Prestur innflytjenda þjónar hælisleitendum

25. janúar 2019

Prestur innflytjenda þjónar hælisleitendum

Á hverju fimmtudagseftirmiðdegi fer fram helgistund í Háteigskirkju. Hún er haldin af séra Toshiki Toma, presti innflytjenda, ásamt séra Evu Björk Valdimarsdóttur og séra Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur. Hópurinn sem þar hittist er kallaður Seekers og samanstendur af kristnum hælisleitendum sem á undanförnum árum hafa flúið slæmt ástand í sínu heimalandi og komið til Íslands í leit að betra lífi.

Agnes biskup vísiterar þessa dagana sóknir Reykjavíkurprófastsdæmis vestra, meðal annars Seekers hópinn.

Frá Japan til Íslands

Séra Toshiki flutti til Íslands frá heimalandi sínu Japan árið 1992 og hefur síðan árið 1996 starfað sem prestur innflytjenda hjá þjóðkirkjunni.

„Starf mitt hóst þannig að ég hitti fyrir marga asíska innflytjendur sem voru að koma til Íslands á sama tíma. Ég vildi gera eitthvað fyrir þá. Það var byrjunin,“ segir Toshiki. „Þau áttu auðveldara með að opna sig við mig en Íslendinga því ég er líka asískur. Það var auðveldara fyrir þau að tala við einhvern sem skildi þeirra bakgrunn. Þetta var ekki bundið við kristna trú, fólk gat verið búddistar eða trúleysingjar, það skipti ekki máli.“

Hann segir að kirkjan hafi í raun verið á undan sínum samtíma á þeim árum, því ekki var hægt að sækja mikla félagslega aðstoð hjá ríkinu og sveitarfélögum. Núna er öldin þó önnur og margir vinna að málefnum innflytjenda. Því fór hann að einbeita sér meira að innra starfi kirkjunnar.

„Síðustu fjögur til fimm árin hefur starf mitt svo aftur tekið ákveðnum stakkaskiptum og nú starfa ég mikið með hælisleitendum. Það var mikið af kristnu fólki sem óskaði eftir helgistundum og það var byrjunin á Seekers.“

Hópurinn stækkaði ört og þétt og tilvist helgistundanna spurðist út. Í dag er svo einnig haldin samskonar samkoma í Keflavík þar sem margir flóttamenn búa.

Af hverju prestur?

„Ég starfaði sem sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum og stundum fór ég á hostelið í Njarðvík. Ég fór ekki þangað til að vera með trúboð heldur til að hitta fólk og aðstoða það ef ég átti möguleika á. Til dæmis gat ég komið skilaboðum til fólks í Reykjavík. En svo þegar það spurðist út að ég væri prestur komu nokkrir kristnir til mín og við fórum að tala saman.“

Eftir Seekers fundinn fær hópurinn sér kaffi og kökur í safnaðarheimili Háteigskirkju. Áttaliðaúrslit Asíubikarsins eru akkúrat í gangi og fram fer leikur Írans við Kína. Íranarnir fylgjast með leiknum á snjallsíma en hlé er gert á leiknum þar sem einstaklingar í hópnum vilja segja biskup sína sögu. Fræða hana um ástandið í heimalandinu og hvernig margir þeirra veltast um í kerfinu án þess að vita örlög sín. Sumir hafa þó fengið dvalarleyfi og hafa hafið hversdagslegt líf á Íslandi.

En Seekers er ekki eina samkoma kristinna útlendinga innan þjóðkirkjunnar. Alla sunnudaga (nema síðasta hvers mánaðar) heldur Toshiki messu fyrir alþjóðlega söfnuðinn (The International Congregation) í Breiðholtskirkju.

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur áhuga á þjónustu þjóðkirkjunnar við innflytjendur eða hælisleitendur þá er hægt að komast í samband við Toshiki á heimasíðunni hans. Hana má nálgast hér.

  • Frétt

Á svölum vetrardögum er gott að orna sér við tónlistina

„...gefandi og uppbyggjandi...“

26. jan. 2021
Kraftmikið námskeið í boði
Bessastaðakirkja á fallegum degi

Elvis í Bessastaðakirkju

25. jan. 2021
...góð stund
Skírnarskál Digraneskirkju - myndbrot

Kynning á störfum

24. jan. 2021
...ný tækifæri