Sögufrægt hús selt

23. október 2020

Sögufrægt hús selt

Laugavegur 31, mynd: Eignamiðlun

Árið 1994 keypti Kristnisjóður húseignina Laugaveg 31 og í októbermánuði það ár flutti Biskupsstofa í húsið úr Suðurgötu 22.

Biskupsstofa var í rúman aldarfjórðung til húsa á Laugaveginum. Mörgum þótti húsið stórt en fljótt kom í ljós að það var ekki nógu stórt! Húsið hýsti ekki bara skrifstofu biskupsins yfir Íslandi og þjónustudeildir embættisins. Um tíma var þar Hjálparstarf kirkjunnar á annarri hæð en flutti svo í Grensáskirkju. Prestssetrasjóður var þar til húsa, Kirkjugarðaráð, verslunin Kirkjuhúsið og útgáfufélag þjóðkirkjunnar, Skálholtsútgáfan. Um tíma var fangaprestur þjóðkirkjunnar með skrifstofu í húsinu.

Fyrir um ári flutti Biskupsstofa af Laugavegi 31 og í Katrínartún 4, þriðju hæð. Húsið hefur staðið autt þann tíma.

Laugavegur 31 hefur nú verið seldur. Kirkjuhúsið.

Á sínum tíma þegar húsið við Laugaveg 31 var keypt fannst öllum það svo sannarlega vera hús sem hæfði æðsta embætti kirkjunnar og starfsemi hennar. Á fallegum stað við Laugaveginn, reisulegt hús með turni, franskættuðum svölum, og bogadregnum glugga Vatnsstígsmegin. Sá gluggi var sagður sá fegursti við Laugaveginn. Útgáfufélag þjóðkirkjunnar, Skálholtsútgáfan, var á götuhæð og átti gluggann. Veggur á stigapalli er sagður vera klæddur marmara og sá er gljáfægður og svartur sem nóttin með norðurljósagrænum fellingum. Nú er hann hulinn málningu og sagt var að þá Alþýðubankinn var þar til húsa hafi ekki þótt sæma að hann skartaði svo miklum eðalmarmara og því var málað yfir með málningu alþýðumannsins – þá liði honum betur, segir sagan. Og Nóbelskáldið fæddist gegnt húsinu, Dóri á 32, eins sagt er í þorpum. Á sólbökuðum dögum stöldruðu mörg við í anddyrinu sem næm voru á ilm og önduðu að sér eikarangan. Það var traustleikamerki í fallvaltri veröld.

Húsið bar með sér glæsibrag liðinnar tíðar. Í því er að finna einn fegursta stiga borgarinnar, hann er listaverk. Friðaður. Stiginn er sem í höllu aðalsfólks, breiður og þokkafullur og skiptist svo í tvennt uppi á palli, til vesturs og austurs, og heldur áfram. Renndir stólpar til sitt hvorrar handar og eru þeir úr mahóní, útskornir með sígildu mynstri. Handriðið eðalmjúkt og haldið uppi af gullbronsuðum járnpílárum.

Herbergi á þriðju hæð eru flest klædd ensku gifsi í lofti, flúruðu og skreyttu. Sums staðar með litlum og sællegum feitum englum, englar eiga nefnilega að vera þéttholda enda líður engin skort á himnesku valllendi. Áréttar að enginn eigi að ganga hungraður til hvílu í þessu húsi. Og gluggakistur eru engin hænsnaprik heldur djúpar og stórar og hvísla með seiðandi röddu að þeim er í þær setjast að veggir þessa húss séu traustari en aðrir veggir. Þarna megi sumsé jafnvel finna andblæ hins fræga hælis og háborgarinnar kunnu. En engin mannleg borg er örugg þegar öllu er á botninn hvolft, sagan segir það. Og ekki síður reynslan.

Sendiboði goðanna
Athugul augu sjá að á frönskum veggsvölum hússins er upphleypt mynd. Ekki vissu allir hvaða andlit þetta væri. Það var partur af sögu hússins þó svo það gæti aldrei orðið tákn hinnar lúthersk evangelísku þjóðkirkju sem þar hafði sest að um hríð. Þetta er mynd gríska goðsins Hermesar, goð kaupsýslu og auðs, hamingju og velsældar, tungumála og þjófa, verndara fjárhirða og ferðamanna - og fleiri hlutverk hafði það eins og goðin hafa gjarnan. Mest um vert var þó hlutverk Hermesar sem sendiboða milli manna og goða – og auk þess ók hann í vagni sínum sálum framliðinna til dánarheima. Nóg var því að gera hjá Hermesi. Hann hafði gjarnan staf í hendi, stígvél hans eða hattur voru vængjuð enda þurfti sendiboði goðanna að vera snar í snúningum. Rómverjar kölluðu hann Merkúr.

Stundum er sagt að eitthvað kvarnist úr hjarta manneskjunnar þegar hús sem hún bjó í er selt. Í aldarfjórðung var þetta hús kirkjunnar, Kirkjuhúsið. Þar gerðist mikil kirkjusaga sem verður einhvern tímann skráð. Líka saga fólksins sem þar vann og þeirra sem áttu þangað margvísleg erindi.

En nútíminn kallaði á annars konar húsnæði og staðsetningu og hans kalli verður að hlýða. 

En hvaða hús er þetta?
Marteinn Einarsson (1890-1958), kaupmaður, reisti húsið við Laugaveg 31 á árunum 1928-1929. Húsið teiknaði Einar Erlendsson, húsameistari. Marteinn var umsvifamikill kaupmaður á sinni tíð. Hann seldi matvöru og margs konar vefnaðarvöru. Hann bjó í húsinu með fjölskyldu á þriðju hæð þess. Marteinn var tvíkvæntur og átti fjögur börn. Verslun Marteins Einarssonar var rekin í húsinu allt til ársins 1960. Síðar var húsið leigt út. Kristnisjóður keypti það árið 1994 eins og áður sagði.
Sögufrægt hús til sölu.

hsh


Gríska goðið Hermes á frönsku svölunum á Laugavegi 31, með vængjaðan hatt og staf sem eðlur hringa sig um


Ýmis kirkjuleg starfsemi var til húsa á Laugavegi 31 á sinni tíð


Stiginn glæsilegur


Gegnt Laugavegi 31 er þessi eirskjöldur í stéttinni þar sem segir frá því er kötturinn réðist á Nóbelsskáldið


  • Menning

  • Samfélag

  • Frétt

Biskup og prófastur ásamt kirkjukór í Hrunakirkju

„Við erum kirkja í sóknarhug, það er bjart framundan!"

18. nóv. 2024
...segir hinn nýi prófastur Suðurlandspróafastsdæmis
Fjölskylda Karls biskups

Erindið var alltaf skýrt

18. nóv. 2024
...fjölmenni við minningarmessu
hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.