Lopapeysumessa

27. janúar 2020

Lopapeysumessa

Vaskir karlar á þorra, kórfélagar, prestur og organisti

Allan ársins hring er messað í kirkjum landsins. Kirkjurnar auglýsa messurnar víða eins og á samfélagsmiðlum, héraðsfréttablöðum og Morgunblaðinu. Þar kemur fram klukkan hvað er messað og hvaða prestur sér um guðsþjónustuhaldið, hver sé organisti og hverjir syngi.

Stundum heyrast og sjást öðruvísi messuauglýsingar og þá leggur fólk eyrun við og sperrir upp augu og spyr með sjálfu sér hvað sé á seyði: göngumessa, skátamessa, æðruleysismessa, plokkmessa, prjónamessa, Liverpoolmessa, mótorhjólamessa, lögreglumessa, þjóðbúningamessa, hestamessa, golfmessa, gæludýramessa, skíðamessa, fornbílamessa, skógarmessa, Tómasarmessa, og þannig mætti lengi telja.

Lopapeysumessa bættist í safnið í gær.

Í Keflavíkur fór fram í tilefni þorra guðsþjónusta sem þeir kölluðu lopapeysumessu. Horft var til nýliðins bóndadags og komu margir karlar í lopapeysu til kirkjunnar.
Sr. Fritz Már Jörgensson þjónaði fyrir altari og sérstaklega var tekið fram að karlaraddir kirkjukórsins myndu leiða söng. Arnór Vilbergsson, organisti, var með tónlistina á sinni könnu. Messuþjónar lásu texta, karlar. Það voru hins vegar kvenraddir kirkjukórsins sem buðu upp á súpu í Kirkjulundi.

Þegar góan gengur í garð með konudegi munu karlar elda súpuna og konurnar verða í sviðsljósinu. Kannski mæta þær í peysufötum? Hver veit.

Sjá heimasíðu Keflavíkurkirkju hér.

Enda þótt ýmsu kunni að vera skeytt fyrir framan orðið messa þá er ekki þar með sagt að skyggt sé á messuna sjálfa eins og margur kynni að halda – og jafnvel óttast. Það er ekki svo – og má ekki. Hins vegar er verið að kalla fram ólíka þætti í samfélaginu og tengja þá með ýmsum hætti við kirkjuna. Þetta eru jákvæð gildi, sum menningarleg og önnur býsna hversdagsleg. Þegar fornbílamessa er til dæmis boðuð þá streyma til kirkjunnar menn stoltir á gljáfægðum fornbílum sínum og taka þátt í guðsþjónustu. Eins þegar prjónamessa er – þá situr fólk á kirkjubekk og prjónar. Og við lopapeysumessu er dregin fram prjónasnilld og mynstur í fallegum íslenskum peysum sem kirkjugestir klæðast í messunni.

Segja má að í þessu sé fólginn jákvæð tenging og skemmtileg – ögn er brugðið út af venjunni með kankvísum svip. En messan er alltaf sú hin sama. Það er kjarni málsins.

hsh

Svo mátti lesa í messuauglýsinum Morgunblaðsins s.l. laugardag:



Margt er brallað í eldhúsi Keflavíkurkirkju á þorranum


  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta