Græna stúdíóið og vatnið

29. september 2020

Græna stúdíóið og vatnið

Græna stúdíóið - frá vinstri: Bjarni Gíslason, Einar Karl Haraldsson, dr. Sigurður Árni Þórðarson, og sr. Elínborg Sturludóttir

Enn heldur Græna stúdíóið áfram siglingu sinni. Að þessu sinni eru það þau Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, séra Elínborg Sturludóttir, Dómkirkjuprestur og dr. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, sem sitja við borðið ásamt stjórnandanum, Einari Karli Haraldssyni.

Umræðuefnið er vatn, og áherslur á umhverfismálum á grænum dögum í kirkjunni á tímabili sköpunarverksins. Ekkert yfirlit er til um starf kirkjunnar í þessum málaflokki en hins vegar víkja margir prestar að þessum málum í prédikunum sínum og sums staðar eru haldnar uppskerumessur.

Græna stúdíóið tekur fyrir vatnið sem enginn skortur er af á Íslandi.

Í Hallgrímskirkju hefur verið blásið til funda í hádeginu á þriðjudögum um vatnið og þar er dr. Sigurður Árni í forystu. Hann telur að þetta sé í fyrsta skipti sem nokkur kirkja á Íslandi efni til vatnsfræðslu af þessu tagi. Hann bendir á að eftir því sem umhverfisvandinn knýi fastar á dyr þá komi enn betur í ljós mikilvægi vatnsins. Erfitt sé fyrir okkur sem búum við vatnslúxus að átta okkur á aðstæðum þar sem vatnsskortur er ríkjandi. Dr. Sigurður Árni kallar 21. öldina tuttugustuogþyrstu öldina. Hann segir Íslendinga vera vörslumenn vatnsins fyrir hönd heimsbyggðarinnar.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, segir að samkvæmt tölum frá Orkuveitunni noti hver maður á Íslandi 140-400 lítra af vatni á sólarhring. Á starfssvæðum Hjálparstarfsins hafi fólk aðgang að örfáum lítrum á sólarhring. Þá segir hann frá verkefnum Hjálparstarfsins í Sómalíufylki í austurhluta Eþíópíu. Það er þurrt svæði og hefur ekki rignt þar í mörg ár. Þar eru grafnir brunnar, leitað vatns með aðstoð heimamanna og starfsfólks Lútherska heimssambandsins.

Fram kemur að það er hlutverk kvenna á þessum stöðum að sækja vatn. Vatnsburður getur tekið þrjár til sex klukkustundir á dag. Ef vatnsbrunnar eru færðir nær fólkinu gefst konum fremur tækifæri til að mennta sig. Nálægt við neysluvatn valdeflir konur. „Vatn er ekki bara vatn, vatn er menntun handa stúlkum...“ segir Bjarni.

Sr. Elínborg ræðir um líf pílagrímsins og það sem táknræna tjáningu á umhverfisvitund. Lífsstíll pílagrímsins sé hófstilltur, hann leggi sig fram um að lifa í takt við náttúruna – hugar að umhverfismálum og leggur af mörkum til þeirra. Vatnið er þar ofarlega á blaði. Pílagrímurinn átti sig á mikilvægi náttúrunnar og nauðsyn þess að ganga af virðingu og umhyggju um hana. Trúarlífið er og nátengt náttúruupplifun pílagrímsins.

Margt fleira forvitnilegt ber á góma í þessum áhugaverða þætti Græna stúdíósins.

Lífsréttur
Í lokin ræða þátttakendur um þá mikilvægu spurningu hver eigi vatnið í heiminum. Þau eru sammála um að vatnið sé samfélagsleg eign og um það þurfi að standa vörð. Vatnið er í eigu lífsins, það er lífsréttur að eiga aðgang að vatni. Eflaust verði deilt hart um eignarréttinn á vatninu í veröldinni og alþjóðasamfélagið standi frammi fyrir því mikla verkefni að koma sér saman um hvernig mannkynið deilir þessari sameiginlegu auðlind.

Meginniðurstaða þáttarins: Það þarf að skapa nýjan rétt, lífsrétt, til þess að ná yfir þá nauðsyn að lífið á jörðinni eigi vatnið.

Hér má hlusta á fyrri þætti: 

Fyrsti þáttur: Viðmælendur Einars Karls Haraldssonar eru þau sr. Axel Árnason Njarðvík, sr. Hallór Reynisson og sr. Hildur Björk Hörpudóttir.

Annar þáttur: Viðmælendur Einars Karls Haraldssonar eru þau sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og dr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands

Þriðji þáttur: Viðmælendur Einars Karls Haraldssonar eru þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Páll Ásgeir Davíðsson, verkefnisstjóri Skálholts 2.

Dagskrá: Faith for Earth – Multi-Faith Action (Fjöltrúarlegar aðgerðir í þágu jarðar) sem haldin verður í Skálholti dagana 5. – 8. október næstkomandi.

hsh

 

  • Menning

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Umhverfismál og kirkja

  • Viðburður

  • Frétt

Matur.jpg - mynd

Hjálpumst að heima og heiman

04. des. 2024
...árleg jólasöfnun Hjálparstarfsins
HAìDEGISTOìNLEIKAR copy.png - mynd

Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?

03. des. 2024
...hádegistónleikar í Hallgrímskirkju
Prestur og biskup Íslands

Gamalli hefð haldið við

02. des. 2024
...messa í Háskólakapellunni á fullveldisdaginn