Getum við lært af Dönum?

13. apríl 2020

Getum við lært af Dönum?

Krossbrauð

Streymið er mál málanna hjá kirkjunum nú um stundir. Þær hafa verið duglegar undanfarið við að streyma á heimasíðum sínum sem og Facebókarsíðum frá helgihaldi og einkum og sér í lagi nú um páska. Þetta eru dagar streymiskirkjunnar.

Samkomubannið hefur fært kirkjuna tímabundið frá hefðbundnum stað og yfir í hinn óræða netheim. Kirkjurými til sjávar og sveitar, um landið þvert og endilangt, er komið á netið með sérstakri þátttöku sóknarbarnanna.

Danir hafa verið hugmyndaríkir í streymismálum sínum og viðbrögðum við samkomubanni á kórónuveirutíma. Þeir hafa líka spurt sig þeirrar gagnrýnu spurningar hvort streymið endurspegli prestakirkjuna. Eðli máls er söfnuðurinn dálítið á hliðarlínunni – eflaust eru til ráð við því að koma honum inn í streymið.

Bíllinn ræstur Margar kirkjur í Álaborg efndu á páskadag til „drive-in“ guðsþjónustu á flugvelli Álaborgar. Þar var komið upp risastórum skjá þar sem sjá mátti myndina og síðan var hljóðið sent í útvarpið. Væri þetta hugmynd fyrir kirkjur hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu? Að fá lánaðan hluta af Reykjavíkurflugvelli? Eða úti á landsbyggðinni? Væri ráð að nota gamla flugvelli til þessa ef þarf? Kannski hægt að stefna að því ef samkomubann stendur enn yfir þegar hvítasunnan gengur í garð, hinn 31. maí. Hver veit?

„Haldið upp á páskadag með því að draga tappa úr kampavínsflösku, og vínið streymir fram í gullnum dropum, já eins og upprisa“, hljóðuðu skilaboðin frá Havdrup-kirkju í Solrød en kirkjufólkið þar gaf út lista til sóknarbarnanna þar sem mátti finna hugmyndabanka um hvað hægt væri að gera um páskana. Þau stungu til dæmis upp á því að upplagt væri að baka svokallað krossbrauð á (cross buns) á skírdag.

Ein kirkja efndi til ljósmyndakeppni. Hægt var að senda myndir til kirkjunnar gegnum netið sem sýndu einhver páskastef – og stef sem endurómuðu söknuð eftir hinu hefðbundna hversdagslega lífi eða kirkjustarfi þegar kórónuveiran hefur umturnað öllu með sínum hætti. Verðlaun voru margvísleg – til dæmis silfurkross og stutt ferð um merkan kirkjusögustað í lok veirutíðar.

Nýjung Þau í Jakobskirkju í Hróarskeldu buðu upp á „take away“ kvöldmáltíð. Um sjötíu manna hópur hefur komið saman í kirkjunni á skírdag ár hvert og tekið þátt í kvöldmáltíðarsakramentinu. Nú var breyting á. Hægt var að panta mat hjá kirkjunni, páskamat, einnig brauð og vín, ásamt leiðbeiningum um það hvernig fylgjast skyldi með skírdagsguðsþjónustu á Facebók. Og þau bættu hróðug við að þannig væri líka stutt við bakið á slátrara staðarins sem sæi um að útbúa matinn. Semsé verslum í heimabyggð!

Elsta kirkjan á norður Sjálandi er Nødebo-kirkja. Hún blés til samsöngs fyrir utan kirkjuna í gær, páskadag. Meira en sextíu sóknarbörn mættu fyrir framan kirkjuna, gott bil á milli allra að sjálfsögðu. Léttsveit lék undir sönginn og tók nokkrar sjálfstæðar syrpur. Svipað og Vídalínssöfnuður gerði í gær fyrir utan Ísafold – Hrafnistu, í Garðabæ.

Sankt Nicolai-kirkja í Rønne bauð upp á ratleik á páskadag – eins og Laugarneskirkja og Langholtskirkja efndu til í samstarfi – fyrir fullorðna og börn. Alls voru sextán stöðvar í leiknum og verkefni öll tengd páskum og íhugun um þá, við hæfi allra í fjölskyldunni.

Þetta eru allt dæmi um viðbrögð og hugmyndauðgi. Allir vona að sjálfsögðu að samkomubanni verði aflétt sem fyrst – og fróðlegt verður að sjá hver skipuleg verður á því. Eitt skref í einu. En gott er að hafa hugmyndir í pokahorninu ef samkomubann stendur óbreytt og lengur yfir en fólk vonast til.

hsh/Kristeligt Dagblad


Ratleikur - Langholts-og Laugarnessöfnuðir efndu til hans
  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta
Bænagangan 3.jpg - mynd

Bænagangan 2024

23. apr. 2024
...á sumardaginn fyrsta