Vísitasíu biskups lokið í Staðastaðarprestakalli
Föstudaginn 6. mars lauk vísitasíu biskups í Staðastaðarprestakalli.
Morguninn hófst á kirkjuskoðun í Búðakirkju þar sem umhverfið skartaði sínu fegursta í blíðskaparveðri, heiðskýr himinn, fjalla- og jöklasýn, en nokkuð kalt. Margrét Björk Björnsdóttir, fulltrúi sóknarnefndar tók á móti biskupi, ásamt sóknarpresti og prófasti. Kirkjan var lagfærð að utan síðasta sumar, en henni er vel við haldið og margir fallegir munir og gripir prýða hana. Fjöldi athafna fer fram í henni, þá aðallega hjónavígslur. Búðarkirkja er fjölsóttur ferðamannastaður og kemur fólk langt að til að sækja hana heim.
Þá var förinni heitið í Hellnakirkju. Sóknarnefnd vinnur nú að endurbótum á kirkjunni, gluggum hennar og veggjum, en segja má að heimamenn séu að lyfta þar grettistaki í endurbótum. Þörf er einnig á upplyftingu á ytra byrði kirkjunnar. Altaristaflan er í geymslu, en hún hefur verið lagfærð og býður uppsetningar. Haldið var á verkstæðið þar sem verið er að gera gluggunum til góða og þar sem altaristaflan er geymd. Fulltrúar sóknarinnar sem tóku á móti biskupi voru Sigríður Einarsdóttir, Kristinn Jón Einarsson og Sigurlaug Konráðsdóttir.
Því næst var förinni heitið í Staðastaðarkirkju. Að loknum hádegisverði á prestssetrinu var kirkjan skoðuð og fundað með fulltrúum sóknarnefndar, Kristjáni Þórðarsyni og Þóru Kristínu Magnúsdóttur. Kirkjan fallegur helgidómur, með fjölbreytta muni og list sem prýða hana. Steinsbiblía frá 1792, prentuð á Hólum í Hjaltadal, hefur verið endurheimt í kirkjuna, að lokinni viðgerð. Skipta hefur verið um þak á kirkjunni, en sóknin réðst í þá framkvæmd síðasta sumar.
Þá var Kolbeinsstaðakirkja skoðuð ásamt Kristjáni Magnússyni formanni sóknarnefndar. Forn kaleikur, forkunna fagur frá 15. öld prýðir kirkjuna. Huga þarf að lagfæringum á gluggum og í athugun er að gera nýja aðkomu að kirkjunni.
Kirkjugarðar prestakallsins eru í góðu standi og umhirðu. Samstarf sókna innan prestakallsins hefur aukist, svo sem eins og kórastarfið.
Biskup þakkaði hlýjar og góðar móttökur í prestakallinu og þakkaði jafnframt sóknarnefndum, sjálfboðaliðum og starfsfólki öllu þeirra mikilvægu störf fyrir kirkjuna.
ÞV
Í Búðakirkju