Norrænir biskupar hittast í Lappeenranta

26. júní 2019

Norrænir biskupar hittast í Lappeenranta

Biskupafundurinn í FinnlandiNorrænn biskupafundur hófst í Lappeenranta í gær 24. júní með messu í Lappee kirkjunni. Þar predikaði erkibiskup Finna Tapio Luoma og talaði um það hvaða þýðingu það hefur fyrir Finna að eiga lengstu landamæri að Rússlandi og hvernig það hefur mótað sögu Finna. Hann predikaði út frá sögunni um ríka manninn og Lasarus sem voru á landamærum lífs og dauða. Minnti hann okkur á að lifa hérna megin landamæranna í trú á hinn upprisna frelsara og lifa í kærleika til náungans. Eftir messuna bauð borgarstjóri Lappeenranta okkur til veglegrar veislu.

Í morgun þriðjudaginn 23. júní hófst fundurinn á því að höfuðbiskupar Norðurlandanna fluttu erindi um aðstæður í kirkjunum sínum. Peter Skov Jakobsen Kaupmannahafnarbiskup hóf sitt erindi á því að ræða um kirkju og samfélag og þær samfélagslegu breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum hér á Norðurlöndum. Sagði hann að þjóðernishyggja færðist mjög í aukana í Danmörku og varaði sterklega við því að við myndum skilgreina okkur sem þjóðerniskirkju, þó margir héldu því fram að ekkert væri eins danskt og danska Þjóðkirkjan. Skírnum hefur fækkað og við verðum að átta okkur á því að fólkið skilur kristindóminn á annan hátt en guðfræðingar. Í lokin lagði hann áherslu á að við verðum að segja fólki að kristindómurinn er um kærleikann en ekki trúarsetningar.Í fyrsta skipti var biskupum eistnesku kirkjunnar boðið að vera með á norrænum biskupafundi. Urmas Viilma erkibiskup lúthersku kirkjunnar í Eistlandi sagði að tæplega 10% Eista væru lútherskir og 28% teldust til kristinna trúfélaga, en um 54% væru utan allra trúfélaga. Mjög gott samband er við orþódoxana og kaþólikkana, en leiðtogar þessara kirkna hittast mánaðarlega, borða saman og eiga saman góðar samræður.

Sofie Petersen biskup Grænlendinga sagði okkur að 94% fólksins væru í kirkjunni, en kirkjusókn færi minnkandi. Loftslagsbreytingar hafa haft mikil áhrif á líf Grænlendinga, selurinn er að hverfa og hvítabirnir koma inn í þorpin í ætisleit. Á næsta ári verður því fagnað að 300 ár eru liðin frá því að Grænlendingar urðu kristnir.Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands sagði frá hinni nýju menntastefnu sem samþykkt var 2018 og gildir til 2022. Þar er lögð áhersla á skírnina og umhverfismál. Sagði hún frá breyttri prestakallaskipann og erfiðri fjárhagslegri afkomu safnaðanna.

Helga Haugland Byfluglien höfuðbiskup Noregs sagði frá þeim breytingum sem hafa orðið í norsku kirkjunni frá síðasta norræna biskupafundi 2016. Aðskilnaður ríkis og kirkju hófst 2012, en tók gildi formlega í janúar 2017. Hefur þetta gengið vonum framar. Kirkjan var tilbúin til að taka að sér ábyrgðina og kirkjulífið hefur ekki breyst. Nú hafa prestar ekki lengur prestsbústaði og hefur það verið svo í fimm ár. Það hefur bæði kosti og galla.

Antje Jackelén erkibiskup Svía og Karin Johannesson biskup í Uppsölum sögðu frá því að á síðasta ári kom út ný handbók sænsku kirkjunnar og árið 2017 var samþykkt ný menntatefna og er í henni mikil áhersla á samtal milli trúarbragða. Aukin áhugi er á andlegum efnum (spirituality) og pílagrímagöngum. Lögðu þær áherslu á að gæta þyrfti jafnvægis milli andlegrar íhugunar og samfélagslegrar ábyrgðar. Nú stendur yfir vinna við að endurskoða umhverfisstefnuna.

Björn Vikström biskup í Borgaa í Finnlandi sagði að mikil vinna færi í samtal milli trúarbragða. Auk þess sagði hann frá afar áhugaverðu verkefni sem kirkjan er að vinna í tengslum við samstarf við skóla og leikskóla. Í því er lögð áhersla á söfnuðinn sem samstarfsaðila.

Skilaboðin til skólanna er í fyrsta lagi að heimakirkjan er svæði til að fræðast á, kirkjan hefur sérfræðinga í sinni þjónustu og hefur ábyrga starfshætti. Í öðru lagi eru skilaboðin þau að kirkjan heldur hátíðir sem eru hluti af finnskri menningu og kirkjan stundar ekki tilbeiðslu í skólaheimsóknum. Í þriðja lagi ákveður foreldri hvort barn tekur þátt í tilboðum kirkjunnar og skólinn býður upp á samsvarandi dagskrá fyrir þau börn sem það vilja þiggja. Og í fjórða lagi býður kirkjan stuðning við velferð barnanna.

  • Alþjóðastarf

  • Biskup

  • Frétt

  • Biskup

Sr. Steinunn Anna

Sr. Steinunn Anna Baldvinsdóttir ráðin til Seljasóknar

24. maí 2024
...var vígð í Skálholti á annan í hvítasunnu
Sr. Guðlaug Helga

Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir ráðin í Mosfellsprestakall

24. maí 2024
...var vígð í Skálholti á annan í hvítasunnu.