Stingið augunum í eyrun

9. maí 2019

Stingið augunum í eyrun

Myndin er birt með leyfi RÚV.

Bein útsending frá fyrri undankeppni í Eurovision í Tel Aviv í Ísrael fer fram þriðjudaginn 14. maí. Landsmenn munu flykkjast að sjónvarpstækjunum og fylgjast vel með framgangi íslenska lagsins. Það eru miklar væntingar um að lagið muni ná langt og sumir spá jafnvel hatrinu sigri. Ungu mennirnir í hljómsveitinni hafa vakið mikla athygli fyrir lag, búninga og viðkunnanlega framkomu.

Þegar lagið heyrðist fyrst í keppninni hér heima féllu ekki margir fullorðnir fyrir því heldur fjöldamörg börn. Mikil umræða hófst í samfélaginu um boðskap lagsins og sýndist sitt hverjum. Þarna voru á ferð ungir og sprækir menn, en þó alvörufullir og í sérstökum búningum sem vöktu strax athygli og umtal. Sumir gátu ekki leynt hneykslun sinni, en búningarnir náðu til barna með undraverðum hraða og urðu ótrúlega vinsælir. Á síðasta öskudegi fóru börn syngjandi um borg og bý í stíl við sviðslistamennina Hatara. Hvort þau hins vegar sungu íslenska sigurlagið er ekki vitað.

En söngvakeppnin er vina- og fjölskylduhátíð. Það er mikil spenna í lofti og vinsælasti rétturinn með áhorfinu er pizza og svo auðvitað ómælt sælgæti. Gleðin er mikil – já, þetta er á vissan hátt stund gleðinnar og samvistanna með fólki sem þykir vænt um hvert annað.

Keppnin er jákvæður vorboði á köldu landi ísa. Það er ekki bara íslenska lagið sem mörgum þykir flott heldur líka mörg önnur falleg lög. Fólk ræðir tónlist. Ræðir um flytjendur laga og búninga. Hefur skoðanir. Söngvakeppnin er tilbreyting – afþreying í orðsins fyllstu merkingu. Og jafnvel meira ef texti laganna flytur boðskap sem skiptir máli og það er reyndar oftast svo. Ástin og kærleikurinn, vinátta og bjartsýni, eru stef í flestum laganna. Í kringum þau stef safnast fólk saman. Það er kristilegur tónn í öllu saman sem fólki líkar vel við. Hversu kristið það telur sig nú annars vera, en það er önnur saga.

En nú hrökkva menn við þegar sungið er um að hatrið muni sigra? Og mitt í allri gleðinni hjá áhorfendum er sungið fyrir framan þá á sviðinu í Tel Aviv: Gleðin tekur enda.
Hvað er átt við?

Fólk þarf ekki að fylgjast lengi með fréttum til að sjá að hatrið í heiminum grefur víða um sig. Það sigrar hér og þar. En af hverju að syngja um það?
Ef herópið er að hatrið muni sigra berst út um víðan völl er nokkuð öruggt að þau sem skipað hafa sér í lið með kærleikanum muni rísa upp og segja frá kærleikanum. Hvernig hann getur breytt lífi manna til hins betra – allir vita að hatrið tærir menn upp og gerir lífið óbærilegt.

Kannski er söngur Hataranna hvatning um að láta hið gagnstæða spretta fram: sjálfan kærleikann. Og sjá til þess að gleðin taki ekki enda. Gleðin yfir lífinu. Gleðin yfir því að vera lifandi manneskja.

Lífið er tilgangslaust, segir líka í texta Hataranna. Sú fullyrðing kallar strax á aðra spurningu: Er það nú svo? Hún getur orðið tilefni til endalausra umræðna milli fólks. Og líka við börnin. Hvaða hugmynd fær barn í höfuðið um lífið ef það tekur umhugsunarlaust við fullyrðingunni um tilgangsleysi lífsins? Borgar sig að sýna kærleika ef tilgangurinn er enginn með lífinu? Er þá hægt að sýna gleði? Þessi eina setning gæti orðið verðugt umræðuefni í kirkjulegu starfi hvort heldur með börnum eða fullorðnum.

Guð er kærleikur, það er kjarni kristinnar trúar. Hann sigrar hatrið. Það er að minnsta kosti von kristinna manna. Og Guð segir að hver maður hafi tilgang í lífinu. Þess vegna sé líka fullt tilefni og meira til að sýna gleði.

Eyrað er merkilegt líffæri. Stórkostleg smíð skaparans hvort heldur það er nú lítið eða stórt. Og það fannst Lúther gamla líka. Hann sagði að tónlistin gegndi hlutverki huggunar – hún hressir dapran huga. Já, og er hið alþjóðlega tungumál – mál sem allir skilja. Hreyfir við öllum. Lúther sagði að trúin á Guð fengist með því að nota eyrun til að hlusta. Hann sagði þetta í 486 ára gamalli prédikun (svo þetta sé nú poppað upp): horfið ekki á Jesú með augunum heldur stingið augunum í eyrun.
Og hvað ætli við sjáum þá? Hatur? Eða kærleika?
Hvort skyldi nú fá fleiri stig í hversdagslegu lífi okkar?

Þá er bara strax hægt að fara að hlakka til að undankeppni söngvakeppninnar 14. maí. Svo nú ekki sé talað um aðalkeppnina 18. maí. Skyldi sigurinn nást í höfn?
En sigur hvers? Vonandi þinn. Sigur kærleikans.

Myndin er birt með leyfi RÚV

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefanía G. Steinsdóttir

Sr. Stefanía ráðin

29. mar. 2023
......í Ólafsfjarðarprestakall
Bjarni Gíslason í nýjum jakka frá Úganda

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda

28. mar. 2023
.....viðtal við Bjarna Gíslason framkvæmdastjóra
Evrópufundur LWF - mynd:LWF/Albin Hillert

Ályktun Evrópufundar Lútherska heimssambandsins

27. mar. 2023
.....samþykkt í Oxford á föstudaginn