Vísitasía: Biskup í Vatnaskógi

10. september 2020

Vísitasía: Biskup í Vatnaskógi

Gamli skáli í Vatnaskógi - reistur 1943 - málverk frá 1949

Ætíð er það svo að eftir hlé heldur dagskráin áfram. Hlé eru mislöng eins og allir vita en þegar því er lokið svífur eftirvænting og gleði aftur yfir vötnum. Eftir hlé heldur nefnilega allt áfram.

Hlé var gert á vísitasíu biskups Íslands, sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, um Vesturlandsprófastsdæmi, í marsmánuði vegna kórónuveirufaraldursins.

Segja má að hléinu hafi lokið í fyrradag, síðdegis þriðjudaginn 8. september, þegar sr. Agnes heimsótti fermingarbörn í Vatnaskógi. Já, vísitasían hélt áfram, og það átti svo sannarlega við kjörorð þeirra Vatnaskógarmanna: Áfram að markinu!

Það var myndarlegur og hressilegur hópur fermingarbarna úr Garða- og Saurbæjarprestakalli sem naut fræðslu í skóginum og með þeim voru prestar þeirra: séra Þráinn Haraldsson, séra Jónína Ólafsdóttir og séra Þóra Björg Sigurðardóttir. Jafnframt önnuðust leiðtogar Skógarmanna, hina fjölbreyttu dagskrá, söng og skemmtun.

Biskup ávarpaði hópinn í matsalnum og leit við á fjöruga kvöldvöku fermingarbarnanna, sem var í umsjá Skógarmanna.

Síðan fundaði biskup með Ólafi Sverrissyni, formanni stjórnar Vatnaskógar, séra Sigurði Grétari Sigurðssyni, varaformanni og Ársæli Aðalbergssyni, framkvæmdastjóra. Þeir sýndu biskupi aðstöðuna og þær framkvæmdir sem standa yfir og þær áætlanir og hugmyndir sem til umræðu eru varðandi uppbyggingu staðarins á næstu árum.

Sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari, var í för með biskupi.

Vatnaskógur er einstakur staður, vettvangur fræðslu og gleði, vináttu og samfélags. Aðstaða þar til sumarbúðarstarfs er á heimsmælikvarða og hefur verið byggð upp jafnt og þétt svo áratugum skiptir. Sumarbúðastarf hófst í Vatnaskógi 1923 og er því skammt í 100 ára afmælið. Skógarmenn eru þegar farnir að huga að þeim miklu tímamótum.

KFUM og KFUK hafa umfangsmikinn rekstur á sínum höndum. Sumarbúðir eru reknar á fimm stöðum á landinu og þær elstu og stærstu eru í Vatnaskógi við Eyrarvatn í Svínadal. Barna- og unglingastarf fer fram hátt í þrjátíu deildum víðs vegar um landið. Þá er margvíslegt fullorðinsstarf í boði. Kristilegur leikskóli er einnig rekinn, heitir hann Vinagarður, og er í Laugardalnum í Reykjavík.

Óhætt er að segja að KFUM og K séu með sterkustu bakhjörlum þjóðkirkjunnar.

„KFUM og KFUK er frjáls félagasamtök sem standa á sama grunni og evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi. Þau vilja starfa innan kirkjunnar og með kirkjunni, en eru þó sjálfstæð og lúta eigin stjórn. Með starfi sínu vilja þau vera þátttakendur í skírnarfræðslu kirkjunnar og styðja foreldra í trúarlegri mótun barna sinna.“

Stofnandi KFUM var sr. Friðrik Friðriksson (1868-1961).

Heimasíða KFUM og K

Vatnaskógur - Skógarmenn

þv/hsh


Í kapellunni í Vatnaskógi: Frá vinstri: sr. Þóra Björg, Ársæll, sr. Agnes,
Ólafur, sr. Jónína, sr. Sigurður Grétar og sr. Þráinn - mynd: þv


Lindarrjóður - sér í kapelluna sem vígð var 1949 - mynd: þv


Herbergi í Gamla eru merkt með fallegum hætti - þetta merki gerði
sr. Guðmundur Karl Brynjarsson - mynd: hsh


Mynd af sr. Friðriki í Gamla skála í Vatnaskógi - mynd: hsh

 


  • Biskup

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Bústaðakirkju

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall