Spurt og svarað: Djáknar

12. júní 2020

Spurt og svarað: Djáknar

Halldór Elías Guðmundsson skýrir út stöðu djákna

Á dögunum var haldinn kynningarfundur á Biskupsstofu á rannsókn um stöðu og þróun djáknaþjónustu í þjóðkirkjunni frá 1995 til 2019.

Halldór Elías Guðmundsson, djákni, skilaði inn greinargerð sem unnin var í samstarfi við Ragnheiði Sverrisdóttur, djákna, á kærleiksþjónustusviði Biskupsstofu.

Meðal þess sem Halldór Elías tók saman var starfsaldur eftir menntun og hve mörg hafa hlotið djáknavígslu. Hann bar einnig saman starfsferil djákna með hliðsjón af aldri, kyni og fyrri reynslu. Einnig skoðaði Halldór Elías hvernig staðið hefur verið að ráðningum í djáknastörf, útbjó yfirlit yfir vinnuveitendur djákna frá 1995 og athugaði hvort og þá hvernig starfsreglum þjóðkirkjunnar hefur verið fylgt við ráðningar.

Djáknar á Íslandi í 25 ára - Halldór Elías Guðmundsson - Ragnheiður Sverrisdóttir.pdf - hérna má sem sé lesa greinargerð Halldórs Elíasar og er hún hin athyglisverðasta - góð helgarlesning fyrir kirkjunnar fólk.

Af þessu tilefni lagði kirkjan.is nokkrar spurningar fyrir Halldór Elías og koma svör hans hér:

1. Hver var ástæða þess að farið var að kanna stöðu djákna í þjóðkirkjunni?
Um þessar mundir eru 25 ár síðan að fyrstu djáknarnir voru vígðir til þjónustu í þjóðkirkjunni eftir að hafa lokið námi við Háskóla Íslands, af þeim sökum ákvað Kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu að leita til Halldórs Elíasar Guðmundssonar, djákna, og fá hann til að gera greinargerð um stöðu djákna í íslensku þjóðkirkjunni og þróun djáknaþjónustu yfir þessi 25 ár.
2. Í greinargerðinni kemur fram að 85% af djáknahópnum „í síðari tíð“ eru konur og 94% þeirra sem ljúka starfsþjálfun djákna, eru konur. Hvað skýringar eru á því að karlar leita síður í nám og störf djákna? 
Strax í upphafi var ljóst að djáknanámið og störf djákna virtust höfða mun sterkar til kvenna en karla. Námið var byggt upp annars vegar sem viðbótarnám fyrir kennara og hjúkrunarfræðinga, þar sem konur eru í miklum meirihluta og hins vegar sem BA-nám.

Orðræða í kringum stéttina varð mjög fljótlega á þá leið að djáknanám væri fyrir konur sem væru nú þegar á vinnumarkaði og stefndu að því að skipta um starfsvettvang. Ég kannaði ekki hvað olli því að þessi orðræða um stéttina varð jafnsterk og raun ber vitni. Þess ber þó að geta að frá 1961 fram til 1995, voru þrjú vígð til djákna á Íslandi, tveir karlar og ein kona. Eftir að formlegt djáknanám var tekið upp í Háskóla Íslands, voru hins vegar 19 af fyrstu 20 djáknunum konur.

Það er auðvelt að falla í gryfjur allskonar karllægra staðalímynda um völd og áhrif eða kvenlægar hugmyndir um auðmýkt og þjónustu, en ég held að þarna sé miklu mun fremur um að ræða afleiðingu þess hvernig námið var byggt upp og kynnt annars vegar og þess hverjar voru helstu fyrirmyndir djákna á Íslandi á þessum tíma, Unnur Anna Halldórsdóttir og Ragnheiður Sverrisdóttir. En ég endurtek að ég skoðaði þetta ekki sérstaklega.
3. Í greinargerðinni er talað um „djáknatengd störf,“ hvað er átt við með því?
Þegar hugmyndin kom fram um uppbyggingu djáknaþjónustu í þjóðkirkjunni, var mikil áhersla lögð á annars vegar hlutverk djákna í hvers kyns kærleiksþjónustu, s.s. stuðningsþjónustu við þá sem verr standa, daglegan trúarlegan stuðning við starfsfólk og vistfólk á stofnunum, heimsóknarþjónustu til eldri borgara og hvers kyns kirkjulegt félagsstarf. Hins vegar voru væntingar um að djáknar myndu sinna fjölbreyttu fræðslustarfi á safnaðarvettvangi sér í lagi fyrir börn og ungmenni. Í einhverjum tilfellum, þegar vel gengur, hefur hlutverk djákna hins vegar fyrst og fremst verið það að skipuleggja jafningastarf leikra í kirkjunni, þar sem maður heimsækir mann, eða ungleiðtogar spreyta sig í barnastarfi undir vökulu auga djákna.

Djáknatengd störf, eru þannig þau störf sem styðja við kærleiksþjónustu í nafni kirkju og kristni og stuðla að vönduðu og faglegu fræðslustarfi til trúaruppbyggingar. Djáknatengd störf eru alls ekki alltaf unnin af menntuðum og vígðum djáknum.
4. Hvaða ástæður liggja að baki því að „ekki virðist vera til samræmdur skilningur á hvað felst í því að vera djákni í starfi“? Getur slíkt ósamræmi staðið djáknum og störfum þeirra fyrir þrifum?
Ein af niðurstöðum vinnunnar minnar, sem því miður kom ekki á óvart, var sú að staða djákna í kirkjunni er mjög óljós. Ástæður þess eru fjölmargar. Vígsluskilningur vígðra þjóna almennt er mjög á reiki, og það hefur haft mikil áhrif á djákna. Einstaka söfnuðir hafa séð ofsjónum yfir meintum kostnaði við að ráða djákna til starfa og/eða virðast ekki vilja afskipti Biskupsembættisins af ráðningarmálum sínum. En samkvæmt starfsreglum kirkjunnar ber Biskup að auglýsa djáknastöður.

Það er hægt að benda á fleiri ástæður þess að ekki er samræmdur skilningur á hvenær djáknar eru í starfi sem djáknar og hvenær ekki, en afleiðingar þessa ósamræmis gera djáknum mjög erfitt fyrir. Enda erfitt um vik að byggja upp skýra sjálfsmynd, þegar hugmyndir og kröfur umhverfisins sem starfað er í, eru síbreytilegar.
5. Í greinargerðinni er miðað við djákna sem „sannarlega sinna trúarlegri kærleiksþjónustu á kristilegum vettvangi ...“, í hvaða öðrum störfum (fjöldi þeirra) eru djáknar sem ekki falla undir nefnda skilgreiningu?
Einhverjir djáknar hafa fengið störf í félagsþjónustu sveitarfélaga eða starfa að félagsstarfi á stofnunum. Einhverjir hafa haldið til baka í kennslu eða hjúkrun, nú eða farið í frekara nám og fundið sér annan starfsvettvang. Greinargerðin skoðaði ekki sérstaklega hvert djáknar hafa farið til starfa eftir að hafa lokið störfum í kirkjunni, en rétt tæplega 30 djáknar eru í dag á vinnumarkaði þar sem vígslan er ekki talin þeim sérstaklega til tekna, þó ég trúi vissulega að djáknamenntunin og -reynslan nýtist.
6. Fram kemur í greinargerðinni að starfsaldur hjúkrunarfræðinga sem eru djáknar er lengri en djákna með BA-próf (13 ár móti 6.5 árum). Segir þetta eitthvað um djáknastarfið að þínu mati eða eru starfsaðstæður hjúkrunarmenntuðu djáknanna aðrar en hinna? (Kannski ekki athugað).
Það sem einkennir starfsaðstæður hjúkrunarfræðimenntaðra djákna fyrst og fremst, er að þær sköpuðu og mótuðu nærri allar starfið sitt sjálfar í nánu samráði og með stuðningi vinnuveitanda og fóru að námi loknu í starfsumhverfi sem þær þekktu og höfðu starfað í áður en þær fóru í nám. Það á sjaldnar við um djákna með BA-gráðu.

Djáknar með BA-gráðu hafa oftsinnis verið að koma inn í starfsumhverfi sem þeir hafa litla reynslu af að starfa í. Þegar söfnuðir eru vinnuveitendur djákna, þá hafa söfnuðir oft litla reynslu af því að ráða fagfólk til starfa aðra en hugsanlega organista og því er hætta á ýmiskonar núningi. Reynsluleysi starfsfólks og þekkingarleysi safnaða af starfsmannamálum, getur því skapað mjög óhollt starfsumhverfi, sem ég tel persónulega útskýri alla vega að hluta, hvers vegna djáknar með BA-gráðu eiga jafn skamman starfsaldur og raun ber vitni.
7. Hvernig skýrir þú það að í sumum tilvikum auglýsir vinnuveitandi eftir djáknamenntuðu fólki til starfa (og tali þá jafnvel um: „djákna að störfum“ (enda þótt viðkomandi sé ekki vígður/vígð, noti sumsé djákni sem starfsheiti)) og óski svo síðar eftir því að biskup auglýsi eftir djákna til þess að fullnægja laga/starfsskilyrðum (og eru þá búnir að velja djáknaefnið)? Getur verið að vinnuveitandi telji að valið sé úr höndum þeirra ef biskup auglýsir?
Eins og ég nefndi fyrr (sjá 4) þá tel ég að vinnuveitendur treysti ekki kerfinu.
8. Skilji kirkjan.is þessa greinargerð rétt þá hefur djáknum í djáknastörfum fækkað. Er einhver skýring á því?
Djáknastörfum fækkaði í kjölfar bankahrunsins. Það tók söfnuði nokkur ár að bregðast við, þannig að fækkunin varð kannski ekki augljós fyrr en árið 2010, tveimur árum eftir hrunið. Enda leituðust söfnuðir við að skera ekki niður safnaðarstarf fyrst í stað. Frá hruninu hafa sóknargjöld ekki hækkað í samræmi við væntingar safnaða og það hefur án vafa haft einhver áhrif, söfnuðir telja sig ekki hafa efni á því að ráða djákna.

Þetta hefur að mínu viti neikvæð áhrif á sjálfsmynd djákna, enda erfitt um vik að starfa í umhverfi þar sem mögulegir vinnuveitendur halda að sér höndum og fá störf eru auglýst. Djáknar eru um margt minna sýnilegir í dag, en þeir voru í upphafi og fram til 2008.
9. Í greinargerðinni kemur fram að árið 2019 hafi 40% starfandi djákna verið í fullu starfa en 60% við djáknastörf og önnur hlutastörf. Segir þetta eitthvað um þörf safnaðanna á djáknamenntuðu fólki?
Nei, ég trúi því að þörfin eða öllu heldur tækifærin, séu miklu fleiri en þessar tölur gefa til kynna. Ég held að þar sem söfnuðir hafa djákna í fullu starfi, þá skili það sér oftast nær í betra og blómlegra starfi. Þjónustuþörf safnaða er flókið hugtak en söfnuðir sem vilja sjá nýsköpun, grósku og uppbyggingu í trúarlegu starfi þurfa að vera tilbúnir að fjárfesta í velmenntuðu fólki sem er tilbúið til að takast á við spennandi verkefni. Þar er farvegur fyrir djákna.

Vissulega þarf að endurskoða námið stöðuglega, spyrja gagnrýnna spurninga, móta vígsluskilning og skapa gott starfsumhverfi, en tækifærin eru til staðar. Við sjáum það í safnaðarstarfi Áskirkju, í Kópavogskirkju, í Fella- og Hólakirkju, í barna- og unglingastarfi Árbæjarkirkju, í Mosfellsbænum, í Bessastaðasókn, í hinni nýju Fossvogssókn og í Glerárkirkju svo nokkur dæmi séu nefnd. Á öllum þessum stöðum og fleiri hafa djáknar tekið þátt í að gera gott safnaðarstarf enn betra með vönduðum vinnubrögðum og þekkingu. Ég gæti á sama hátt talið upp félagasamtök og heilbrigðisstofnanir þar sem djáknar hafa átt þátt í að þróa og gera spennandi hluti skjólstæðingum og starfsfólki til heilla.

Við höfum tækifæri til blómlegrar uppskeru, verkamenn eru til staðar og hafa heyrt köllun frá Drottni uppskerunnar. En það er stundum eins og aðgengið að akrinum og verkfærin til starfans séu læst inn í skáp.
10. Fram kemur að brýnt sé að endurmóta „tilsjónarhlutverk prófasts sérstaklega með tilliti til djákna í fjölbreyttri sérþjónustu í félagasamtökum og hjá stofnunum.“ Telur þú að að það vanti upp á að prófastar hafi skilning á störfum djákna?
Því miður held ég að þrátt fyrir góðan vilja allra, þá séu sumir prófastar óöruggir um stöðu sína og ábyrgð gagnvart djáknum. Ég held að prófastar kunni að meta störf djákna og þau verkefni sem þeir sinna, en sjái þá ekki sem hluta af teyminu sínu á sama hátt og prestanna. Þetta er þó auðvitað mjög persónubundið og erfitt að fullyrða með þessum hætti. Ég, persónulega, hef átt frábært samstarf við alla prófasta sem ég hef unnið með.
11. Á bls. 10 í greinargerðinni stendur: „Enda eru flest djáknastörf búin til af viðkomandi einstaklingi.“ Hvernig ber að skilja þetta?
Á síðustu 25 árum hafa langflestir djáknar sem hafa komið til starfa, verið fyrsta manneskjan til að gegna viðkomandi starfi. Þannig hafa fæstir djáknar geta litið til fyrirmyndar eða forvera í starfinu til að skilja hvaða væntingar eru til staðar um starfið og starfsárangur. Væntingar safnaða og sóknarpresta hafa oft verið lítt orðaðar og byggðar á óljósum eða óskýrum hugmyndum um stöðu og hlutverk djákna. Þannig hefur persónuleiki, fyrri reynsla og áhugasvið viðkomandi djákna haft mótandi áhrif á þau verkefni sem djákninn hefur sinnt. Þegar vel hefur tekist til, þá hafa væntingar og áhugasvið djákna og safnaðar farið saman, en það eru sársaukafull dæmi þess að áherslur og hugmyndir djákna hafi ekki farið saman við óorðaðar væntingar safnaða og sóknarprests.

Í öðrum tilfellum hafa söfnuðir útbúið starf fyrir og í samráði við einstaka djákna, þar sem væntingar og starfslýsing er skrifuð með ákveðinn einstakling í huga, þar sem starfið er klæðskerasniðið að þörfum og áhugasviði viðkomandi starfsmanns.
12. Hver er framtíðarhlutverk djákna í íslensku kirkjunni?
Spurning um framtíðarhlutverk djákna er nátengd spurningunni um framtíðarhlutverk kirkjunnar. Kirkja sem vill byggja upp öflugt safnaðarstarf, koma að mótun framtíðarinnar, bjóða upp á öflugt trúarlegt starf fyrir sóknarbörn og láta sig varða um sköpunarverkið í víðasta skilningi, þarf á öflugu guðfræðimenntuðu starfsfólki að halda með víðtækan bakgrunn og fjölbreytta þekkingu. Ég trúi að þar sé vettvangur fyrir djákna.

hsh


Merki djákna í Djáknafélagi Íslands

Starfsreglur um djákna


  • Guðfræði

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Prestarnir Daníel Ágúst og María

Hverfa til annarra starfa

06. jan. 2025
...þéttsetin Grensáskirkju í kveðjumessu Maríu og Daníels Ágústs presta í Fossvogsprestakalli
logo.png - mynd

Kirkjan.is á nýju ári

03. jan. 2025
...pistill frá samskiptastjóra kirkjunnar
Mikill fjöldi var í Vatnaskógi

Öflugt æskulýðsstarf á höfuðborgarsvæðinu

03. jan. 2025
...stórmót ÆSKH í Vatnaskógi