Kirkjuþingsmaður gefur út bók

13. júní 2019

Kirkjuþingsmaður gefur út bók

Veturnætur - Ljóðamyndir

Nýlega kom út bókin Veturnætur - Ljóðmyndir eftir kirkjuþingsmanninn, Guðlaug Óskarsson.

Ljóðin fléttast saman við fallegar myndir sem hann hefur tekið, stundum hefur ljóðið sprottið upp af mynd eða kannski mynd af ljóði. Hvort tveggja fellur saman hjá höfundi sem er einkar laginn og listrænn ljósmyndari. Myndefni hans er náttúran í allri sinni dýrð, stráið veikburða og kraftmikil fjöll og íbyggin, strönd og nærmyndir af blómjurtum, og hestar enda hann hestamaður mikill. Ljóðin eru tær og myndir þess skýrar; fínleg ljóð og augljóst að höfundur er fullur auðmýktar gagnvart viðfangsefni sínu sem er íslensk náttúra og lífið sjálft í öllum sínum margbreytileika. Þetta er bók sem er svo sannarlega þess virði að lesa og skoða. Það er vel til fundið hjá höfundi að tala um ljóð sín og myndir sem ljóðmyndir.

Guðlaugur Óskarsson er kirkjuþingsmaður fyrir Vesturlandsprófastsdæmi og einn af varaforsetum kirkjuþings. Hann hefur starfað að skólamálum alla sína tíð, var um áratugaskeið skólastjóri á Kleppsjárnreykjum í Borgarfirði. Þá hefur hann verið mikill kirkjunnar maður og var lengi formaður sóknarnefndar Reykholtssóknar í Borgarfirði.

Ritstjóri bókarinnar er Hlín Helga Guðlaugsdóttir. Um hönnun sáu þau Birna Geirfinnsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson hjá Studio-Studio. Bókin er 93 blaðsíður og var prentuð á vegum Prentmiðlunar í Lettlandi en útgefandi er höfundur hennar.

Óhætt er að óska Guðlaugi innilega til hamingju með þessa fallegu bók.

Eitt ljóðanna í bókinni hljóðar svo:

Í ævi minnar iðu
endasendist ég
eins og í belg og biðu
baráttuveg

já alltaf
meðan lifi ég
er baráttunnar virði
að fara um fjöll
og firði


og boðaföll
í lífsins flaumi
í vöku sem draumi


(Vökunætur – Ljóðmyndir, bls. 34).

 

  • Frétt

  • Menning

  • Útgáfa

  • Menning

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut