Hjálparstarf í hálfa öld: Valdefling kvenna er málið

7. janúar 2020

Hjálparstarf í hálfa öld: Valdefling kvenna er málið

Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar

Hjálparstarf kirkjunnar fagnar fimmtíu ára starfsafmæli sínu en það var sett á laggirnar í janúar 1970. Af þessu tilefni verður efnt til málþings á Grand Hotel fimmtudaginn 9. janúar kl. 16.30 og stendur það yfir í tvær klukkustundir. Allir eru hjartanlega velkomnir. 

Kirkjan. is tók Kristínu Ólafsdóttur, fræðslufulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar, tali vegna þessara tímamóta.

„Hjálparstarf tekur breytingum eftir því sem samfélög og hugmyndir þróast,“ segir Kristín „og við höfum alltaf lagt okkur fram um að starfa af ýtrustu fagmennsku og að starfið svari þörfum fólksins sem mest þarf á aðstoð að halda þar sem við störfum hverju sinni.“

Kristín segir að í tilefni afmælisársins hafi Hjálparstarfið ákveðið að staldra við og skoða niður í kjölinn aðferðir þess í starfi. Ljóst sé að neyðaraðstoð verði alltaf stór hluti af starfinu hér heima og í samstarfslöndunum úti, meðal annars í Eþíópíu og Úganda þar sem Hjálparstarfið er í þróunarsamvinnu.

„Við vinnum í grasrótinni með fólkinu sjálfu og verðum að vera vakandi og spyrja okkur í sífellu hver sé skilvirkasta aðferðin. Efnisleg aðstoð verður alltaf að vera fyrir hendi þar sem fólk býr við sára fátækt– en hvað svo?“ segir Kristín og bætir við með þunga: „Hvað er það sem leiðir til raunverulegrar farsældar í lífi fólks, jafnt einstaklinganna sem samfélaganna í heild, - og við erum alltaf með börnin í forgrunni í allri okkar vinnu.“ Hún segir málið snúast um að fólkið geti tekið við keflinu og hjálpað sér sjálft sem fyrst. Það sé einfaldlega hjálp til sjálfshjálpar – og segja má að það sé valdefling.

Kristín segir að valdefling kvenna sérstaklega sé aðferð til að bæta stöðu kvenna sem búi við fátækt, ójöfnuð og jafnvel mannréttindabrot. Þegar konur verði virkar, efnahagslega sjálfstæðar og fái tækifæri til að taka þátt í að ákveða hvernig samfélagið eigi að vera þá breytist áherslur. Hún segir að almennt sé talið að valdefling kvenna sé forsenda fyrir bættum lífskjörum í fátækari ríkjum heims.

„Við ætlum að tala um þetta á málþinginu á afmælisdaginn sjálfan, fimmtudaginn 9. janúar næstkomandi. Við ætlum líka að tala um þessa aðferð í starfinu hér heima og leitast við að svara því hvort valdefling kvenna sé aðeins frasi í hjálparstarfi eða hvort og þá hvernig hún leiði til raunverulegra jákvæðra breytinga hjá þeim sem við vinnum með og til framfara í samfélögum þar sem henni er beitt,“ segir Kristín.

Frú Eliza Jean Reid, forsetafrú, og Magnús Árni Skjöld Magnússon, forseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Bifröst, flytja erindi en þau eru bæði virk í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

Þá segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, frá þróunarsamvinnu í Eþíópíu og Úganda og félagsráðgjafarnir Sædís Arnardóttir og Vilborg Oddsdóttir fjalla um aðferð í verkefnum Hjálparstarfsins hér heima á Íslandi.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og verndari Hjálparstarfs kirkjunnar flytur ávarp í upphafi málþings.

Boðið verður upp á veitingar í lok málþings.

Kirkjan. is hvetur öll sem tök hafa á til að sækja málþingið.

Heimasíða Hjálparstarfs kirkjunnar er hér.

hsh


Hjálparstarf í hálfa öld


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

  • Þing

  • Fræðsla

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Samfélag

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta