Hjúkrunarheimili blessað

3. mars 2020

Hjúkrunarheimili blessað

Biskup Íslands blessar heimilið á Sléttuvegi

Fyrir nokkru blessaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuveginum í Reykjavík. Hátt í eitt hundrað íbúar koma til með að búa þar. Fyrstu íbúarnir eru þegar fluttir inn.

Fjölmenni var við vígslu þessa nýja heimilis sem eru í eigu ríkisins og borgarinnar en Hrafnista og Sjómannadagsráð sjá um reksturinn. Þetta er áttunda heimilið sem Hrafnista starfrækir á suðvesturhorni landsins og þar eru um eitt hundrað stöðugildi.

Fyrsta skóflustunga að byggingu hjúkrunarheimilisins á Sléttuveginum var tekin síðla árs 2017 og liðu aðeins 27 mánuðir þar til fyrstu íbúarnir fluttu inn. Tímaáætlanir stóðust allar sem og áætlanir um kostnað af þessu mikla verki. Heildarkostnaður eru tæpir þrír milljarðar króna.

Hver einstaklingur hefur rúma sextíu fermetra til umráða og heimilið er byggt upp af níu ellefu manna deildum, átta deildanna liggja saman til að auðvelda samstarf og samnýtingu starfsfólks milli deilda.

Nýja hjúkrunarheimilið er vel búið og með ýmsum tækninýjungum. Hvert herbergi er með sér baðherbergi og í þeim er svo kallaður loftlyftubúnaður þannig að hægt er að flytja fólk til sem liggur í rúmum til dæmis milli herbergis og baðherbergis. Öryggiskerfi er þráðlaust.

Heimilið bætir úr brýnni þörf á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. 

Prestur á Hrafnistu er sr. Svanhildur Blöndal.

Sjá nánar um nýja hjúkrunarheimilið hér.

hsh

 


Sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, sr. Svanhildur Blöndal og biskup