Ný ensk þýðing á Passíusálmunum

24. október 2019

Ný ensk þýðing á Passíusálmunum

Enska útgáfa Passíusálmanna kemur út sunnudaginn 27. október

Ný ensk þýðing á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar kemur út á Hallgrímshátíð nk. sunnudag, 27. október. Þýðandi er dr. Gracia Grindal, ljóða- og sálmaskáld, sem um langt skeið var prófessor í prédikunarfræðum við Lúther-stofnunina í St. Paul, Minnesota.

Þýðingin er gefin út af Hallgrímskirkju í samvinnu við Skálholtsútgáfuna með stuðningi Kristnisjóðs. Hún kemur út í veglegu kiljuformi með vísunum í steindan glugga Leifs Breiðfjörðs yfir kirkjudyrum og form Hallgrímskirkju. Hönnuður bókarinnar er Halla Sólveig Þorgeirsdóttir.

Þjóðkirkjan hefur falið Hallgrímskirkju að annast útgáfu Passíusálmanna á erlendum tungumálum. Upplag af nokkrum eldri útgáfum er nú þrotið eða á þrotum. Því eru á næstunni ráðgerðar nýjar útgáfur af Passíusálmunum á þýsku, dönsku og fleiri málum. Einnig stendur vilji til þess að sálmarnir komi út á íslensku í hinum nýja búningi.

Passíusálmarnir hafa verið gefnir út í næstum eitt hundrað útgáfum frá því þeir voru fyrst prentaðir á Hólum 1666. Engin bók hefur verið prentuð jafn oft á Íslandi. Þá hafa sálmarnir, eða hluti þeirra, komið út á ellefu erlendum tungumálum og í nokkrum útgáfum á sumum þeirra.

Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, ritar formála í nýju ensku útgáfuna þar sem hann fjallar um ævi og arfleifð Hallgríms Péturssonar. Hann greinir meðal annars frá því að Gracia Grindal sé höfundur margra bóka um sálmagerð og sálmaskáld og hafi birt fjölda greina um tengsl guðfræði, menningar og sálma. „Gracia Grindal er sjálf prýðilegt ljóðskáld. Sálma hennar og þýðingar er að finna í mörgum sálmabókum nokkurra kirkjudeilda í Bandaríkjunum. Ljóð hennar og sálmar hafa einnig komið út í sérútgáfum“.

Það sem einkennir þýðinguna að dómi sr. Karls er að hún sameinar að vera nálæg tónlistinni í skáldskap Hallgríms og halda tryggð við anda frumtextans. Um leið gerir þýðandi sér far um að textinn sé stilltur inn á bylgjulengd lesenda í nútímanum.

Fyrstu eintök nýju ensku útgáfunnar verða afhent við hátíðlega athöfn að lokinni Hallgrímsmessu nk. sunnudag í Hallgrímskirkju. Að lokinni athöfn og kirkjukaffi um kl. 13.00 mun Leifur Breiðfjörð segja frá glerlistaverki sínu yfir kirkjudyrum og Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, hönnuður, lýsa því hvernig hönnun bókarinnar tengist verki Leifs.


    Ólafur Egilsson

    Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

    24. apr. 2024
    ...stilla saman strengi
    Söngvahátíð 7.jpg - mynd

    Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

    23. apr. 2024
    ...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
    Bænagangan 3.jpg - mynd

    Bænagangan 2024

    23. apr. 2024
    ...á sumardaginn fyrsta