Tími héraðsfundanna

23. maí 2019

Tími héraðsfundanna

Héraðsfundur

Nú er tími héraðsfundanna en samkvæmt starfsreglum á að halda þá fyrir 15. júní ár hvert. Héraðsfundur er aðalfundur hvers prófastsdæmis og dagskrá hans er fjölbreytileg.

Héraðsfundur Reykjavíkurprófastsdæmis vestra var haldinn í gær í Háteigskirkju.

Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur, flutti yfirlitsskýrslu um starfið, héraðsprestur sagði frá hvað á daga hans hefði drifið á liðnu ári í starfinu; sagt var frá starfi Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum, og greint frá starfi Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastdæma og leikmannastefnu sem var nú haldin á Ísafirði. Þá voru reikningar héraðssjóðs lagðir fram, fjárhagsáætlun hans, og reikningar sókna og kirkjugarða. Kosið var einnig til nokkurra trúnaðarstarfa eins og héraðsnefndar og leikmannastefnu.

Í anda umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar voru öll fundargögn héraðsfundar send fundarmönnum í rafrænu formi og var almenn ánægja með það.

Í yfirlitsræðu sinni fór prófastur yfir starfið í prófastsdæminu á liðnu starfsári. Starfið er gróskumikið og margt sem fer fram fyrir utan reglulega fundi með prestum og djáknum prófastsdæmisins. Dæmi um það er messuþjónahátíð Reykjavíkurprófastsdæmanna beggja sem haldin var í maí í fyrra í Háteigskirkju, móttöku fyrir biskup anglíkönsku kirkjunnar, fund með formönnum sóknarnefnda, heimsókn prófasts til íslenska safnaðarins í Gautaborg, og þannig mætti lengi telja. Hæst bar á starfsárinu vísitasíu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur. Prófastur lagði upp með þann þráð í vísitasíunni að lyfta upp sérþjónustu kirkjunnar en öll sú þjónusta heyrir undir Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Auk venjubundinna heimsókna í söfnuði í prófastsdæminu og eftir atvikum stofnanir sem eru innan marka þeirra, voru vísiteraðar starfsstöðvar sérþjónustunnar og rætt við þá presta er gegna þeirri þjónustu.

Gestamál héraðsfundar Reykjavíkurprófastsdæmis vestra var erindi Huldu Dóru Styrmisdóttur, stjórnunarráðgjafa, sem bar yfirskriftina: Mannauður, samskipti og gleði á vinnustöðum þar sem fólk vinnur með fólki. Það var hressilegur fyrirlestur þar sem kastljósinu var einkum beint að sálgætinum sjálfum og líðan hans á vinnustaðnum og hversu flókið gangvirki slíkur staður getur verið.

Héraðsfundarfólk snæddi á fundinum góðan mat, grillað lambakjöt og ljúffengan eftirrétt.

  • Frétt

  • Fundur

  • Skipulag

Kristín og Steinunn

Biskupskápa hönnuð og saumuð af íslenskum konum

17. sep. 2024
... fagurblá með birkigreinum
Dómkirkjan í Reykjavík

Örpílagrímagöngur frá Dómkirkjunni

17. sep. 2024
...alla miðvikudaga kl. 18:00
Krakkar í Búst..jpg - mynd

Fimm ára börn fengu Litlu Biblíuna

16. sep. 2024
...í Bústaðakirkju