Katrín í Skálholti

19. júlí 2020

Katrín í Skálholti

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti hátíðarræðu í Skálholti

Það var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem flutti hátíðarræðuna í lok Skálholtshátíðar í dag.

Ræðu sína hóf forsætisráðherrann á sögulegu yfirliti og kom víða við. Skálholt enda öðrum stöðum sögufrægari og hafi verið frá upphafi byggðar miðja valdabaráttu og trúarlegra og hugmyndafræðilegra átaka.

Síðan sagði hún:

„Heldur hefur orðið rórra yfir Skálholti á síðari öldum þó að samtíminn í Skálholti er ekki átakalaus – eða hver man ekki eftir átökunum um Þorláksbúð sem ég þekki helst til vel sem fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Hún er vitaskuld kennd við Þorlák helga sem var fyrsti dýrlingur Íslands og var ansi fjölhæfur, gat læknað augnverki, fundið týndar kindur og bjargað fólki úr sjávarháska jafnvel í öðrum löndum. Eitt sinn prangaði maður blindum sauð á fátækan mann en heilagur Þorlákur gaf sauðnum sýn. Ein af mínum eftirlætisjarteinum Þorláks fjallar um fátækan mann sem týndi „góðum fjötri“. En viti menn, hann hét á heilagan Þorlák og fann blessað reipið.“

Katrín sagði staðinn ekki lengur tengjast átökum eins og saga fortíðar greinir frá sem og þeim núningi sem varð í kringum Þorláksbúð á sínum tíma heldur tengist staðurinn nú við:

„þann einstaka frið sem sérhver gestur finnur þegar hann stendur hér á torfunni og hlustar á náttúruna; fuglasöng, árnið, vindinn í grasinu. Skálholt er staður ígrundunar og helgi náttúrunnar þar sem leitast hefur verið við að vinna að mikilvægum verkefnum til að draga úr losun, binda meira kolefni og vernda sköpunarverkið; líffræðilega fjölbreytni.“

Katrín rifjaði upp fund sem hún sat í Skálholti fyrir nokkrum árum með prestum af Suðurlandi þar sem rætt var um stöðu flóttafólks og innflytjenda og hlutverk kirkjunnar í þeim efnum og sagði:

„Sýndi það mér hve miklu skiptir að kirkjan taki virkan þátt í að takast á við hin stóru viðfangsefni samtímans með þau leiðarljós sem hún hefur alltaf fylgt: Kærleika, sáttagjörð og virðingu fyrir sköpunarverkinu öllu. Stóru verkefnin sem blasa við okkur í samtímanum eru einmitt verkefni sem kalla á kærleika, sáttagjörð og virðingu fyrir sköpunarverkinu. Og hvar er betra að ræða slík mál en einmitt á þessum stað sem geymir þessa blóðugu sögu sem hvíslar til okkar í andvaranum hér í dag? Því að saga Skálholts er saga samfélagsins alls, allt sem gerst hefur í sögu okkar allra hefur líka gerst hér.“

Síðan vék forsætisráðherrann að kórónuveirunni sem hefur truflað samfélagið svo ekki sé meira sagt. Í því sambandi gat hún um Þorlák biskup og sagði:

„Það er okkur erfitt að geta ekki leyst veirumálið með einföldum hætti – að það sé enn hvorki komið bóluefni eða lyf. Margir ætlast til að vísindin leysi allt þegar, eins og heilagur Þorlákur gat stundum gert samkvæmt jarteinasögum um hann. Sex mánuðir eru stuttur tími í stóra samhengi hlutanna en eigi að síður hefur okkur liðið eins og þessi tími – covid-tíminn – hafi verið endalaus.“

Katrín sagði að Íslendingum hefði tekist að ná fram sóttvarnarmarkmiðum sem flestar þjóðir öfunda okkur af. Skerðing á frelsi og réttindum hefði verið minna en víðast hvar annars staðar í heiminum þar sem útgöngubann var í gildi mánuðum saman. Þessi tími hefði minnt á mikilvægi heilsunnar og jafnan aðgang að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu – og faraldrinum væri ekki lokið og veirur gætu komið aftur fram. En þessi tími hefði líka minnt á:

„... mikilvægi umhyggjunnar, mikilvægi þess að við hugsum hvert um annað og sýnum hvert öðru umhyggju, ekki aðeins þegar heimsfaraldur geisar heldur alla daga. ....að líf og heilsa er það mikilvægasta sem við eigum – og að maður er manns gaman, það er okkur erfitt að mega ekki umgangast þá sem okkur standa næst.“

Katrín vísaði til guðfræðilegra hugtaka á borð við sáttargjörð, frið og kærleika, þegar hún vék að persónulegum málum, tæknimálum og umhverfismálum, í ræðu sinni. Í þeim öllum tækjust á skammtímasjónarmið og langtímasjónarmið.

Hún sagði:

„Það virðist stundum góð lausn ýmsum vanda að kaupa sér stundargleði og staldra aldrei við. Við krefjumst snöggra lausna á öllum okkar vanda og vonbrigðin eru mikil þegar svarið kemur ekki strax. Sjálf lenti ég í því óláni að meiða mig á dögunum. Ekki uppgötvaðist strax hvað hrjáði mig en mikil voru vonbrigði mín þegar mér var tjáð að ekkert væri í stöðunni annað en að hvíla mig og bíða róleg eftir að beinið greri. Ég tjáði lækninum að ýmislegt annað hefði staðið til á þessum tíma og hvort ekki væri til einhver skyndilausn. Svarið var nei og ég neyddist því til að fara í annað sumarfrí en ég ætlaði. Skemmst er þó frá því að segja að enginn í fjölskyldunni kvartaði undan þessum rólegheitum. Getum við dregið lærdóm af líkama okkar og horft til annarra áskorana með sama hugarfari?“

Mannkynið stæði frammi fyrir loftlagsvá og henni tengdist tæknibyltingin. En velsæld og jöfnuður væru grunngildi sem allt byggðist á.

Katrín sagði tæknina vera góðan þjón en afleitan húsbónda. Mikilvægt væri að taka völdin af tækninni. Menntun, fræðsla og rannnsóknir, væru liðir í því. Þá ætti að ræða þau siðferðilegu gildi sem fók vildi hafa að leiðarljósi á tækniöld. Hún spurði til dæmis hvaða stefnu við ætluðum að marka okkur í sambandi við lækningar með gervigreind: „Eða umhyggju með aðstoð vélmenna – segjum á hjúkrunarheimilum? Þarna blasa stórar spurningar við okkur.“

Í lokin sagði forsætisráðherra að íslensk stjórnvöld hefðu nýlega kynnt uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Íslandi myndi takast að standa við Parísarsamkomulagið og meir en það:

„Sömuleiðis munum við ná markmiðum okkar um að kolefnishlutlaust samfélag eigi síðar en 2040. Þar veit ég að kirkjan er að leggja sitt af mörkum með því að gróðursetja skírnarskóga.“

Þá gat Katrín um verkefni sem hún taldi vera spennandi en það snýst um:

„alþjóðlegt samstarf kirkjudeilda gegn loftslagsvánni – samstarf sem byggist á virðingu fyrir sköpunarverkinu sem við sjáum að hefur látið á sjá vegna taumlausrar nýtingar á náttúrunni sem mun hafa hrikalegar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar og mannkynið ef ekki verður tekið í tauma og nýjar brautir fetaðar, brautir þar sem við hugum að jafnvægi umhverfis, samfélags og efnahags og byggjum sjálfbært samfélag. Og þar skiptir máli að við stefnum um leið að jöfnuði, að við tryggjum velsæld og lífsgæði allra og tryggjum þannig frið og sátt – fyrir okkur öll.“

Í lok ræðu sinnar minnti hún á að auðveldara gæti verið að glutra niður friði og sátt en að byggja hvort tveggja upp:

„Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að jöfnuður og réttlæti séu leiðarljós okkar í öllum okkar verkum, ekki síst þegar við tökumst á við stórar áskoranir.“

Alla ræðu Katrínar Jakobsdóttur má sjá á vef forsætisráðuneytisins á næstu dögum.

„Stóru verkefnin sem blasa við okkur í samtímanum eru einmitt verkefni sem kalla á kærleika, sáttagjörð og virðingu fyrir sköpunarverkinu.“ - sagði forsætisráðherra í hátíðarræðu sinni í Skálholti í dag.

hsh


  • Fundur

  • Leikmenn

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Sr. Guðmundur og sr. Guðrún.jpg - mynd

Fyrri umferð biskupskosninga lokið

16. apr. 2024
...kosið verður á milli sr. Guðmundar Karls og sr. Guðrúnar
Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi