Viðtalið: Spennandi námskeið

11. nóvember 2020

Viðtalið: Spennandi námskeið

Sr. Þórhallur Heimisson í Lövstabruk-kirkju í prestakallinu þar sem hann þjónar. Orgelið í baksýn er frá 1728.

Sr. Þórhallur Heimisson er margreyndur í námskeiðahaldi og fræðslustarfi. Kunn eru hjónanámskeiðin sem hann hefur staðið fyrir um aldarfjórðungsskeið. Þau hafa notið mikilla vinsælda. Sem fyrirlesari þykir hann mjög áheyrilegur og þægilegur fræðari.

Auk þess hefur sr. Þórhallur sent frá sér nokkrar bækur sem vakið hafa athygli. Hann hefur einkum beint sjónum sínum að almennum trúarbrögðum. Fyrir skömmu kom út bókin Saga guðanna og fjallaði kirkjan.is um hana hér.

Á kórónuveirutíma eru öll samskipti í lágmarki að ráði yfirvalda. Fólk leitast við að virða skynsamleg tilmæli enda ljóst að það er allra hagur.

Á dauðastundu
Námskeiðshaldarinn sr. Þórhallur er hugkvæmur maður og honum kom til hugar að bjóða upp á námskeið á netinu. Það er nú einu sinni svo að í þessum undarlegu aðstæðum hafa hvers kyns netfundir og ráðstefnur rutt sér til rúms og fólk virðist hafa tekið því fagnandi.

Námskeiðið heitir Á dauðastundu. Það verður haldið í gegnum hinn vinsæla og auðvelda fjarfundabúnað, Zoom. Námskeiðið er ókeypis en áhugasamir þurfa að skrá sig, sjá um það hér í lokin.

„Námskeiðið stendur yfir í fjögur kvöld ef áhugi er fyrir hendi,“ segir sr. Þórhallur. Hann ætlar að fjalla um þá spurningu sem fylgt hefur mannkyni frá örófi alda og hún er: hvað gerist þegar við deyjum?

Öll trúarbrögð taka vissulega á þeirri spurningu. Og þar er sr. Þórhallur svo sannarlega á heimavelli. Hann ætlar sér að rekja hvernig stóru trúarbrögðin, gyðingdómur, kristni, íslam, hindúismi og búddismi, lýsa dauðastundinni og því sem þá gerist.

„Einnig verður kafað niður í launhelgar fornaldarinnar, dauðabækur Egypta og Tíbeta og lýsingar dulspekinga miðalda á dauðastundinni,“ segir sr. Þórhallur.

Hann mun líka huga að fullyrðingum spíritista, dulspekinga og miðla um lífið eftir dauðann.

„Allt verður þetta síðan borið saman við frásagnir þeirra sem hafa dáið en verið vaktir aftur til lífsins,“ segir sr. Þórhallur og bætir við að til séu fjölmargar slíkar frásagnir og verði þær skoðaðar sérstaklega sem og sannleiksgildi þeirra. Íslenskar rannsóknir verða í öndvegi.

Hverjar eru helstu íslensku rannsóknirnar sem tengjast efninu? spyr kirkjan.is.

„Þær sem ég fjalla mest um og rifja upp á námskeiðinu birtast í bók dr. Erlends Haraldssonar, fyrrum prófessors við Félagsvísindadeild H.Í.: Sýnir á dánarbeði, frá árinu 1979. Einnig rek ég sögu spíritismans hér á landi og klofningu kirkjunnar á 20. öld varðandi spurninguna um eilífðina - og sálarrannsóknir,“ svarar sr. Þórhallur.

Kirkjan.is spyr sr. Þórhall hvort hann telji að Íslendingar séu áhugasamari um efni af þessu tagi umfram aðrar þjóðir.

„Ég veit nú ekki hvað skal segja,“ segir sr. Þórhallur eftir nokkra umhugsun. „Það var löngum sagt hér áður, en reynsla mín af því að starfa í Svíþjóð og fjalla um dauðann hér, hefur sannfært mig um að vangaveltur um lífið eftir dauðann brenna jafn mikið á okkur öllum, sama hvar við eigum heima. Enda fjallar námskeiðið um það meðal annars hvernig trúarbrögðin svara þessari spurningu: er líf eftir dauðann?“

Sr. Þórhallur þjónaði lengi sem prestur á Íslandi en starfar nú í Svíþjóð. En við hvað?

„Ég starfa hér sem svokallaður kirkjuhirðir í söfnuði rétt fyrir utan háskólaborgina Uppsala,“ segir sr. Þórhallur. „Kirkjuhirðir er eins konar sambland af sóknarpresti og framkvæmdastjóra.“

Ólíkt skipulag
Hann segir að skipulag kirkjunnar í Svíþjóð sé með nokkrum öðrum hætti en á Íslandi og búið sé að sameina mikinn fjölda safnaða. „Í mínum söfnuði eru t. d. 6 kirkjur og 32 starfsmenn, fjórir prestar fyrir utan mig, fjórir djáknar, kennarar, barna- og fermingarstarfsmenn, fjórir organistar, kirkjugarðsstarfsfólk og húsmæður í safnaðarheimilunum svo eitthvað sé nefnt.“

Kirkjan.is víkur talinu að nýju bókinni hans, Sögu guðanna, og spyr hvernig salan gangi.

„Mér skilst á útgefanda mínum að salan gangi vel, áhuginn er mikill og mikil eftirsókn eftir kynningum á bókinni á netinu hjá mér,“ segir sr. Þórhallur og er augljóslega ánægður með það eins og gefur að skilja. Kirkjan.is óskar honum til hamingju með það sem og bókina.

Þá spyr kirkjan.is spyr hvort önnur bók sé í bígerð hjá honum.

„Já, ég er þegar langt kominn með næstu bók. Hún heitir Allt sem þú vilt vita um Biblíuna (en þorðir ekki að spyrja um),“ segir hann. „Þetta er eins og nafnið bendir til, bók um Biblíuna, sögu hennar og uppruna, frásagnir og heimildir, og síðast en ekki síst tengsl við menningarheima fornaldar eins og Egyptaland, Assýríu, Babýlon, Grikkland, Persíu og Rómaveldi og sögu þeirra og trú.“ Hann segir að bóklin sé unnin eftir sömu aðferðafræði og bókin um Sögu guðanna, eða út frá hans eigin ferðum um sögusvið Biblíunnar sem og persónulegri upplifun af bók bókanna.

„Ég mun birta eigin myndir frá Landinu helga í bókinni til skýringar,“ segir sr. Þórhallur og bætir því við að bókin sé ætluð almenningi og verði vonandi bæði spennandi og skemmtileg. „Og örugglega mjög uppreisnargjörn gagnvart hefðbundnum kenningum,“ segir hann að lokum.

Skráning á námskeiðið fer fram hjá sr. Þórhalli og nánari upplýsingar er hægt að sækja hingað: thorhallur33@gmail.com

hsh
  • Menning

  • Námskeið

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí