Viðtalið: Rétt kona á réttum stað

20. október 2020

Viðtalið: Rétt kona á réttum stað

Rósa Björg Brynjarsdóttir, nýráðin dagstýra Dagsetursins í Grensáskirkju - Hjálparstarf kirkjunnar rekur það

Dagsetrið í Grensáskirkju hefur verið nokkurn tíma í undirbúningi. Góðir hlutir gerast hægt, er stundum sagt.

Unnið er að endurbótum á húsnæði Dagsetursins og eins og oft vill verða þá skýtur alltaf eitthvað annað upp kolli sem þarf að laga og bæta. Það verður gert. Frægt er að alltaf kemur eitthvað í ljós ef veggur er fjarlægur. Þá verður gætt að öryggis- og heilbrigðisreglum og eins sitthvað smálegt fært í gott horf. Allt unnið með seiglu og alúð.

Dagsetrið er athvarf fyrir konur sem eru heimilislausar og hafa hvergi höfði sínu að að halla yfir hádaginn.

Starfsfólkið er hjarta Dagsetursins og það slær í takt við önnur hjörtu sem ganga þar inn fyrir dyr.

Einn sláttur. Mörg hjörtu. Einn taktur en þó ganga ekki allir alltaf með sínu lagi. En það skiptir ekki máli vegna þess að það er hjarta sem slær. Hjarta í manneskju.

Rósa Björg Brynjarsdóttir hefur verið ráðin til að stýra Dagsetri kirkjunnar í Grensáskirkju.

Hver er hún?

„Ég hef alla tíð búið í Kópavoginum og flutti ásamt börnunum mínum þremur á æskuheimili mitt fyrir fimm árum,“ svarar hún þegar kirkjan.is spyr. Grunnskólagangan var í Kópavoginum sem og framhaldsskólinn. Þegar þeirri hefðbundnu göngu lauk fór hún í Kennaraháskólann og lauk þaðan prófum.

Rósa Björg hellti sér út í kennslu. Fékk starf í Kársnesskóla og var farsæll kennari. Hafði það móttó að forsenda fyrir námi væri vellíðan nemenda í skólanum.

En örlögin höguðu því svo til að kennslunni lauk fyrr en ætlað var. Hún er 27 ára gömul þegar MS-sjúkdómurinn gerir vart við sig hjá henni. Kennari og móðir með tvö börn, fjögurra ára og ársgamalt.

Leiksvið lífsins krefst nýrrar sviðsmyndar. Rósa Björg er raunsæ og kraftmikil. Lætur ekki buga sig.

Og Rósa Björg umvefur fjölskyldu sína ást og umhyggju. Hún eignast annað barn. Fjölskyldan skipar öndvegi.

Þegar tækifæri gefst á hentugum tíma ákveður hún að fara í mannauðsstjórnunarnám í Háskóla Íslands. „Ég tók það á mínum hraða,“ segir hún. Hún segir að áhugi fyrir vellíðan í daglegu lífi og á mennskunni hafi alltaf fylgt henni og verið mikil hjálp. Góðir hlutir gerast hægt.

Rósa Björg var ekki að baki dottin. Hún bætti við sig námi í sálgæslu: „Það hafði afgerandi áhrif á hvar ég er stödd nú,“ segir hún með fullvissu í röddinni.

Sálgæslunámið fór fram innan Endurmenntunar Háskóla Íslands. Hún greip til þess áhugaverða ráðs að flétta saman hugtök úr sálgæslunni við hugtök mannauðsstjórnunar og skoðaði starfsandann innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða vellíðan lögreglumanna í starfi.

Af hverju lögreglunnar? spyr kirkjan.is

„Bróðir minn sem er menntaður lögreglumaður vann hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár hafði orð á því að þó að verkefni lögreglunnar væru krefjandi hefði það minni áhrif á vellíðan hans í starfi heldur en starfsumhverfið sjálft,“ svarar Rósa Björg. Hún segist hafa ákveðið að skoða starfsandann á vinnustaðnum og fjalla um tengsl lögreglumanna við sig sjálfa, aðra einstaklinga og tilganginn. „Auk þess greindi ég vinnustaðamenningu lögreglunnar, skoðaði tengsl við starfsánægju og hvaða áhrif upplýsingamiðlun hefur hjá lögreglunni,“ segir hún. Rósa Björg segist hafa athugað birtingarmyndir þjónandi forystu og svonefndar straumlínustjórnunar.

„Ég kláraða sálgæsluna í kjölfarið,“ segir Rósa Björg, „og verð að taka fram hvað þeir sr. Vigfús Bjarni Albertsson og sr. Gunnar Rúnar Matthíasson hafa mótað faglegt og heildsætt nám.“ Hún segir mæla eindregið með því fyrir allar starfsstéttir sem vinna í þjónustu við og í samfylgd með fólki.

Vellíðan manneskjunnar hefur átt hug hennar nú sem fyrr.

„Þegar kom að því að nýta þekkingu mína og persónulega reynslu tók ég ákvörðun um að skrá mig sem sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum í Konukoti,“ segir hún. Það olli því að síðar sóttist ég eftir starfi þar. „Ég kynntist starfinu frá öllum hliðum, undir lokin sinnti ég starfi umsjónarkonu og tímabundið gekk ég í verkefni forstöðukonu,“ segir hún.

Rósa Björg segir að starfið í Konukoti byggist á skaðaminnkandi nálgun þar sem konunum sem þangað leita sé mætt á þeim stað sem þær eru, bæði líkamlega og andlega. Leitast sé við að draga úr eða lágmarka heilsufarslegan, félagslegan og fjárhagslegan skaða sem þær geti orðið fyrir.

„Konur sem eiga í engin hús að venda eru eins ólíkar og þær eru margar,“ segir Rósa Björg, „en flestar ef ekki allar eiga það sameiginlegt að eiga áfallasögu og er ég þakklát að hafa eignast traust þeirra til að heyra þeirra sögur og fá að fylgja þeim.“

Í Konukoti fólst starfið í að uppfylla grunnþarfir kvennanna fyrir skjól, næringu og hreinlæti en einnig að veita þeim sálrænan stuðning.

Rósa Björg segir að hún hafi einnig starfað sem bakvörður í tímabundnu úrræði fyrir konur í sama málaflokki sem opnað var í vor í fyrstu bylgju covid.

Dagsetrið er rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar.

Samfylgd með konum
„Dagsetrið er einn hlekkur í velferðarþjónustu við konur,“ segir Rósa Björg, „hlekkur sem hefur vantað þar sem erfitt getur verið að finna skjól á daginn þegar Konukot er lokað.“ Hún segir að Dagsetrið muni einnig þjóna konum sem eru nýlega komnar í búsetuúrræði til að þær missi ekki tengsl. „Þarfir kynjanna eru ólíkar og eru konur oft útsettari fyrir ofbeldi,“ segir Rósa Björg. „Vonin er sú að konurnar upplifi Dagsetur sem öruggan stað til að koma á.“

Rósa Björg segir að unnið verði eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði í Dagsetrinu og konunum verði því mætt á þeim stað þar sem þær eru staddar af virðingu og kærleik. Til að byrja með muni starf hennar snúast um að gera húsnæðið klárt svo það styðji sem best við skaðaminnkandi hugmyndafræði.

Húsnæðið í Grensáskirkju er fullkomið fyrir starfsemi eins og Dagsetur, rýmið býður upp á marga möguleika þar sem hægt verður að bjóða upp á léttan hádegisverð, aðstöðu til afþreyingar, hvíldarherbergi og næði til ráðgjafar og einstaklingsstuðning. Einnig geta konurnar þvegið af sér og farið í sturtu. Starfið verður mótað í samráði við konurnar sem Dagsetrið sækja þar sem áhersla verður lögð á að auka lífsgæði þeirra, sé staður sem þeim líður vel á og þar af leiðandi áhugaverður samastaður yfir daginn.

„Ég mun leiða mótun starfsins og mun njóta starfskrafta Guðbjargar Fjólu Halldórsdóttur,“ segir Rósa Björg og bætir því við að hún komi til starfa 1. nóvember.

Hún segir að Fjóla hafi alhliða reynslu og þekkingu á málaflokknum eftir að hafa starfað í Konukoti og í tímabundnu úrræði fyrir konur. Auk þess sé hún að klára BA-nám í félagsráðgjöf. „Sem verkefnisstýra mun ég sjá um kynningu á starfinu, fræðslu sem því fylgir og vera í samvinnu við aðra fagaðila og stofnanir,“ segir Rósa Björg.

Rósa Björg segir í lokin: 
Dagsetrið er lifandi verkefni og mun vonandi alltaf vera í sífelldri þróun. Ég tel Dagsetrið vera samstarfsverkefni þó ég muni stýra því og tel mikilvægt að geta fengið lánaða dómgreind hjá öðrum til að meiri líkur séu á að verkefnið verði farsælt.

hsh







 

 

 


  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Frétt

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju