Kirkjan og fatlað fólk

25. október 2019

Kirkjan og fatlað fólk

Allir þurfa að sameinast um að hafa hreint borð og hreint gólf í málefnum fatlaðra

Margt kemur inn á borð jafnréttisfulltrúa þjóðkirkjunnar. Málefni fatlaðra eru þar á meðal. Fólki dettur fyrst í hug aðgengi að kirkjum og safnaðarheimilum. Á mörgum stöðum er augljóst að úr þeim málum þarf að bæta en þó má ekki gleyma að víða eru þau í góðu lagi. En alltaf má gera betur.

En það eru líka mörg önnur mál en aðgengi að kirkjum og safnaðarheimilum sem tengjast fötluðu fólki og þarf að gæta að. Mörg þeirra mála eru ekki alltaf einu sinni sýnileg.

Jafnréttisfulltrúar þjóðkirkjunnar, þær Brynja Dögg Guðmundsdóttir Briem, lögfræðingur, og sr. Hildur Björk Hörpudóttir, rituðu próföstum eftirfarandi bréf hinn 22. október s.l. Það bréf er öllu kirkjufólki hollt að lesa og hafa þær ábendingar í huga sem þar koma fram:

„Kæru prófastar.

Við biðjum ykkur að koma meðfylgjandi viðhengi áleiðis til ykkar sókna og senda staðfestingu þess efnis til baka á þetta netfang.

Efni viðhengis birtist hér að neðan og mun einnig birtast á jafnréttissíðu kirkjunnar:

Hvernig getur kirkjan þjónað betur fötluðum?

Fatlaðir og langveikir einstaklingar verða því miður fyrir kerfislegri mismunun og fordómum. Í þessu samhengi er gjarnan talað um ableisma. Þrátt fyrir að kirkjan hafi góðan vilja til að sinna fötluðum og starfrækir í því samhengi kirkju fatlaða, er ljóst að við sem störfum í kirkjunni bæði þurfum og getum gert miklu betur.

Í dag er mikið lagt upp frá því að fatlaðir lifi ekki í aðgreindu samfélagi. Þau vilja og eiga rétt á að umgangast ófatlaða einstaklinga og taka þátt í menningarlífi og tómstundastarfi til jafns við aðra. Um þetta er sérstaklega mælt í 30. gr. samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Innan hverrar sóknar þarf að fara fram heiðarlegt samtal og sjálfsskoðun um hvernig einstaklingum sem búa við fötlun sé þjónað og hvernig við getum gert betur.

Jafnréttisfulltrúar leggja til eftirtalin atriði sem hægt er að nýta sem útgangspunkta í yfirferð á starfi sóknar.

Farið yfir aðgengi að kirkjunni, hvernig er aðkoman að kirkjunni, komast fatlaðir inn í kirkjuna og óhindrað um sömu svæði og ófatlaðir? Eru salerni fullnægjandi? Hvernig er hljóðið í kirkjunni?

Ekki gera ráð fyrir að viðkomandi geti ekki eitthvað en fullvissaðu þig um að hann viti að aðstoð sé til boða. Áður en þú snertir einstakling eða færir til hjálpartæki skaltu spyrja hvort viðkomandi vilji slíka aðstoð.

Er markhópur auglýsinga eingöngu ófatlaðir? Eru allar myndir sem kirkjan birtir á heimasíðu eða í fréttablöðum af ófötluðum einstaklingum? Er markvisst reynt að sleppa fötluðum?

Þegar fatlaður einstaklingur leitar til þín eða foreldrar fatlaðs einstakling skaltu ekki ákveða sjálfkrafa að það henti viðkomandi betur að fara í kirkju fatlaðra.

Væri hægt að hafa fatlaðan einstakling í vinnu eða í sjálfboðastarfi?

Þegar dagskrá vetrar, menningarstarf, viðburðir, námskeið o.fl. eru skipulögð skaltu velta fyrir þér hvort og hvernig einstaklingur með fötlun geti tekið þátt.

Ekki gera sjálfkrafa ráð fyrir að þjónusta í kirkju fatlaðra henti viðkomandi betur.

Ræddu málin við fagaðila.

Spurðu aðila sem sækja kirkjuna hvernig hægt er að gera betur? Láttu vita að við erum hér til að þjóna kirkjugestum og viljum ávallt gera betur.

Hefur þú tillögur eða ábendingar? Endilega komdu þeim á framfæri svo við getum hjálpast að við að efla kirkjuna og gæta þess að öllum sem hana sækja líði vel.“

Jafnréttissíðu þjóðkirkjunnar má sjá hér.





  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut
Sr. Þorvaldur Víðisson

Sr. Þorvaldur skipaður prófastur

18. apr. 2024
...í Reykjavíkurprófastdsdæmi vestra