Djákninn fyrir fullu húsi

6. mars 2020

Djákninn fyrir fullu húsi

Leiksvið - og ekki leiksvið

Það er harla óvenjulegt í leikhúsi að eina sviðsmyndin sem blasi við áhorfendum út alla sýninguna sé harmóníum, kirkjualtari, og kirkjubekkur.

En svo er nú í Tjarnarbíói við Tjörnina í henni Reykjavík.

Tjarnarbíó var fullsetið í gærkvöldi þegar kirkjan.is sótti það heim. Leiksýningin Djákninn á Myrká, sagan sem aldrei var sögð, var rétt að hefjast.

Þessi leiksýning var frumsýnd í vor er leið á Akureyri. Nú er sýningin komin suður.

Efni sýningarinnar er hin kunna þjóðsaga, draugasaga um djáknann á Myrká. Hana má lesa hér að neðan.

Leikararnir Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson bregða sér ekki aðeins í hlutverk Myrkárdjáknans og Guðrúnar – eða Garúnar – heldur í fjöldamörg önnur hlutverk – já alls eru hlutverkin tuttugu! Og hrein snilld hvernig leikendur vippa sér úr einu hlutverki í annað með einföldum leikmunum og látbragði.

Já, allt er gert með miklum glæsibrag og leikið af hjartans list og innsta grunni. Hér er leikhús spunans, tjáningar og hreyfingar með fáa hluti sem enga – það er magnað hvað kirkjubekkurinn eini og staki kemur vel út sem Faxi djáknans. Þetta verk er unnið samkvæmt þeirri leikhúsaðferð að allir sem að sýninguna koma vinna verkið. Og þegar allir leggjast á eitt geta undraverðir hlutir gerst – og þetta leikrit sem er rúmlega klukkustundarlangt er í þeim flokki.

Sýningin er sögð vera „hryllilegt gamanverk fyrir alla fjölskylduna“ og það má með sanni segja. Hún er gamanverk, það er rauði þráðurinn sem gengur í gegnum verkið. Æska og þróttur djáknans og Guðrúnar, bjartsýni og gáski þeirra áður en hið harmræna gerist. Ýmsar persónur úr öllum þrepum mannfélagsstigans stíga fram á sviðið, vinnufólk, prestar, djáknar, húsfreyjur og bændur – mjög svo ógleymanlegar persónur.

En hver er boðskapurinn?

Saga er stysta leið milli manna, svo er oft sagt. Verkið segir sögu. Skoða má söguna um djáknann á Myrká sem örlagasögu, sögu um það þegar margt snýst við í lífinu – og stundum áttar fólk sig seint á því. Það er margt fallvalt – tími kórónuveirunnar sýnir að fráleitt er allt á færi mannsins. En gleðinni má hann aldrei gleyma, gáska líðandi stundar – og lífskraftinum - og þakka fyrir það.

Þess vegna leið þessi leikhússtund við Tjörnina á einu augabragði og lyfti geði leikhúsgesta með tilþrifum.

Leikararnir tveir, Birna og Jóhann Axel, sýna stjörnuleik. Frábærir leikarar með tök á hinum smæstu atriðum og láta ekkert koma sér úr jafnvægi.

Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að gefa gaum að þessari sýningu – listarinnar vegna og sjálfra sín.

Þá má benda á í lokin að það væri tilvalið fyrir einstaka sóknir að sjá sýninguna og efna svo til samtals um hana á einhverju kaffihúsi í grennd við Tjarnarbíól. Eða síðar í safnaðarheimili viðkomandi kirkjusafnaðar. Sýningin kemur líka mjög til álita fyrir fermingarbarnastarf.

Nánar má sjá um sýninguna hér þegar hún var sýnd fyrir norðan og á einnig við sýninguna í Tjarnarbíói.

hsh

 

Sagan sjálf DJÁKNINN Á MYRKÁ

 

DJÁKNINN Á MYRKÁ

Í fyrri daga var djákni einn að Myrká í Eyjafirði; ekki er þess getið, hvað hann hét. Hann var í þingum við konu, sem Guðrún hét; hún átti að sumra sögn heima á Bægisá, hinum megin Hörgár, og var hún þjónustustúlka prestsins þar. Djákninn átti hest gráföxóttan, og reið hann honum jafnan; þann hest kallaði hann Faxa. Einhverju sinni bar svo til litlu fyrir jól, að djákninn fór til Bægisár til að bjóða Guðrúnu til jólagleði að Myrká og hét henni að vitja hennar í ákveðinn tíma og fylgja henni til gleðinnar aðfangadagskvöld jóla. Dagana áður en djákninn fór að bjóða Guðrúnu, hafði gjört snjóa mikla og ísalög; en þann sama dag sem hann reið til Bægisár, kom asahláka og leysing, og þegar á leið daginn, varð áin ófær fyrir jakaferðum og vatnagangi, á meðan djákninn tafði á Bægisá. Þegar hann fór þaðan, hugði hann ekki að því, sem skipast hafði um daginn, og ætlaði, að áin mundi enn liggja sem fyrr. Hann komst yfir Yxnadalsá á brú; en þegar hann kom til Hörgár, hafði hún rutt sig. Hann ríður því fram með henni, uns hann kemur fram á móts við Saurbæ, næsta bæ fyrir utan Myrká; þar var brú á ánni. Djákninn ríður á brúna, en þegar hann er kominn á hana miðja, brestur hún niður, en hann fór í ána. Morguninn eftir, þegar bóndinn á Þúfnavöllum reis úr rekkju, sér hann hest með reiðtygjum fyrir neðan túnið og þykist þekkja þar Faxa djáknans á Myrká. Honum verður bilt við þetta, því hann hafði séð til ferða djáknans ofan hjá daginn áður, en ekki orðið var við, að hann færi til baka, og grunaði því brátt, hvað vera mundi. Hann gengur því ofan fyrir túnið; var þá sem honum sýndist, að þar var Faxi, allur votur og illa til reika. Gengur hann síðan ofan að ánni, ofan á svo kallað Þúfnavallanes; þar finnur hann djáknann rekinn örendan á nesinu framanverðu. Fer bóndi þegar til Myrkár og segir tíðindin. Djákninn var mjög skaddaður á höfðinu aftanverðu af ísjaka, er hann fannst. Var hann svo fluttur heim til Myrkár og grafinn í vikunni fyrir jólin.

 

Frá því að djákninn fór frá Bægisá og til þess á aðfangadaginn, hafði engin fregn farið milli Myrkár og Bægisár um þessa atburði neina sökum leysinga og vatnagangs. En á aðfangadaginn ver veður stilltara, og hafði runnið úr ánni um nóttina, svo að Guðrún hugði gott til jólagleðinnar á Myrká. Þegar leið á daginn, fór hún að búa sig, og þegar hún var vel á veg komin með það, heyrði hún, að það var barið; fór þá önnur kona til dyra, sem hjá henni var, en sá engan úti, enda var hvorki bjart úti né myrkt, því tungl óð í skýjum og dró ýmist frá eða fyrir. Þegar stúlka þessi kom inn aftur og kvaðst ekki hafa séð neitt, sagði Guðrún: "Til mín mun leikurinn gjörður, og skal ég að vísu út ganga." Var hún þá albúin, nema að hún átti eftir að fara í hempuna. Tók hún þá til hempunnar og fór í aðra ermina, en fleygði hinni erminni fram yfir öxlina og hélt svo í hana. Þegar hún kom út, sá hún Faxa standa fyrir dyrum og mann hjá, er hún ætlaði, að væri djákninn. Ekki er þess getið, að þau hafi átt orðræðu saman. Hann tók Guðrúnu og setti á bak og settist síðan sjálfur á bak fyrir framan hana. Riðu þau þá svo um hríð, að þau töluðust ekki við. Nú komu þau til Hörgár, og voru að henni skarir háar, en þegar hesturinn steyptist fram af skörinni, lyftist upp hattur djáknans að aftanverðu, og sá Guðrún þá í höfuðkúpuna bera. Í þeirri svipan rak skýin frá tunglinu; þá mælti hann:

 

"Máninn lýður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?"

 

En henni varð bilt við og þagði. En aðrir segja, að Guðrún hafi lyft upp hatti hans að aftan og séð í hvíta kúpuna; hafi hún þá átt að segja: "Sé ég það, sem er." Ekki er sagt af samræðum þeirra fleirum né ferðum, fyrr en þau koma heim að Myrká, og fóru þau þar af baki fyrir framan sáluhliðið; segir hann þá við Guðrúnu:

 

"Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan eg flyt hann Faxa, Faxa,
upp fyrir garða, garða."

 

Að því mæltu fór hann með hestinn; en henni varð litið inn í kirkjugarðinn. Sá hún þar opna gröf og varð mjög hrædd, en tekur þó það til bragðs, að hún grípur í klukkustrenginn. Í því er gripið aftan í hana, og varð henni þá það að happi, að hún hafði ekki fengið tíma til að fara nema í aðra hempuermina, því svo var sterklega til þrifið, að hempan gekk sundur um axlarsauminn á þeirri erminni, er hún var komin í. En það sá hún síðast til ferða djáknans, að hann steyptist með hempuslitrið, er hann hélt á, ofan í gröfina opnu, og sópaðist moldin frá báðum hliðum ofan yfir hann.

En það er frá Guðrúnu að segja, að hún hringdi í sífellu, allt til þess að bæjarmenn á Myrká komu út og sóttu hana, því af öllu þessu var hún orðin svo hrædd, að hún þorði hvergi að fara né heldur hætta að hringja, því hún þóttist vita, að hún hefði átt þar við djáknann afturgenginn, þó henni hefði ekki áður komið nein fregn um lát hans, enda gekk hún úr skugga um, að svo hafði verið, er hún náði tali af Myrkármönnum, er sögðu henni upp alla sögu um lát djáknans, og hún aftur þeim af ferðum sínum. Þessa sömu nótt, þegar háttað var og búið að slökkva ljósið, kom djákninn og ásótti Guðrúnu, og voru svo mikil brögð að því, að fólkið varð að fara á fætur, og varð engum svefnsamt þá nótt. Í hálfan mánuð eftir þetta mátti hún aldrei ein vera, og varð að vaka yfir henni hverja nótt. Sumir segja, að presturinn hafi orðið að sitja á rúmstokknum hjá henni og lesa í Saltaranum.

Nú var fenginn galdramaður vestur í Skagafirði. Þegar hann kom, lét hann grafa upp stein einn mikinn fyrir ofan tún og velta heim að skálastafni. Um kvöldið, þegar dimma tók, kemur djákninn og vill inn í bæinn, en galdramaðurinn hneppir hann suður fyrir skálastafn og setur hann þar niður með særingum mikum; veltir hann síðan steininum ofan á, og þar á djákninn að hvíla enn í dag. Eftir þetta tók af allan reimleik á Myrká og Guðrún að hressast. Litlu seinna fór hún heim til sín að Bægisá, og er sögn manna, að hún hafi síðan aldrei orðið söm og áður.

 


 

    Barokkbandið Brák

    Aðventuhátíðir um allt land

    29. nóv. 2024
    ...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju
    Flokkarnir.jpg - mynd

    Mikil jákvæðni í svörum flokkana við spurningum Þjóðkirkjunnar

    28. nóv. 2024
    Frambjóðendur í Alþingiskosningum svöruðu spurningum Þjóðkirkjunnar. Greina má töluverða jákvæðni gagnvart kirkjunni í svörum flokkana. Svör frambjóðenda eru hér birt í heild sinni.
    Aðventukrans.jpg - mynd

    Katrín Jakobsdóttir á aðventukvöldi

    27. nóv. 2024
    ...í Bústaðakirkju