Bókarfregn: Umskrifuð atriði guðfræðings

2. febrúar 2020

Bókarfregn: Umskrifuð atriði guðfræðings

Umskrifuð atriði - brakandi góð ljóðabók

Þau sem yrkja og senda frá sér ljóðabækur taka nokkra áhættu. Lesandinn er gróðurmoldin sem tekur á móti ljóðunum og hún getur verið með ýmsum hætti. Eins og sagði í dæmisögunni, grýtt og þyrnum vaxin. Hún getur líka verið frjósöm. En skáldinu getur það verið huggun að vita af því að ljóðin falla bæði í slæman jarðveg og góðan - það er fyrirsjáanlegt. Hins vegar getur lesandinn líka verið ólíkindatól en við því er fátt að gera - nema að hafa gaman af því.

En sem betur eru flestir ljóðaunnendur með frjóan huga og taka öllu góðu opnum örmum.

Ljóðskáld eru sjaldan margorð en þeim mun meiri og dýpri merking liggur í hinum fáu orðum sem jafnan falla á síðurnar. Sum skáldanna temja sér reyndar að fela hugsun sína í orðum meðan önnur láta hvert orð hrópa upp hugsanir sínar á torgum úti.

Guðfræðingur skrifar ljóðabók. Ásdís Magnúsdóttir sendir frá sér ljóðabókina Umskrifuð atriði. Ásdís er ekki bara með meistarapróf í guðfræði heldur var hún og listdansari.

Og hér dansar hún listilega við orðin á pappírnum!

Á baksíðu bókarinnar kemur fram að ljóð hafi fylgt Ásdísi frá því að hún var barn að aldri. Það sést líka á ljóðum bókarinnar að hún er ekki byrjandi í ljóðlistinni. Ljóðin eru sem þroskaðir ávextir.

En hvað er hún að segja okkur, lesendum? Eða ekki að segja? Svar við svona spurningu gæti verið einfaldlega: „Lestu bókina.“ Það er nú hins vegar svo að þegar góð ljóð rata til lesanda að þá vill hann gjarnan segja öðrum frá þeim. Að minnsta kosti að benda öðrum á að þarna sé gott og fallegt efni á ferð sem vert sé að gefa gaum að.

Fyrsta ljóð bókarinnar heitir Kirkjuferð. Það ljóð er aðeins þrjár línur og innan þeirra verður vart betur gert:

Augun hans afa voru svo himinblá að
þar sást næstum því í Guð

allt var fullkomið

Höfundur leiðir fram afa sinn í fyrstu ljóðunum og þar er kært samband á milli. Eins er amma höfundar aldrei langt undan. Afi hennar og amma standa fyrir trausta og liðna tíð, ómfagra bernsku sem hún fleytir til lesenda. Hverdagslegar helgimyndir, já svo má segja, birtast eins og í orðunum:

andlit ömmu og afa ljómuðu þegar
smjörið bráðnaði á sjóðandi heitu smælkinu

sólskin í eldhúsinu og ýsa í aukahlutverki

Segja má að kraftaverkið í þessu ljóði sé fyrsta ljóðlínan sem er þessi:

Kartöflurnar komu úr beði þar sem aldrei naut sólar

Höfundur gengur í hlutverk afa síns þegar hann hjálpar ömmu sinni við að rulla þvottinn og það var sólskinssápuilmur í loftinu.

Trú Ásdísar kemur víða fram í ljóðunum eins og í því sem ber nafnið Góða ferð:

Ég hvíslaði í eyra föður míns
búðu þig undir flugtak
og fljúgðu beint í faðm Guðs

Já svaraði hann lágt
brosti
og hóf sig til flugs

Í sumum ljóðanna má sjá trega og harm sem tengist því þegar höfundur horfist í augu við brigð og undirmál. Eins og þegar hún heyrir af vörum manns að hann hafi aldrei elskað hana og kom hún „alveg af fjöllum“ – sem má skilja svo að hún hafi gengið út frá því að þessi maður elskaði hana. Þá leitar hún inn í minningar um afa sinn og ömmu:

Vildi vera í eldhúsinu
hjá ömmu og afa
með heita lifrarpylsu og
rófustöppu á disk

elskuð

Sum ljóð gefa til kynna djúp sárindi en eru þó skilningsrík á vanda þess sem virðist bregðast höfundi.

Miklar tilvistarlegar andstæður birtast í ljóðinu Nýgift en það ómar líka æðruleysi – kannski með grárri glettni: 

Angistarfullur horfðir þú á mig
hvarfst svo bak við átta þumlunga vegginn

Öðruvísi hveitibrauðsdagar

á Níunni

Ljóðabók Ásdísar Magnúsdóttur, Umskrifuð atriði, er ljómandi góð ljóðabók og vekur lesenda til umhugsunar um minningar sem hann eignast um sitt nákomna fólk, og að geta leitað í sjóð minninganna og ekki síst þegar á bjátar í lífinu. Ljóðin eru mjúk og beitt í senn. Mörg þeirra endurspegla heita og einlæga trú.

Kirkjan.is óskar höfundi til hamingju með þessa bók.

hsh
  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta