnunni má nálgast hér.
  • Ályktun

  • Ráðstefna

Sándor Kerekes, nýi organistinn og kórstjórinn í Egilsstaðakirkju, Vallaneskirkju og Þingmúlakirkju – mynd: Þorgeir Arason

Hlakkar til kirkjustarfsins

16. ágú. 2022
Sándor Kerekes er nýr organisti í Egilsstaðaprestakalli
Nýi vígslubiskupinn í Hólaumdæmi, sr. Gísli Gunnarsson, við altarisþjónustu á vígsludegi - mynd: hsh

Líf, vöxtur og þroski

14. ágú. 2022
...kjörorð nýja vígslubiskupsins í Hólaumdæmi
Hólar.jpg - mynd

Streymi frá biskupsvígslu

14. ágú. 2022
Bein útsending frá vígslu séra Gísla Gunnarssonar til embættis vígslubiskups í Hólaumdæmi.