Vídalín á Rás 1

27. september 2020

Vídalín á Rás 1

Vídalínskirkja í loftinu kl. 11.00 á Rás 1

Árið 2006 var frumflutt Vídalínsmessa eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Messuna samdi hún sérstaklega fyrir Garðasókn. Það var Jóhann Baldursson, organisti við Vídalínskirkju, sem átti hugmyndina en hann nefndi það við tónskáldið, Hildigunni, hvort hún gæti ekki skellt í eina messu og styðjast við postillutexta meistara Vídalíns (1666-1720). Það gerði hún með þeim hætti að nota texta hinnar klassísku latnesku messu en á milli messuliða syngja einsöngvarar tónsettan texta úr Vídalínspostillunni og kemur það út eins og meistari Vídalín sjálfur hefji upp raust sína í messunni – það er mjög áhrifaríkt.

Nú verður Vídalínsmessan flutt í Vídalínskirkju í dag kl. 11.00 og verður messunni útvarpað. Í fyrra ákvað söngflokkurinn Hljómeyki að taka messuna til flutnings og fara með hana í reisu til útlanda á tónlistarhátíð 2020 og að því tilefni þótti tilvalið að staldra við í Vídalínskirkju og flytja verkið í tilefni þess að 300 ár eru frá því að meistari Vídalín andaðist í Biskupsbrekku, sumsé 30. ágúst 1720.

Með Hljómeyki í för eru einsöngvararnir Freyja Jónsdóttir og Þorbjörn Rúnarsson og hljómsveit. Stjórnandi tónlistar er Hreiðar Ingi Þorsteinsson en presturinn í messunni er sóknarpresturinn, sr. Jóna Hrönn Bolladóttir.

Hefðbundnir liðir hinnar latnesku messu eru: Miskunnarbæn (lat. kyrie), Dýrðarsöngur (lat. gloria), Heilagur (lat. sanctus) og Guðs lamb (lat. agneus dei).

Haft hefur verið eftir tónskáldinu að messan sé nýklassísk og hlustendavæn.

Á Facebókarsíðu sinni segir Hildigunnur svo í gær
„Nú þori ég loksins í alvöru að hlakka til - og plögga! Ekki koma á staðinn, það verður ekkert svakalegt pláss í kirkjunni enda leggja kór, hljómsveit, einsöngvar og stjórnandi ýkjulaust hálfa kirkjuna undir sig! En þetta verður í útvarpinu klukkan ellefu. Þorbjörn Tobbitenór Rúnarsson og Freyja Jónsdóttir syngja sóló, Hreiðar Ingi Þorsteinsson er svo búinn að vinna verkið mitt á frábæran hátt og stjórnar með glæsibrag. Geggjuð hljómsveit sem Hildigunnur Halldorsdottir leiðir! Kveikið endilega á Rás 1 klukkan ellefu, þetta verður ekki neitt venjuleg messa!“

Nú er tími kórónuveirunnar eins og sést þegar tónskáldið biður fólk um að koma ekki á staðinn! En þess heldur að nota tækifærið og hlusta á messuna í öruggu rými heima hjá sér, Rás eitt kl. 11.00!

Missið ekki af þessari kirkju-og menningarstund.

hsh
  • Guðfræði

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

Á svölum vetrardögum er gott að orna sér við tónlistina

„...gefandi og uppbyggjandi...“

26. jan. 2021
Kraftmikið námskeið í boði
Bessastaðakirkja á fallegum degi

Elvis í Bessastaðakirkju

25. jan. 2021
...góð stund
Skírnarskál Digraneskirkju - myndbrot

Kynning á störfum

24. jan. 2021
...ný tækifæri