Áttaviti fræðanna

14. nóvember 2019

Áttaviti fræðanna

Bók og kaffi, hvort tveggja nauðsynlegt

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra hefur verið iðinn síðustu áratugina við ritun guðfræðilegra fræðibóka og þær þykkar og miklar. Markaður fyrir slíkar bækur er vissulega ekki stór hér á landi og því þakkarvert fyrir þau sem njóta að einhver skuli ekki láta smæð markaðarins kveða sig í kútinn.

Nýlega kom út bók af hans hendi og heitir Að ná áttum. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag. Þetta er safn átján ritgerða sem birst hafa víða á undanförnum árum – alls 431 bls.

Það er ætíð gott að safna ritgerðum saman í eina bók, hafa þær á einum stað, áhugasömum lesendum til þægindaauka. Það er líka akkur fyrir höfundinn, meiri líkindi á að ritgerðir nái til fleiri en þeirra sem kunna að vera áskrifendur að tímaritum eða blöðum þar sem þær fyrst birtust. Sum þeirra torfengin eða hætt að koma út – sama gildir um vefi sem birtu þær.

Þetta eru fræðigreinar sem taka á ýmsum málum sem snerta nútímann með það að markmiði að lesandinn nái áttum í mjög svo flóknu samfélagi þar sem hvers kyns hugmyndir og hugmyndakerfi takast á.

Höfundur er á vissan hátt guðfræðilegur samfélagsgreinandi; meginverkfæri hans er guðfræði, evangelísk-lúthersk, og ýmsar skyldar greinar sem finna má í verkfæraskjóðu hennar. Hann er óþreytandi við að vaða þung og djúp vötn mannréttinda, íslams, femínisma, pólitísks rétttrúnaðar, Guðs og mammons, svo nokkuð sé nefnt, til að skýra stöðu manns og heims – og Guðs.

En höfundur rær ekki einn út á þessi tímans og samfélagsins úfnu mið heldur er í för með honum hópur fræðagarpa sem mörg leitast við að skýra og skoða samtímamálin í fjölbreytilegu fræðasviðaljósi sínu enda þótt þau rói kannski ekki alltaf í sömu átt.

Dr. Sigurjón skilur Lúther ekki eftir utangátta í þessu ritgerðarsafni sínu. Um Lúther, Katrínu konu hans, og samtíð þeirra, eru nokkrar ritgerðir. Sú síðasta ber heitið: Raunsæ lífsgleði – lífsgleðin og dauðinn í guðfræði Marteins Lúthers. Þar kemur fram að Lúther karlinn er all nútímalegur en svo segir í greinarlok:

„Loks hvetur Lúther til þess að maðurinn stundi líkamsæfingar, íþróttir og dans. Að síðustu er rétt að geta þess að ekkert þolir djöfullinn verr en það að gert sé grín að honum og í ritum Lúthers má finna margar frásögur um djöfulinn sem um margt minna á íslenskar skemmtisögur um skrattann. Má því vel nefna afstöðu Lúthers til lífsgleðinnar og nautna þess lífs sem Guð hefur þó gefið manninum, raunsæja lífsgleði.“ (Bls. 409-410).

Í ritgerðinni Marteinn Lúther: Fangi túlkunarsögunnar, er komið meðal annars að hugmyndum Íslendinga um Lúther og hver hafi mótað þær. Þar eru nefndir til sögu ýmsir menn íslenskir. Skáld, rithöfundar og sagnfræðingar. 

Nóbelskáldið á Glúfrasteini kynnti hina neikvæðu mynd af Lúther sem átti rætur sínar hjá þeim rómversk-kaþólsku. (Bls. 245).

Höfundur gagnrýnir sagnfræðingana af kurteisi og segir að þeim m.a. „yfirsjáist“ munurinn á lögmáli og fagnaðarerindi – sem er kjarnaatriði í skilningi á Lúther og siðbótinni. (Bls. 242).

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig á hverju hugmyndir sagnfræðinga, rithöfunda og menningarvita sem og dómar þeirra um lútherskan rétttrúnað byggja. Hvað lásu þeir af ritum Lúthers og klassaritum um hann og siðbótina? Eitthvað hafa þeir að sönnu sótt í gagnbót rómversk-kaþólsku kirkjunnar og svo annað í óljósar heimildir.

Svo er ekki kannski úr leið að spyrja svona utan dagskrár hvað landslýð hafi verið boðað af stólnum í kirkjum landsins – hvað mátti sjá af lútherskum rétttrúnaði í þeim? Heimildir eru um að það hafi víða verið pottur brotinn í prédikun kennilýðsins; sumir áttu jafnvel ekki Biblíu. Fræði Lúthers hin minni (Kverið), stundum kölluð Leikmannabiblían, og voru prentuð á Hólum undir því heiti 1599. En fyrst komu Fræðin út á íslensku 1562. Lúther ku hafa sagt að hann yxi aldrei upp úr þeim. Og formálar Lúthers fyrir ritum Biblíunnar fylgdu fyrstu útgáfum hennar, voru felldir út með Steinsbiblíu 1728. Einhverju hefur það skilað en vandasamt að meta hve miklu.

Og hvað með þann fræga Jón meistara Vídalín, fæddur um öld eftir siðbreytinguna? Hafa menn rýnt þar eftir lútherskum rétttrúnaði? Kannski skýtur upp kolli eitthvað bitastætt á næsta ári þegar þrjú hundruð ára ártíðar hans verður minnst en það var árið 1720 sem hann hné niður örendur í brekkunni frægu sem síðar heitir Biskupsbrekka.

Það tók því sinn tíma að koma áherslum hins nýja siðar á í gegnum prédikunina og guðsþjónustuna. Hugvekjur Jóhanns nokkurs Gerhards höfðu sitt að segja en þær voru gefnar nokkrum sinnum út sem og hugvekjusálmar séra Sigurðar Jónssonar á Prestshólum sem ortir voru út frá hugvekjum Gerhards þessa og margoft látnir út ganga á þrykk. Svo kom náttúrlega meistaraskáldið, Hallgrímur Pétursson. Trúarskáldið magnaða.

Öll umfjöllun dr. Sigurjóns í bókinni Að ná áttum er hógvær og öfgalaus. Hann á heiður skilið fyrir að halda þessari guðfræðilegu umræðu úti á sama tíma og ríkjandi stefna er að þoka hinni trúarlegu vídd út á jaðar samfélagsins eða út úr því og þá helst algjörlega inn á svið einkalífsins.






  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta