Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir varði nýlega doktorsritgerð sína

12. júlí 2019

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir varði nýlega doktorsritgerð sína

sr. Steinunn Arnþrúður BjörnsdóttirSteinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju, varði nýlega doktorsritgerð sína Prestar og umbætur: Rannsókn á umbótum og tilraunum til umbóta innan Þjóðkirkjunnar með áherslu á hlutverk presta.

Rannsóknin er svokölluð reynsluathugun, byggð á þremur tilviksrannsóknum þar sem eigindlegar rannsóknaraðferðir voru nýttar við að skoða ákveðin ferli innan kirkjunnar.

Fyrsta tilviksrannsóknin snéri að breytingum hjá söfnuðum þjóðkirkjunnar í kjölfar skattalagabreytinga á níunda áratug síðustu aldar og áhrif breytinganna á stöðu presta. Skattabreytingarnar juku tekjur sókna umtalsvert og í stórum sóknum leiddi þetta til aukinnar starfsemi og fleira starfsfólks.

Önnur tilviksrannsóknin snéri að hlutverki presta varðandi stefnumótun kirkjunnar og eftirfylgd hennar 2003 – 2009 og síðasta rannsóknin fjallaði um mótttökur tillagna um samstarfssvæði og þátt presta í því. Fram kom í rannsókn 2 og 3 að kirkjustjórnin leit á ferlið út frá hlutlægu mati, og það virkaði í efri sviðum stjórnsýslu en ekki í grasrótinni. Prestar mátu ferlið huglægar, og var leitað skýringa á þessum mun.

Í rannsókninni var meðal annars spurt um stöðu tillagna kirkjustjórnar í ferlunum og stöðu presta í breytingaferli innan safnaðar, bæði hvað varðar vald ólíkra aðila, lögmæti og trúverðugleika. Niðurstaðan er sú að vald prestsins má skilja hlutlægt, tengt embætti og vígslu og að í því tilviki nær vald hans út fyrir það sem tilheyrir embættinu. En það má einnig sjá huglægt, tengt trúverðugleika einstaklingsins, en ef til vill styrkt af hefðinni um sjálfstæði embættanna. Presturinn er ekki aðeins í því hlutverki að ákveða hvað gera skuli í breytingarferlum heldur einnig í miðlunarhlutverki þegar kemur að því að túlka tilmæli kirkjustjórnar með gerðum sínum eða aðgerðarleysi, orðum og þögn.

Færð eru rök fyrir því að þrátt fyrir ákveðið stigveldi sem er innbyggt í kirkjuna og þrátt fyrir stofnanir kirkjunnar sé þjóðkirkjan ekki stigveldisstofnun í framkvæmd heldur sé þar dreifræði. Því þarf kirkjustjórnin að hafa í huga takmarkanir þess valds sem hún hefur þegar kemur að breytingum í sóknum. Í tengslum við það er mikilvægt að skoða betur embættisskilninginn, hvernig hann hefur mótast og á hvern hátt hann getur hindrað eða hvatt til umbóta. Þar er presturinn bæði lykilpersóna og hliðvörður.

Um sameiginlega gráðu er að ræða frá Háskóla Íslands og Norwegian School of Theology, Religion and Society, í Osló. Vörnin fór fram í Osló hinn 24. maí s.l.
  • Frétt

  • Guðfræði

  • Viðburður

Lilja Dögg og forsetahjónin

„Sögustaðir efla samkennd okkar“

22. júl. 2024
...segir menningarráðherra á Skálholtshátíð
Forseti Íslands kom á málstofuna

"Húmorinn var aldrei langt undan"

20. júl. 2024
...málstofa til minningar um sr. Karl Sigurbjörnsson
Málþingið var fjölsótt

"Stríðið gæti þróast yfir á Vesturbakkann"

20. júl. 2024
...áhrifamikið málþing á Skálholtshátíð