Glæsileg dagskrá

13. júlí 2020

Glæsileg dagskrá

Skálholtsdómkirkja og Þorláksbúð

Næstu helgi, 18. -19. júlí, verður mikið um að vera í Skálholti og gestum boðið upp á vandaða dagskrá þar sem trú, menning og list, fléttast saman.

Það er Skálholtshátíð.

Hápunktur hennar er hátíðarmessa sem fer fram á sunnudeginum í Skálholtskirkju og hefst kl. 14.00. Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, prédikar. Skálholtskórinn syngur, blásið verður í trompeta, við orgelið er Jón Bjarnason. Fjöldi klerka og leikmanna koma að helgihaldinu og meðal annarra biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, og forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir. Prestar og leikmenn munu ganga fylktu liði frá skóla í kirkju.

Nokkru fyrir Skálholtshátíð eru farnar pílagrímagöngur frá Reynivöllum í Kjós, frá Þingvöllum og frá Bræðratungukirkju og er sú síðastnefnda helguð Ragnheiði Brynjólfsdóttur (1641-1663). Pílagrímar koma svo gangandi berfættir inn í Skálholtskirkju í upphafi messunnar og er það ætíð hátíðleg stund. Sjá nánar hér um pílagrímagöngurnar. 

Að lokinni hátíðarguðsþjónustu verður kirkjukaffi í Skálholtsskóla í boði Skálholtsstaðar.

Samkvæmt venju hefst hátíðardagskrá í Skálholtskirkju kl. 16.00 og þar flytur hátíðarræðu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Þar flytja og tveir fornleifafræðingar erindi um fornleifarannsóknir í Skálholti, Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar. Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup, slítur Skálholtshátíð 2020 með fararbæn.

Stiklað á stóru í dagskránni

Yfirskrift Skálholtshátíðar 2020 er: „Ég kalla á þig með nafni,“ og hana má finna spádómsbók Jesaja.

Á föstudeginum 17. júlí er farin pílagrímaganga frá Þingvöllum til Neðra-Apavatns.

Þá er boðið upp á sögugöngu í umsjón vígslubiskups á hluta af Þorláksleið milli kl. 15.00 og 19.50.

Föstudagskvöldið eru tónleikar í Skálholtskirkju kl. 20.00. Þar má hlýða á FriFraVoce og Vox Felix.

Klukkan 21.00 eru svo kvöldbænir í Þorláksbúð.

Skálholtshátíð verður svo sett formlega á laugardeginum 18. júlí við Þorlákssæti kl. 10.30.

Á hátíðinni verður formleg opnun á laugardeginum kl. 11.30 á höggmyndalist Rósu Gísladóttur. Verk hennar standa við kirkjuna og Skálholtskóla. 

Boðið verður upp á leiðsögn við minjasvæðið kl. 13.30 á laugardeginum 18. júlí.

Tónleikar Skálholtskórsins og Jóns Bjarnasonar, organista og kórstjóra, verða á laugardeginum 18. júlí kl. 16.00. Flutt verða meðal annars tónverk eftir Bach, Händel, Vivaldi o.fl., tónlist sem Jón Þorkelsson Vídalín naut á sínum tíma en í ár er minnst 300. ártíðar hans - í næsta mánuði verður málþing í tilefni útgáfu á ritverki um Jón Vídalín, (1666-1720).

Inni í skólanum er samsýning tólf listamanna sem er mjög fjölbreytileg en að mestu helguð minningu um Jón Vídalín, reiðilestrinum og öðrum minnisverðum stefjum.

Kvöldbæn í Skálholtskirkju á laugardeginum kl. 18.00.

Morgunbæn er í Skálholtskirkju á sunnudeginum 19. júlí kl. 9.00.

Orgeltónleikar Jóns Bjarnasonar kl. 11.00 í Skálholtkirkju.

Þar sem Þorláksmessu á sumar ber upp á 20. júlí sem er mánudagur í ár verður morgunmessa í Skálholtsdómkirkju að morgni þess dags kl. 9.00.

Skálholtshátíð er haldin sem næst Þorláksmessu á sumar sem er helguð minningu Þorláks biskups Þórhallssonar, (1133-1193), en hann er að kaþólskum sið verndardýrlingur Íslands.

Nánari upplýsingar um Skálholtshátíð má finna hér.

hsh