Ung sókn krydduð með eldri borgurum

1. nóvember 2019

Ung sókn krydduð með eldri borgurum

Ástjarnarkirkja er nútímalegt guðshús

Ástjarnarkirkja á Völlunum í Hafnarfirði er rennileg að sjá. Kannski hvarflar það ekki að fólki í fyrstu að þetta hús sé kirkja, miklu frekar gagnaver með tifandi tölvum og dularfullum hljóðum. En kirkja er það nú og þess vegna mætti segja að það sé andlegt gagnaver – þar sem helgir kraftar andans og trúarinnar umvefja þau sem þangað koma – veita styrk, huggun og samfylgd í hversdeginum.

Og aukin heldur þegar fólk rekur augun í gljáandi álkrossinn við austurgafl hússins – þá þarf ekki lengur vitnanna við, þetta er guðshús.

Á aðra hönd Ástjarnarkirkju er gengið beint út í fallegt mosavaxið hraun, hin sígilda íslenska náttúra heilsar auganu hljóðlát og prúð. Og á hina höndina fer hraðfleyg umferð nútímans þar sem veraldlegar annir eru í fyrirrúmi. Og þarna á milli er kirkjan. Nútímalegt kirkjuhús, ágætlega búið og vel mannað. Hús þar sem hefðbundið sem óhefðbundin kirkjustarfsemi fer fram. Alls konar starfsemi á kirkjulegum grunni.

Í mörgum rótgrónum söfnuðum fer fram öflugt starf eldri borgara þar sem dagskráin er metnaðarfull og spennandi. Og í sumum þeirra er hlutfall eldri borgara býsna hátt og margir þeirra búa í fjölbýlishúsum sem hönnuð eru með þarfir hinna eldri í huga.

En hvað með söfnuði þar sem hlutfall yngri sóknarbarna er snöggtum hærra en hinna eldri? Svo hagar til í Ástjarnarsókn á Völlunum í Hafnarfirði að 90% sóknarbarna eru undir aldri hins löglega eldri borgara, 67- ára aldrinum – eldri borgarar eru þar innan við eitt þúsund en í sókninni búa rúmlega 8000 manns – og tæplega 10000 í öllu prestakallinu.

Kirkjan reynir að sinna öllum aldurshópum. Í Ástjarnarsókn er öflugt starf fyrir eldri borgara sem nýtur vaxandi vinsælda. Kirkjan sinnir öldnum sem ungum.

Kirkjan.is heimsótti Ástjarnarkirkju nú í vikunni og tók þátt í stund fyrir eldri borgara í sókninni.

Vináttubragur

Prestar Ástjarnarkirkju á Völlunum í Hafnarfirði eru þeir sr. Arnór Bjarki Blomsterberg og sr. Bolli Pétur Bollason. Þeir eru fullir áhuga og hressir í bragði. Kumpánar tveir, mætti segja. Taka á móti fólki með gleðibros á vör og spaugsyrði fljúga.

Á miðvikudögum kemur ákveðinn kjarni eldri borgara í Ástjarnarkirkju, að jafnaði um tuttugu manns. Fólkið kemur sjálft með meðlætið en kirkjuvörðurinn hellir upp á líka þetta fína kaffi. Síðan tekur við rabb um málefni líðandi stundar og önnur sem kunna að brenna á fólki. Það er margt spaklegt og umhugsunarvert sem mælt er og hlátur og gleði svífur yfir vötnum – og klerkarnir, Nóinn (sem sr. Arnór er oft kallaður) og Bollinn gefa ekkert eftir. Umræðan er yfirveguð en vissulega geta öldur stundum ýfst þegar skoðanir eru skiptar. En það er annars vináttubragur sem lýsir af mannskapnum og ekki annað að sjá en að fólki líði vel í þessum félagsskap með fólki á sama reki. Sum þeirra hafa misst maka sinn, eru ekklar eða ekkjur. Hjón eru nokkur í hópnum sem og einstaklingar sem aldrei hafa gengið í hjónaband.

Að loknu kaffispjallinu er gengið inn í annan sal og hlýtt á gestaspjall. En gesturinn er valinn af fólkinu og prestunum í sameiningu. Í þetta sinn var það fyrrverandi fangaprestur þjóðkirkjunnar, sr. Hreinn S. Hákonarson, sem sagði frá þjónustu kirkjunnar í fangelsum landsins og fangelsiskerfinu.

Margt góðra gesta hefur sótt heim hóp eldri borgara í Ástjarnarsókn. Nefna má Egil Friðleifsson, fyrrum kórstjóra, sem sagði frá för sinn um Jakobsveginn fræga. Þá kom rithöfundurinn Bjarni Bjarnason og sagði frá rithöfundaferli sínum og ræddi sömuleiðis um dularfull tákn og draumspeki. Og einnig Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur og kunnur ljóðaprédikari.

Andri Snær Magnason, rithöfundur, heilsar upp á fólkið 6. nóvember n.k. Síðan kemur Guðni Kolbeinsson, þýðandi, og þá Gerður Kristný, ljóðskáld.

Stundinni lýkur svo á því að gesturinn flytur bæn eða þá annar hvor prestanna.

Trú og menning eiga ætíð samleið. Menningin ber merki trúar með margvíslegum hætti og trúin sjálf knýr iðulega dyra í menningunni svo ekki sé nú meira sagt - og vinnur stórvirki.

„Þetta er gefandi stund fyrir alla,“ segja þeir sr. Arnór og Bolli Pétur.

„Sá hópur sem kemur er fastur kjarni sem gott er að vera hjá og eiga að,“ segir sr. Arnór. Og sr. Bolli Pétur bætir við að þessi kjarni eldri borgara fjármagni sig sjálfur. Ekki aðeins leggi hann ljúft meðlætið til eins og áður getur heldur leggur fólkið og fram fé í körfu á hverjum samfundi þess. Það sem safnast er notað til ýmissa góðra mála fyrir kirkjuna. „Og á aðventunni fer hópurinn og við prestarnir með honum út að borða,“ segir sr. Arnór. „Það gerir þetta litla samfélag enn öflugra og nánara.“

Svo sannarlega má taka undir það. Þetta er samverustund með fólki sem hefur lokið formlegum störfum í samfélaginu og lagt mikið af mörkum – hefur frá mörgu að segja. Þetta er menningarstund – og þakkarstund – já, þar sem þakkað er fyrir allt hið góða sem að mönnum er rétt.

Vefslóð Ástjarnarkirkju er hér.


Kjarninn í starfi eldri borgara er vaskur hópur og glaðsinna

 

 

Tjarnaprestakall?

Tjarnaprestakall (hét reyndar um hríð Vallaprestakall) varð til árið 2002 með tilfærslu úr Hafnarfjarðarprestakalli og sama ár var Kálfatjarnarsókn tekin út úr Garðaprestakalli. Sóknir þessa prestakalls eru sumsé tvær, Ástjarnarsókn og Kálfatjarnarsókn.


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.
Aðventukrans.jpg - mynd

Katrín Jakobsdóttir á aðventukvöldi

27. nóv. 2024
...í Bústaðakirkju