Nýr einkennisklæðnaður

18. september 2020

Nýr einkennisklæðnaður

Nýr einkennisklæðnaður kvenbiskupa

Prestar og biskupar klæðast oft einkennisbúningum – það er embættisklæðnaður. Allir þekkja hempuna og pípukragann. Og prestaskyrtuna. Eins og annar slíkur klæðnaður segir hann til um starf og stöðu viðkomandi.

Við setningu kirkjuþings í síðustu viku voru þær sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, klæddar samskonar yfirhöfn. Svörtum kjól með hvítri mjórri rönd við hneppta eða rennda líningu frá hálsi og breikkandi niður að hné.

Þessi klæðnaður er kominn frá Finnlandi. Hann var hannaður af af finnska hönnuðinum, Kirsimari Kärkkäinen, árið 2008, fyrir kvenpresta í Finnlandi. Einkennisklæðnaður finnskra kvenpresta var talinn vera orðinn gamaldags og ekki hentugur - var hannaður um 1980. 

Finnski hönnuðuðurinn, Kirsimari, kallar þennan klæðnað Ljósgeislann. Fyrir ofan mjósta enda ljósrandarinnar bera finnskir kvenprestar kross og kallar hönnuðurinn hann Uppsrettu ljóssins. Hönnuðurinn segir að augljóst sé að starf kirkjunnar og þjóna hennar sé að miðla gleði og ljósi inn í líf fólks og þess vegna sé þessi hvíta rönd á líningunni vel við hæfi. Hvíta röndin væri sem ljósgeislinn.

Prestakjóllinn með hvítu röndinni er hátíðarbúningur finnskra kvenpresta og þá er krossinn við enda ljósrandarinnar (nálægt háslmáli) hluti af honum. Hversdagsbúningur kvenprestanna er sams konar kjóll en allur svartur (engin ljósrönd á líningunni). Finnskir kvenprestar klæðast þessum búningi ýmist, mittissíðum eða hnjásíðum og þá er klæðst svörtum buxum í stíl, nú eða skósíðum. Prestaskyrtan er annað hvort höfð svört eða hvít með búningnum. 

Segja má að þær sr. Agnes og sr. Solveig Lára hafi kynnt þennan klæðnað sem mögulegan einkennisklæðnað íslenskra kvenbiskupa.

Spennandi þróun
Telja má að þetta séu söguleg tímamót í þróun embættisklæða innan íslensku þjóðkirkjunnar.

Þó skal það rifjað upp að sr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, íklæddist iðulega sænskri hempu eða prestakjól (á sænsku: kaftan) og sömuleiðis eftirmaður hans, sr. Pétur Sigurgeirsson, þó í minna mæli en forveri hans. Í ævisögu sr. Sigurbjörns sést hann iðulega í hinni sænsku hempu (prestakjól) við ýmis tækifæri. (Sigurður A. Magnússon: Sigurbjörn biskup - ævi og starf, Reykjavík 1988).

Þessu skylt: Prestaskyrtur með hringflibba og hempur

Margir prestar ganga hversdagslega í prestaskyrtum með hringflibba þegar þeir eru að störfum – það er hluti af einkennisklæðnaði þeirra. Eins og annar slíkur klæðnaður segir hann til um starf og stöðu viðkomandi. Prestar eru í einkennisklæðnaði þegar þeir eru í starfserindum (áður embættiserindum!) eða á kirkjulegum vettvangi. Sama á við um biskupa en skyrta þeirra er fjólublá eða purpurarauð – og svo bera þeir myndarlegan gullkross í vænri keðju um hálsinn ögn niður fyrir bringubein. Djáknar eru í grænni skyrtu. Skyrtur presta eru hvítar, svartar, gráar og bláar. Með prestaskyrtunni er ýmist notaður stakur jakki eða jakkaföt, blússa, dragt, peysa, vesti o.s.frv. Karlar og konur hafa sinn hátt á því hverju klæðst er yfir skyrtuna.

Allir þekkja hempuna svörtu en hún er samkvæmt innri samþykktum þjóðkirkjunnar embættisklæðnaður (einkennisflík) presta ásamt pípukraga. Hið sama á við um biskupa nema hempa þeirra er úr svörtu silki og með flauelsborðum. Hempurnar eru notaðar við ýmsar athafnir eins og skírn og jarðarfarir og þá með rykkilíni og stólu – þó ekki alltaf. Hún er ekki hversdagsleg ígangsflík.

Þessum klæðnaði má svo ekki rugla saman við skrúða sem notaður er við helgar athafnir en til hans teljast rykkilín, alba, stóla, hökull og biskupskápa. Skrúði er aðeins notaður í helgihaldi. Skrúði á að minna prestinn á að hann kemur ekki fram í eigin nafni heldur í nafni Krists. 

hsh


Finnskur kvenprestur í hátíðarbúningi, takið eftir krossinum við efstu brún


Kirsimari, hönnuður, höfundur einkennisklæðanna, hér mælir hún mittisjakka 


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Biskup

Þegar barn er skírt er nafn þess gjarnan nefnt upphátt í fyrsta sinn - en skírn er þó ekki nafngjöf - skírnarfontur í Grindavíkurkirkju eftir Ásmund Sveinsson, Guðsteinn Eyjólfsson frá Krosshúsum gaf

Vinsælustu nöfnin 2020

21. jan. 2021
...hvar eru Jón og Guðrún?
Frá Indlandi - kristið fólk er ofsótt þar - skjáskot: Kristeligt Dagblad

Ofsóknir hafa aukist

20. jan. 2021
...kórónuveiran skálkaskjól
Kirkja í Færeyjum - Saksun - vígð 1858

Kórónuveiran í Færeyjum

19. jan. 2021
...rætt við Færeyjabiskup