Stutta viðtalið: Fermingarbörn og Vídalín

4. september 2020

Stutta viðtalið: Fermingarbörn og Vídalín

Matthildur Bjarnadóttir - mynd: hsh

Það liggur nokkuð í augum uppi að fermingarbörn í Garðaprestakalli ættu að vita betur af meistara Jóni Vídalín en önnur fermingarbörn á landinu.

Eða hvað?

Hann var jú þeirra maður. Fæddur á Görðum á Álftanesi 1666. Og Vídalínskirkja – þurfum við að segja meira?

Æskulýðsfulltrúi í Vídalínskirkju er Matthildur Bjarnadóttir, guðfræðingur.

Hún hefur tekið saman efni um séra Jón Vídalín og það er ætlað fermingarbörnum. Öllum fermingarbörnum hvort sem þau búa í Garðabæ eða Raufarhöfn.

Kirkjan.is ræddi stuttlega við hana.

Matthildur er rösk ung kona og tvínónar ekki við hlutina. Skýr og skipulögð. Hress í viðmóti og þægileg.

„Þar er margt sem gert er á Vídalínsári,“ segir Matthildur, „það er ekki bara nauðsynlegt að segja hinum fullorðnu frá ævi Vídalíns og störfum, heldur líka unga fólkinu.“

En hvers vegna á að muna eftir sautjándu og átjándu aldar manninum Jóni Vídalín?

Matthildur segir að hann geti verið fyrirmynd úr sögunni og slíkt sé gott að eiga – sérstaklega fyrir ungt fólk:

„Hann missir föður sinn ellefu ára gamall,“ segir Matthildur, „og með því verða mikil tímamót í lífi Jóns eins og gefur að skilja.“

En Jón Vídalín var vel gefinn drengur og það sáu menn fljótt. Hann var umkringdur menntafólki síns tíma – vel ættuðu fólki eins og sagt var. Skólaganga beið hans þó svo hún væri ekki sjálfsögð vegna krappra kjara hans um tíma – meðfram henni reri hann alla vega tvær vertíðir í Vestmannaeyjum og sigldi svo 1687 til náms í Kaupmannahöfn. Kom heim eftir námið og varð prestur á Görðum á Álftanesi og síðar biskup í Skálholti til dauðadags, 30. ágúst 1720.

„Aungvann nauðstaddan... “
Matthildur segir að forréttindablinda hafi ekki háð honum (en slík blinda var til þá sem nú) vegna þess að hann hafði kynnst aðstæðum almúgafólks: „Aungvann nauðstaddan, sem til hans leitaði, lét hann synjandi frá sér fara...“ var sagt um hann látinn. Matthildur telur að það hafi mótað hann og valdið því að hann talaði með öðrum hætti en fólk í hans stöðu gerði. Það kemur fram í prédikunum hans. Eins og önnur lífsreynsla hans. Þau hjónin, Jón og Sigríður Jónsdóttir, eignuðust tvö börn sem dóu ung. Sigríður stýrði búi í Skálholti og kenndi meðal annars skólasveinum undirstöðuatriði í latínu.

Efnið sem Matthildur tók saman er á glærum sem lagðar eru í hendur þess sem ætlar að segja frá Jóni Vídalín. Þetta eru fallegar glærur með stuttum texta. Viðkomandi getur bætt við hann eftir því sem hann eða hún vill hverju sinni. Glærurnar ná til einnar kennslustundar. Matthildur segir að það megi hugsa sér þær sem kveikjur – það er þær kveikja upp forvitni bæði hjá börnum og fullorðnum – að lesa og fræðast meira um meistara Jón Vídalín.

Spennandi tími
Hún segist reyna að draga fram spennandi mynd af tíma Jóns í glærunum til að ná til fermingarbarnanna. Þessi tími Íslandssögunnar geymir eitt og annað sem getur vakið áhuga þeirra. Galdra og brennur. Jarðskjálfta. Hallæri, drepsóttir, kórónuveiru þess tíma. Jón fór í herinn – sumir eru spenntir fyrir því og sérstaklega þegar þeir sjá tindáta yfirbragðið á hermönnum þess tíma á mynd. Hann lenti sem betur fer aldrei í orrustu – það hefði verið tjón fyrir íslenska kirkju og menningu hefði hann fallið í stríði – þá hefði þetta stutta viðtal ekki heldur verið tekið. Móðir hans óskaði eftir lausn hans úr hernum – þökk sé líka henni.

Það er viðtekin skoðun að hann hafi haft gríðarleg áhrif á samtíma sinn og postilla hans (prédikanir) voru lesnar á mörgum íslenskum heimilum í tvö hundruð ár – hún kom fyrst út 1718-1720. Síðast kom Vídalínspostilla út 1995.

Fermingarfræðsluefni um meistara Jón Vídalín er kærkomin viðbót við fermingarefni sem nú þegar er fyrir hendi. Efnið stendur öllum til boða. Og vonandi kveikir það í sem flestum – bæði fermingarbörnum og fræðurum þeirra.

hsh


  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut