Gleðirík hátíð

15. september 2019

Gleðirík hátíð

Hátíðarstund í Dómkirkjunni

Það var regnvotur dagur sem umvafði Dómkirkjuna í Reykjavík í morgun þegar fólk streymdi til kirkjunnar. Vígja átti fjóra guðfræðikanditata og tvo djáknakandidata. Þegar leið á vígsluathöfnina í kirkjunni tóku geislar sólar að leika um hana eins og þeir vildu fagna með vígsluþegum og kirkju landsins.

Það er sannarlega gleðirík hátíð þegar vígsludagur gengur í garð og nýtt fólk kemur til starfa fyrir kirkjuna. Andrúmsloftið í henni gömlu Reykjavíkurkirkju í morgun var enda íblandað eftirvæntingu og hlýju. Framtíð á nýjum vettvangi blasir við kjarnmiklu ungu fólki sem tekur ýmist við af þeim sem eldri eru eða ryður braut á nýjum slóðum.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígði fjóra guðfræðinga til prestsþjónustu. Þrír þeirra voru vígðir til til Austfjarðaprestakalls í Austurlandsprófastsdæmi. Það voru þeir Alfreð Örn Finnsson, Benjamín Hrafn Böðvarsson og Dagur Fannar Magnússon.

Jarþrúður Árnadóttir var vígð til prestsþjónustu í Skinnastaða- og Langanesprestakalls í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi. Þess má geta að Jarþrúður er 99da konan sem vígð er til prestsþjónustu í íslensku kirkjunni.

Vígsluvottar þeirra voru þau sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, sr. Sigurður Jónsson, sr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir, og sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.

Þá voru vígð til djáknaþjónustu þau Daníel Ágúst Gautason og Steinunni Þorbergsdóttur.

Mun Daníel Ágúst sinna þjónustu í Grensássókn í Fossvogsprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, fyrst og fremst barna- og æskulýðsstarfi. Steinunn mun sinna þjónustu í Breiðholtssókn í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, einkum barnastarfi í söfnuðinum og hjá Alþjóðlega söfnuðinum sem hefur þar aðsetur.

Vígsluvottar þeirra voru þau sr. Pálmi Matthíasson, sr. Magnús Björn Björnsson og djáknarnir Hólmfríður Ólafsdóttir og Þórey Dögg Jónsdóttir.

Sr. Jón Ármann Gíslason lýsti vígslu.

„Nú gjaldi Guði þökk
hans gjörvöll barnahjörðin...“

ómaði í lok vígslunnar þegar gengið var úr kirkju og út í sólskinið. 


Vígsluþegar ganga úr kirkju, sr. Jarþrúður, sr. Dagur Fannar, sr. Benjamín Hrafn,     
sr. Alfreð Örn, þá Daníel Ágúst, djákni, og Steinunn, djákni. 

 

Á myndinni sem fylgir fréttinni eru í fremstu röð frá vinstri: Sr. Dagur Fannar Magnússon, sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson, sr. Alfreð Örn Finnsson, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sr. Jarþrúður Árnadóttir, Steinunn Þorbergsdóttir, djákni, Daníel Ágúst Gautason, djákni. Önnur röð: Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, Hólmfríður Ólafsdóttir, djákni og Þórey Dögg Jónsdóttir, djákni. Þriðja röð: Sr. Sigurður Jónsson, sr. Pálmi Matthíasson, sr. Jón Ármann Gíslason, sr. Magnús Björn Björnsson og sr. Sveinn Valgeirsson.

 

 


  Þegar barn er skírt er nafn þess gjarnan nefnt upphátt í fyrsta sinn - en skírn er þó ekki nafngjöf - skírnarfontur í Grindavíkurkirkju eftir Ásmund Sveinsson, Guðsteinn Eyjólfsson frá Krosshúsum gaf

  Vinsælustu nöfnin 2020

  21. jan. 2021
  ...hvar eru Jón og Guðrún?
  Frá Indlandi - kristið fólk er ofsótt þar - skjáskot: Kristeligt Dagblad

  Ofsóknir hafa aukist

  20. jan. 2021
  ...kórónuveiran skálkaskjól
  Kirkja í Færeyjum - Saksun - vígð 1858

  Kórónuveiran í Færeyjum

  19. jan. 2021
  ...rætt við Færeyjabiskup