Kyrrðardagar kvenna

29. febrúar 2020

Kyrrðardagar kvenna

Kyrrð að kveldi yfir Skálholti

Kyrrðardagar kvenna í Skálholti hefjast nú á fimmtudaginn, 5. mars og þeim lýkur þann áttunda. Þeir hafa unnið sér fastan sess í kirkjulífinu og voru kallaðir áður systradagar.

Þetta kyrrðarstarf er unnið af mikilli alúð og umhyggju. Er dæmi um kirkjulegt starf sem fer ekki hátt en gefur mikið af sér fyrir þau sem þess njóta. 

Kirkjan.is sló á þráðinn til Önnu Stefánsdóttur og spurði hana fyrst hvernig kyrrðardagarnir væru skipulagðir.

„Við erum með kyrrðardaga kvenna tvisvar á ári í Skálholti, í september og svo í febrúar-mars,“ segir Anna, „og þeir hafa gengið ljómandi vel.“ Hún segir að þátttakendur njóti þeirrar þjónustu sem er í boði í Skálholti. Þar eru 21 herbergi og aðsóknin er góð á kyrrðardagana.

„Við sendum út bréf til um sextíu kvenna, þetta byggir á persónulegum tengslum og verður heimilislegra fyrir vikið,“ segir hún. „Aldursbilið er frá fertugu og upp í rúmlega áttrætt.“

Anna segir að hún og samstarfskonur hennar byggi mjög á því starfi sem Rannveig Sigurbjörnsdóttir leiddi áður á systradögum. „Við höfum lært mikið af henni,“ segir Anna, „hún gefur okkur góð ráð og það er alltaf hægt að læra af henni, hún er mikill leiðtogi.“ Hún segir að það sé konunum mjög dýrmætt þegar Rannveig sækir kyrrðardagana: „Það fylgir henni bara ákveðið andrúmsloft kyrrðar og hlýju.“

Dagskrá kyrrðardaganna hefur farið í ákveðið farveg og er orðin hefðbundin að sögn Önnu.

„Kyrrðardagarnir eru mjög gefandi og sálarbætandi,“ segir Anna, „og konur hafa svo sannarlega fundið fyrir mikilli nálægð við almættið á þessum dögum.“

Konurnar sem eru í forsvari fyrir kyrrðardagana eru auk Önnu þær Ástríður Kristinsdóttir, Bergþóra Baldursdóttir, Kristín Sverrisdóttir og Þórdís Klara Ágústsdóttir. „Við skiptum með okkur verkum við leiðsögn á kyrrðardögunum, ein okkar flytur til dæmis hugleiðingu, og ræðir um hvernig við getum notað orðið í önnum dagsins, hvernig við nýtum kyrrðina til hvíldar og uppbyggingar,“ segir Anna að lokum. Og nú verður boðið upp á djúpslökun eins og í fyrra en konurnar voru sérstaklega ánægðar með hana.

Staðarprestur, sr. Egill Hallgrímsson,  og sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, koma báðir að helgihaldi kyrrðardaganna.

Dagskrá kyrrðardaga kvenna má finna á heimasíðu Skálholts, hér. Þar er einnig hægt skrá sig til þátttöku. Einnig má senda tölvupóst til Hólmfríðar Ingólfsdóttur á netfangið: holmfridur@skalholt.is

hsh


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Starf

  • Trúin

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Prestur og biskup Íslands

Gamalli hefð haldið við

02. des. 2024
...messa í Háskólakapellunni á fullveldisdaginn
Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
Flokkarnir.jpg - mynd

Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

28. nóv. 2024
Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.