Biskup Færeyja predikar í Árbæjarkirkju

12. október 2019

Biskup Færeyja predikar í Árbæjarkirkju

Jógvan Friðriksson, Færeyjabiskup, mun prédika í messu í Árbæjarkirkju komandi sunnudag, sem hefst kl 11.

Hann mun fjalla þá m.a. um færeysku Þjóðkirkjuna og hlutverk hennar og stefnumið til umhverfisverndar. Hann horfir til þess að samskipti kirkna lands síns og Íslands eflist enn á komandi tíð þeim til gæfu og gengis og einkum þó til að glæða þá Guðs vitund og trú í Frelsarans nafni sem hefur verið kjölfesta í menningu og þjóðlífi beggja landanna um aldir og þarf sem fyrr að geta enn og áfram gegnt því mikilvæga og blessunarríka hlutverki sínu og tekið þó jafnframt nauðsynlegum stakkaskiptum til að takast það sem best og farnast vel í því köllunarhlutverki sínu að vísa veginn veginn fram í Jesú nafni.

Þjóðkirkja Færeyja varð að fullu sjálfstæð frá yfirráðum dönsku Þjóðkirkjunnar á Þjóðhátíðardegi Færeyinga og Ólafsvökudegi, 29. júli 2007. Hans Jakob Joensen, er vígður var til Færeyjabiskups árið 1990 sem fyrsti biskup í Færeyjum frá miðri 16. öld gegndi biskupsþjónustu sinni þar til að Jógvan Friðriksson, sem fjölmenntaður sóknarprestur á Ströndum og Skála á Austurey, var valinn eftirmaður hans og vígður í Þórshafnarkirkju 25. nóvember 2007. Hann varð þar með fyrsti biskup hinnar sjálstæðu færeysku Þjóðkirkju.

Jógvan hefur á embættistíð sinni lagt sig fram um að auka og efla tenglin á milli kirkju sinnar og íslensku Þjóðkirkjunnar, og þar með bæði trúarleg og menningarleg samskipti vina- , frænd- og eyþjóðanna í Atlantshafi, Færeyinga og Íslendinga.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, bauð Jógvani Færeyjabiskupi í opinbera heimsókn til Íslands haustið 2010 og voru þá drög lögð að auknum samskiptum kirkna þeirra. Vorið 2014 kom Færeyjabiskup hingað til lands ásamt Kirkjuráði færeysku Þjóðkirkjunnar, og hinn nýi biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, fór í boði Færeyjabiskupshjóna, Jógvans og eiginkonu hans, Mariu Eiríksdóttur, í opinbera heimsókn til Færeyja vorið 2015. Vorið eftir 2016 kom Færeyjabiskup hingað til lands ásamt 20 prestum sínum og þingaði með þeim jafnframt því sem þeir kynntu sér kirkjur og safnaðarstarf hér á landi.

Jógvan, Færeyjabiskup, hefur látið sig mjög varða umhverfisvanda samtíðar og viljað glæða vitund landa sinna um þau og beitt sér fyrir því að færeyska Þjóðkirkjan sinnti vel því hlutverki. Færeyjabiskup er með skipstjórnarréttindi og var stýrimaður á færeyskum fiskiskipum áður en hann hóf nám sitt í guðfærði. Hann þekkir því vel bæði lygnan sjó og ógnandi öldugang og jafnframt hve miklu varðar að lífríki lands og sjávar séu virt og rétt metin og ábyrgð sýnd í allri umgengni við sköpunarverk Guðs.

Færeyskir prestar hafa sótt Hringborð Norðurslóða, Arctic Circle Assembly, síðustu árin og látið þar til sín taka í samstarfi við íslensku Þjóðkirkjuna, biskupa hennar, presta og leikmenn. Jógvan, Færeyjabiskup, sat í pallborði ásamt öðrum forystubiskupum Norðurlanda á 6. Hringborði Norðurslóða á liðnu hausti, 2018. Hann kemur nú enn inn á þann vettvang ásamt 17 leikmönnum í færeysku Þjóðkirkjunni, sem gegna jafnframt áhrifastöðum í færeysku samfélagi, og að auki 4 þingmönnum færeyska Lögþingsins.

 

 

 

  • Biskup

  • Frétt

  • Ráðstefna

  • Viðburður

  • Biskup

Biskup Íslands með Litlu gulu peysuna

Biskup Íslands prjónaði Litlu gulu peysuna

04. okt. 2024
...Litla gula peysan prjónuð í Langholtskirkju til styrktar Lífsbrú
Jónas og Hallveig

Bleikur október byrjar vel

04. okt. 2024
...í Bústaðakirkju
Seltjarnarneskirkja

Mikið um að vera í Seltjarnarneskirkju í október

04. okt. 2024
...Seltjarnarnessókn 50 ára