Ólafur B. Valgeirsson, kirkjuþingsmaður, kvaddur

17. apríl 2019

Ólafur B. Valgeirsson, kirkjuþingsmaður, kvaddur

Ólafur Björgvin Valgeirsson, kirkjuþingsmaður fyrir Austurlandsprófastsdæmi, varð bráðkvaddur á heimili sínu 6. apríl s.l., á Vopnafirði, og var jarðsunginn 15. apríl frá Vopnafjarðarkirkju.

Ólafur Björgvin fæddist á Akureyri 20. janúar 1955. Foreldrar hans voru Helga Björg Jónsdóttir, frá Þorvaldsstöðum í Breiðdal, og Valgeir Eiríksson frá Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði. Eftirlifandi eiginkona hans er Jóna Benedikta Júlíusdóttir, og áttu þau þrjú börn, Júlíönnu Þórbjörgu, Rannveigu Hrund og Hafliða Frey.

Ólafur Björgvin lauk búfræðiprófi frá Hólaskóla sem og námi í ferðamálafræðum frá sama skóla árið 2012. Hann hafði kennsluréttindi frá Kennaraháskóla Íslands og lauk margvíslegum námskeiðum við ýmsa framhaldsskóla. Áhugasvið hans var víðfeðmt og náði meðal annars til tungumála sem hann lærði af eigin rammleik. Góður sögumaður og mjög fróður um marga hluti.

Lengstum starfaði Ólafur Björgvin sem sundlaugavörður við Sundlaugin í Selárdal. Um tíma var hann sjómaður og þá vann hann einnig lengi með fólki sem býr við skerta starfsgetu.

Ólafur Björgvin var félagsmálamaður mikill í sinni heimasveit, Vopnafirði. Formaður Sjómannafélags Vopnafjarðar, Sjálfsbjargar í Vopnafirði, og Rauðakrossdeildar Vopnafjarðar. Sömuleiðis sat hann í stjórn Héraðskjalasafns Austurlands og var lengi formaður. Í félagsmálum var hann traustur og athugull, ræðinn og framtakssamur.

Ólafur Björgvin lét kirkjumál mjög til sín taka. Hann var formaður sóknarnefndar Vopnafjarðarkirkju um árabil og kirkjuþingsmaður. Kórastarf á Vopnafirði naut söngkrafta hans enda hann prýðilegur söngmaður og mikill áhugamaður um tónlist.

Á síðustu kirkjuþingum sat Ólafur Björgvin í fjárhagsnefnd. Hann var glöggur og tillögugóður. Á kirkjuþingi var hann hispurslaus í máli og sanngjarn. Hélt fram hlut landsbyggðarinnar af einurð og krafti ef honum fannst á hana hallað. Hann var mjög áhugasamur um kirkjuþingsstörfin. Jafnan var hann glaðsinna, traustur og góður félagi, samskiptalipur og hinn þægilegasti í allri viðkynningu.

Ólafur Björgvin Valgeirsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

  • Frétt

  • Þing

Barnakór 2.png - mynd

Barnakór Fossvogs í Bústaðakirkju með nýju sniði

27. feb. 2024
.....í samstarfi við Tónlistarskóla Grafarvogs
Lágafellskirkja

Barnakór Lágafellskirkju tekur virkan þátt í samfélaginu

26. feb. 2024
....eldri- og yngri barnakór