Tvær flugur í einu höggi

8. október 2020

Tvær flugur í einu höggi

Þorkell Máni Þorkelsson, organisti og upptökumaður, og Linda María Nielsen, kórstjóri. Mynd: sr. Aðalsteinn Þorvaldsson

Organistinn við Grundarfjarðarkirkju er ekki bara organisti. Hann starfar líka sem hljóð- og myndupptökumaður.

Það er hann Þorkell Máni Þorkelsson. Hann er borinn og barnfæddur Grundfirðingur og kom til starfa hjá kirkjunni í fyrra. Margreyndur í tónlistarbransanum, verið í hljómsveitinni Draugabanar sem spilaði út um allar trissur. Lærði upptökur í Stúdíó Sýrlandi.

Þess vegna var meira en gráupplagt að organistinn skellti sér í hlutverk hljóð- og myndupptökumannsins og tæki upp nokkrar helgistundir þar sem allt opið helgihald liggur niðri nú í október.

Ekki mega kirkjukórar né aðrir kórar heldur koma saman í október. Kórstjóri kirkjukórsins í Grundarfirði skellti sér þá bara í hlutverk kórsins og syngur í helgistundunum. Hún heitir Linda María Nielsen.

Og presturinn, sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, var náttúrlega á sínum stað. Skaust úr hlutverki prestsins og í hlutverk ljósmyndarans en myndina með fréttinni tók hann. 

Úti á landsbyggðinni er fólk alvant að bregða sér í ýmis hlutverk og slá margar flugur í einu höggi. 

Helgistundirnar eru því pottþéttar.

Hægt verður að horfa á helgistundir í októbermánuði á Facebókarsíðu Grundarfjarðarkirkju. Sú fyrsta 11. október.

Svo hefjast í næstu viku upptökur hjá þeim Grundfirðingum á Bleiku messunni sem verður flutt 18. október. Stór hópur mun taka þátt í henni.

Grundfirðingar láta ekki slá sig út af laginu enda vel mannaðir á þessari vertíð sem öðrum!

hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Covid-19

logo.png - mynd

Síðari umferð kosningar biskups Íslands

25. apr. 2024
...hefst 2. maí næstkomandi.
Ólafur Egilsson

Vinir Hjálparstarfsins fræðast um starfið

24. apr. 2024
...stilla saman strengi
Söngvahátíð 7.jpg - mynd

Söngvahátíð barnanna á Akureyri og í Reykjavík

23. apr. 2024
...börnin syngja í útvarpsmessu á sumardaginn fyrsta