Biskup á kunnugum slóðum

8. febrúar 2020

Biskup á kunnugum slóðum

Biskup Íslands prédikar í Hvanneyrarkirkju. Altaristaflan er eftir Brynjólf Þórðarson, listmálara, máluð 1924

Í gær hófst vísitasía sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands í Hvanneyrarprestakalli. Ekki er hún með öllu ókunnug prestakallinu þar sem hún þjónaði því á árunum 1986-1994.

Fyrsta verkið í vísitasíunni var heimsókn í leikskólann Andabæ í gærmorgun. Áslaug Ella Gísladóttir, aðstoðarleikskólastjóri, tók á móti biskupi og föruneyti og kynnti starfsemi skólans. Börnin sungu nokkur lög fyrir biskup undir stjórn leikskólakennara sinna og leiðbeinenda.

Grunnskólinn var því næst heimsóttur og þar tók Helga Jensína Svavarsdóttir, skólastjóri, á móti biskupi, kynnti starfsemi skólans, nemendur og starfsfólk. Nemendur sungu nokkur lög fyrir biskup, undir stjórn kennara sinna. Gengið var í bekki og heilsað upp á nemendur, kennara og starfsfólk.

Biskup kynnti sér aðstöðu og og starf Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þar tóku á móti biskupi þær Rósa Björk Jónsdóttir, útgáfu- og kynningarstjóri, og Álfheiður B. Marinósdóttir, kennslustjóri.

Hvanneyrarkirkja var skoðuð og fundað með sóknarnefnd. Kirkjan var reist árið 1905 og er fallegt guðshús. Þörf er á að ráðast í endurbætur á ytra byrði hússins og hefur undirbúningur þeirrar vinnu farið fram í samstarfi við Landbúnaðarháskólann.

Hvanneyrarkirkjugarður hefur nýlega verið stækkaður og var farið um garðinn. Einnig voru skoðaðar prestsþjónustubækur prestakallsins og bækur sóknarnefndar eins og fyrir er um mælt. Guðmundur Sigurðsson, formaður sóknarnefndar, og Dagný Sigurðardóttir, gjaldkeri sóknarnefndar, funduðu með biskupi, ásamt sóknarpresti, prófasti og biskupsritara.

Síðdegis var helgistund í Hvanneyrarkirkju. Sr. Flóki Kristinsson, sóknarprestur, þjónaði fyrir altari. Dóra Erna Ásbjörnsdóttir, lék á orgel, Guðmundur Sigurðsson var meðhjálpari. Biskup Íslands flutti hugvekju og lýsti blessun í lok fjölsóttrar stundar.

Í dag mun sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, vísitera Bæjarsókn og Lundarsókn, þar sem fram mun fara kirkjuskoðun og fundir með sóknarnefndum.

þv/hsh

Myndir tók sr. Þorvaldur Víðisson


Í leikskólanum Andabæ. Sr. Flóki, sóknarprestur, Dagný Sigurðardóttir,
sóknarnefndarkona, sr. Agnes, biskup, Áslaug Ella Gísladóttir, aðstoðarleikskólastjóri, 
og Guðmundur Sigurðsson, formaður sóknarnefndar


Landbúnaðarsafnið skoðað undir leiðsögn Bjarna Guðmundssonar,
sr. Agnes hlýðir á, fjær stendur Dagný Sigurðardóttir, sóknarnefndarkona