Kirkjuþing 2020 sett

12. september 2020

Kirkjuþing 2020 sett

Frá setningu kirkjuþings í morgun

Kirkjuþing 2020 var sett í morgun kl. 10.00.

Setningin hófst á bæn sem biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, leiddi og bænir lásu nokkrir kirkjuþingsmenn.

Síðan steig fram á svið kór sem settur var saman úr Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju og Gradualkór Langholtskirkju. Stjórnendur voru Helga Loftsdóttir og Sunna Karen Einarsdóttir en við píanóið var Guðmundur Sigurðsson, organisti í Hafnarfjarðarkirkju. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, hélt utan um tónlistarflutning.

Þessu næst setti Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, kirkjuþing 2020 með ræðu og minntist tveggja látinna fyrrum kirkjuþingsmanna, þeirra Ásbjarnar Jónssonar, og Helga K. Hjálmssonar.

Þingheimur stóð upp og vottaði þeim virðingu og þökk.

Drífa Hjartardóttir tók svo til máls. Sagði þingið vera haldið á fordæmalausum tíma. Það hefði verið frábært að sjá hvernig kirkjan hefði nýtt tæknina til að koma til móts við nýjar aðstæður. Fundir nefnda kirkjuþings hafa verið haldnir á netinu og sú fundaleið er komin til að vera að einhverju leyti en mun þó ekki leysa fundi af hólmi þar sem fólk hittist augliti til auglitis. Framhaldsþingi kirkjuþingi 2019 var frestað í tvígang. Viðbótarsamningur við ríkið hefur breytt miklu. Framtíðarnefnd hefur starfa af miklum krafti og þakkaði forseti störf hennar. Forseti minnti á að kirkjuþingið hefði æðsta vald innan kirkjunnar innan lögmæltra marka og væri ábyrgð kirkjuþingsmanna mikil.

Hjálparstarf kirkjunnar mun kynna störf sín á þessu þingi. Þá gat hún þess að Hjálparstarfinu hafi verið falið að sjá um tilvonandi dagsetur fyrir heimilislausar konur sem mun verða til húsa í Grensáskirkju í því húsnæði sem Tónskóli þjóðkirkjunnar hafði.

Liggja fyrir þinginu 34 mál og þar á meðal fjárlög þjóðkirkjunnar. Fjármálin eru nú alfarið á hendi þjóðkirkjunnar.

Drífa gat um að frumvarp um þjóðkirkjuna yrði lagt fram, rammalöggjöf. Ákvarðanavald um skipan kirkjunnar er fært til kirkjuþings. Fór hún yfir frumvarpið í stuttu máli.

Síðan ávarpaði biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, kirkjuþingið. Þakkaði hún söngfólki fyrir fallegan söng.

Síðan vék hún að ýmsum málum sem liggja fyrir kirkjuþingi og öðru sem borið hefur við í samfélaginu.

Kristur er kjarni kirkjunnar sem allt snýst um, sagði biskup. Kristin kirkja lætur sig þjóðfélagsmál skipta. Allir sem vilja við Krist kannast eru kallað til þjónustu. Þess vegna fjallar kirkjuþing meðal annars um mál flóttamanna og umhverfismál.

Biskup lýsti því yfir að landið ætti að vera ein kjördeild hvað kosningu til kirkjuþings snertir.

Hlutverk kirkjuþings væri að setja rammann um hina sýnilegu kirkju. Fleiri málaflokkar bætast við kirkjuþingið, fjármálin, og fjármál endurspegla starfið og meðferð þeirra markar stefnu.

Ræddi hún síðan um Hjálparstarf kirkjunnar og minnti á kjörorð þess: Enginn getur hjálpað öllum en allir geta hjálpað einherjum

Þá vék biskup að fyrirhuguðu dagsetri sem stefnt er að opna í haust. Það er ætlað heimilislausum konum á þeim tíma er Konukot er lokað. Biskup átti hugmynd að dagsetrinu og er mjög umhugað um málið.

Síðan gat biskup um að að mörg væru meinin í íslensku samfélagi og tiltók sérstaklega stöðu drengja og vitnaði í því sambandi til Hermundar Sigmundssonar, prófessors í lífeðlis­legri sál­fræði. 

Sr. Agnes sagði frá nýlegri og ánægjulegri heimsókn sinni í Vatnaskóg í sambandi við vísitasíu sína í Vesturlandsprófastsdæmi sem nú er fram haldið. Kórónuveirufaraldurinn raskaði dagskrá hennar. Barna og æskulýðsstarf kirkjunnar og fermingarstarfið er sem fyrr mikilvægt og endurspeglar líf í trú og trú í lífi.

Þá fór biskup nokkrum orðum um „Jesúmyndina“ sem hefur verið mjög til umræðu á undanförnum dögum. Harmaði hún að myndin hafi valdið sársauka. Það hafi ekki verið ætlunin né vilji að særa fólk og þarna hafi frekar ráðið kapp en forsjá. Mikilvægt sé fyrir starfsfólk biskupsstofu að læra af viðbrögðum umhverfisins.

Í lokin vék biskup að umhverfismálum. Minnti á ráðstefnu sem haldin verður í Skálholti í október. Tímabil sköpunarinnar væri hafið, september væri grænn og verkefninu Skírnarskógar hafi verið hrundið af stað fyrir nokkru í Skálholti með sérstakri athöfn.

Að ávarpi biskups loknu var fyrsti fundur kirkjuþings settur.

Biskup, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, flutti skýrslu kirkjuráðs.

Málaskrá.

Streymt frá kirkjuþingi.

hsh


Frá setningu kirkjuþings


Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, setti 60. kirkjuþing í morgun


Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, ávarpaði kirkjuþingið og flutti síðan skýrslu kirkjuráðs


Félagar úr Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju og Gradualkór Langholtskirkju sungu fyrir kirkjuþingsfólk - Sunna Karen Einarsdóttir við stjórn 

 

 

 

 


  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þing

  • Viðburður

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju