Prestur skrifar spennutrylli

24. maí 2019

Prestur skrifar spennutrylli

Líkið í kirkjugarðinum

Nýlega kom út bókin Líkið í kirkjugarðinum, eftir sr. Fritz Má Jörgensson, prest við Keflavíkurkirkju. Þetta er fimmta bók hans. Forlagið Ugla gaf út. Um er að ræða glæpasögu og verður lesandi ekki svikinn um þrúgandi spennu frá fyrstu blaðsíðu eins og segir á bókarkápu.

Bókin fjallar um prest, sem Sigrún heitir og er á fertugsaldri, ógift og barnlaus. Vinir og vinnufélagar í kirkjunni vilja koma henni í hnappelduna. Hún á í ástarsambandi við Sigurð nokkurn en er að íhuga að segja honum upp. Sambandið hefur gengið á enda að henni finnst. Sigurður vill ekki ljúka sambandinu og gerir hvað hann getur til að halda í hana. Henni fannst hann „ósköp notalegur í upphafi og fannst það raunar enn. En hún var ekki tilbúin til að eyða með honum eftirmiðdögum hversdagsins. Hún fann sig bara ekki í því.“ (Bls. 24-25). Þegar hún svarar ekki símhringingum hans kemur hann í kirkjuna: „Prúðbúinn og flottur. Já, það vantaði ekkert upp á það að hann væri flottur.“ (Bls. 25). Hún er með samviskubit vegna þessa lausa sambands: „Hún var prestur, prestar koma ekki svona fram við fólk.“ (Bls. 33-34). Og þau höfðu ekki sama smekk fyrir kvikmyndum. Hún vildi „hasar, ævintýri og djöflagang. Ekki beint prestslegt...“ (bls. 34). Hann vildi rólegar myndir. Hann átti sína fortíð, hafði verið á upptökuheimili og í óreglu. Var nú orðinn háskólakennari og kærastan var prestur. Það fannst honum magnað. En með Sigrúnu fylgist á laun eltihrellir sem elskar hana heitt og fylgist lesandinn með hugrenningum hans í skáletruðum texta bókarinnar. Þar er á ferðinni stjórnsamur maður og andleg heilsa hans augljóslega í molum. Og hann fylgist með fleiri konum en henni og virðist líka vera snortinn einhvers konar trúarbrjálsemi. Sigrún kemst á snoðir um þennan eltihrelli og verður skelkuð. Þegar henni er nóg boðið hringir hún í Sigurð kærasta og segir honum frá. Hann kemur að bragði til hennar og þau fara yfir stöðu mála. Ákveðið er að gera lögreglu viðvart. Samskipti þeirra Sigrúnar og Sigurðar eru stirð á köflum, stormasöm, og ýmsar sálarhræringar gera vart við sig hjá þeim. Þar kemur sögu að lík af karlmanni milli þrítugs og fertugs finnst í Hólavallakirkjugarði, var þar dauður á bekk, stunginn á hol. Fljótlega vakna grunsemdir um að mál hins sálsjúka eltihrellis og morðsins tengist. Síðan hefst spennuþrungin atburðarás og verður ekki meira rakið af þessari sögu hér. Lesandinn njóti!

Bókin er lipurlega skrifuð, málfar skýrt og gott. Söguþráðum er ágætlega fléttað saman og ljóst að höfundur er mannþekkjari og góður greinandi. Þar kemur eflaust að góðu margvísleg menntun og reynsla höfundar. Þetta er semsé ágæt bók.

En hver er Fritz Már? Hann er auk þess að vera guðfræðingur, vígður prestur, með meistaragráðu í praktískri guðfræði, rithöfundur, iðnrekstrarfræðingur, stundar doktorsnám við Háskóla Íslands, með próf í vímuefnafræðum frá félagsráðgjafadeild sama skóla. Þá setti hann á laggirnar vefinn Netkirkja sem er fyrsta rafræna kirkjan á Íslandi ef svo má segja. Auk þess hefur hann fengist við fararstjórn, þáttagerð í sjónvarpi og margvíslega rekstrarráðgjöf.

Augljóst er að þarna er ekki einhamur maður á ferð!

Margir prestar hafa fengist við ritstörf eins og kunnugt er. Sr. Fritz er sennilega eini presturinn sem hefur skrifað krimma, eins og bókmenntir þessar eru kallaðar í daglegu máli. Þess skal getið að djákninn Guðmundur S. Brynjólfsson sem einnig er rithöfundur sendi frá sér spennusögu fyrir jólin, Eitraða barnið, sem fékk góða dóma.

Ástæða er til að óska sr. Fritz Má til hamingju með bókina.

  • Frétt

  • Menning

  • Útgáfa

  • Menning

Sr. Toshiki með Biblíuna á farsi

Biblíufélagið gefur Biblíur á farsi

12. sep. 2024
...til Alþjóðlega safnaðarins
Landsp..jpg - mynd

Laust starf sjúkrahúsprests eða djákna

12. sep. 2024
...á Landspítala
Kópavogskirkja böðuð gulu ljósi

Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

11. sep. 2024
...kyrrðarstundir í kirkjum landsins