Fjölhæfir prestar

17. október 2020

Fjölhæfir prestar

Sr. Jónína Ólafsdóttir og Sveinn Arnar Sæmundsson, organistiÁ kórónutíð verður fólk að vera tilbúið til að fara í alls konar hlutverk.

Kórsöngur er ekki leyfilegur að sinni vegna smithættu.

Hvað er þá til ráða í kirkjunni þar sem tónlist og söngur skipa alltaf veglegan sess?

Sveinn Arnar Sæmundsson, organisti á Akranesi, er hugmyndaríkur maður og öflugur í kirkjustarfinu. Hann er líka heppinn með hæfileikaríkt samstarfsfólk.

Þegar hefðbundið guðsþjónustuhald liggur niðri hafa fjölmargar kirkjur streymt helgistundum.

Þau á Akranesi eru í þeim hópi.

Organistinn sagði einfaldlega að prestarnir skyldu syngja. Hann væri tilbúinn til að leika undir.

Sr. Þráinn Haraldsson reið á vaðið fyrir viku. Enda er hann menntaður í söng - með 6. stig í einsöng. Hann fór létt með þetta.

Nú er komið að sr. Jónínu Ólafsdóttur að hefja upp raust sína í mörgu tilliti. Syngja og prédika. Á morgun liggur leiðin á Facebókar-síðu Akraneskirkju, kl. 11.00.

Í næstu viku er það svo sr. Þóra Björg Sigurðardóttir.

„Þetta er svolítið annað en við erum vön að fást við í okkar starfi, svona að undaskyldu blessuðu tóninu,“ segir sr. Jónína og spennan og tilhlökkunin í röddinni leynir sér ekki ef kirkjan.is er ekki farin að tapa heyrn mjög alvarlega sem grunur leikur reyndar á. „Það er alltaf gaman að fá fjölbreytni í starfið og takast á við nýjar áskoranir,“ segir hún og bætir því við að þau hafi svosem öll komið eitthvað að því að syngja og hafi gaman af tónlist. „Við vonum að það skili sér heim til áhorfandans,“ segir hún, „og að ógleymdu Guðsorðinu sem þetta snýst nú allt um.“

Og hvað á að syngja, spyr kirkjan.is.

„Ég syng einn sálm og eitt dægurlag eftir breska tónlistarmanninn Passenger,“ svarar sr. Jónína og upplýsir spyrjanda um að þau hafi fengið þúsundþjalasmiðinn, sr. Guðmund Karl Brynjarsson í Lindakirkju til að semja íslenskan texta við lagið. Og það gerði hann á einni nóttu enda marghamur maður. „Hann var ekki lengi að því karlinn,“ segir sr. Jónína hlæjandi, „og skilaði því afar vel svo ekki sé meira sagt.“

Nú er bara að smella á Facebókar-síðu þeirra Akurnesinga í fyrramálið kl. 11.00. Njótið.

hsh



  • Frétt

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Covid-19

Frá Presta- og djáknastefnunni 2023 í Grensáskirkju

Presta- og djáknastefnan 2024 sett á morgun

15. apr. 2024
...í Stykkishólmi
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir

Sr. Sigríður skipuð prófastur

15. apr. 2024
...í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
LWF logo.jpg - mynd

Verkefnastjóri á sviði helgihalds

12. apr. 2024
…hjá Lútherska Heimssambandinu