Sóknarpresturinn er hetja í Breiðholti

24. maí 2019

Sóknarpresturinn er hetja í Breiðholti

Þú ert hetja sr. Guðmundur Karl

Breiðhyltingar hafa tilnefnt undanfarin tvö ár einstaklinga, hópa, félög eða fyrirtæki sem hafa á einhvern hátt verið til fyrirmyndar eða haft jákvæð áhrif á hverfið og hverfisandann.

Tilgangurinn er að þakka viðkomandi fyrir framlag til hverfisins og jafnframt að efla félagsauðinn í Breiðholti. Þau sem fá þessa viðurkenningu kallast hetjur Breiðholts.

Í þetta sinn voru 16 aðilar tilnefndir og fengu viðurkenningarskjal af því tilefni þar sem segir: Þú ert hetja. Í þeim hópi var sóknarpresturinn í Hólabrekkuprestakalli, sr. Guðmundur Karl Ágústsson.

Sr. Guðmundur hefur verið sóknarprestur í Breiðholti í 32 ár. Áður þjónaði hann Ólafsvíkurprestakalli í sjö ár.

Hann hefur haft forystu í kirkjustarfi safnaðarins ásamt vösku samstarfsfólki sínu. Starfið hefur verið fjölbreytilegt og stöðugt, æskulýðsstarf, unglingastarf og starf fyrir eldri borgara. Bryddað hefur verið upp á nýjungum eins og karlakaffi síðasta föstudag hvers mánaðar. Alltaf er einhverjum gesti boðið sem ræðir við karlahópinn og verða oft fjörlegar umræður, og sér í lagi ef gesturinn er úr röðum eldri stjórnmálamanna sem kemur fyrir. Þessi nýjung hefur gefið góða raun. Kaffistundir þessar hafa verið vel sóttar og ekki aðeins af sóknarkörlum úr Fella- og Hólasókn heldur og körlum úr öðrum sóknum.

Fella-og Hólakirkja er vönduð bygging og falleg. Prýdd steindum gluggum eftir Leif Breiðfjörð, glerlistamann. Messuskrúði er hannaður af Sigríði Jóhannesdóttur, textílhönnuð. Í kirkjunni eru að jafnaði átta starfsmenn að störfum. Kirkjan var reist fyrir tvær sóknir á sínum tíma sem þótti nýlunda og hefur reynst mikið gæfuspor. Hún var vígð 1988. Sóknirnar tvær voru sameinaðar árið 1987 í Hólabrekkuprestakall. Svo getur farið að prestakallið stækki og taki breytingum því að Breiðholtssókn og Fella- og Hólasókn hafa óskað eftir því við biskupafund að flutt verði á næsta kirkjuþingi tillaga um að prestaköllin tvö verði sameinuð í eitt.

Íbúar Hólabrekkuprestakalls eru um 9000 og þar af er um helmingur skráður í þjóðkirkjuna. Þó nokkur fjöldi nýbúa býr í prestakallinu og tilheyra margir þeirra kaþólsku kirkjunni.

Heimasíða Fella- og Hólakirkju er: Fella og Hólakirkja

  • Frétt

  • Samfélag

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Toshiki með Biblíuna á farsi

Biblíufélagið gefur Biblíur á farsi

12. sep. 2024
...til Alþjóðlega safnaðarins
Landsp..jpg - mynd

Laust starf sjúkrahúsprests eða djákna

12. sep. 2024
...á Landspítala
Kópavogskirkja böðuð gulu ljósi

Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga

11. sep. 2024
...kyrrðarstundir í kirkjum landsins