Ljóð í messu

13. nóvember 2020

Ljóð í messu

Ljóðabókin geymir 21 ljóð í dróttkvæðum hætti

Hún er nýstárleg ljóðabókin sem Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gefur út nú fyrir jólin: Allt uns festing brestur.

Sr. Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju í Laugardalsprestakalli, yrkir trúarljóð sem fornmaður væri, beitir fyrir sig dróttkvæðum hætti, og verður ekki fótaskortur á þeirri vegferð. Þar er vel að verki staðið og ekki ástæða til annars en að fyllast hrifningu yfir íþrótt hans og óska honum til hamingju. Dróttkvæður háttur var notaður af fornmönnum þá þeir fluttu konungum drápur sínar og helgikvæðaskáldin sem vildu (og vilja!) færa drottni lof og prís mega ekki minni vera og nota auðvitað sama hátt. Engi aukvisi var sá maður er færði orð sín í dýran búning dróttkvæða.

Hér kveður helgikvæðaskáldið sr. Davíð Þór sér hljóðs og það er vel þess virði að leggja eyrun við. 

Ljóðunum er stillt upp í þrettán liða form hinnar sígildu messu – lútherskur lesandi saknar þess hins vegar að messuliðir séu ekki þýddir fyrir almenning yfir á íslensku í anda siðbótarmannsins.

Segja má að skotist sé á vissan hátt í messu með lestri ljóðanna. Hér þurfa lesendur að vera sæmilega að sér og vita um hvað málið snýst. Kirkjufólk mun grípa til þessarar bókar ýmist sér til andlegrar upplyftingar eða trúarlegs aðhalds – guðfræðin er sígild og kemur ekki á óvart. Þau sem unna íslensku máli fá hér svalað aðdáun sinni og hrifnæmi.

Það tekur smátíma að koma sér í gang við lesturinn. Minnir í fyrstu á gamlan kunningja sem maður þarf aðeins að átta sig á – en það er náttúrlega hinn dróttkvæði háttur. Lesandi má ekki vanmeta bókina vegna þess hve stutt hún er og halda að hann geti smellt fingri og lesið í einni sjónhending. Nei, smátt er nefnilega fagurt – og smátt getur verið stærra en stórt í réttu samhengi. Lesandi verður að nema taktinn og sætta sig við að textinn er orðknappur og agaður – eins og formið svo sem typtar hann til. Þegar lesandi er kominn í réttan gír finnur hann fljótt hve ljóðin renna einkar vel fram í tærum straumi einfaldleikans, skýr og hljómfögur. Það eru skáldatöfrar sem sr. Davíð Þór býr yfir og leyfir öðrum að njóta þeirra með sér.

Spennandi verður að sjá hvernig yngra fólk tekur þessu snjalla, snögga og óvænta afturhvarfi til fornra hátta. Nokkur innilokunarkennd getur þó kannski myndast hjá  ungum lesanda því að sumar hendingar eru býsna hlaðnar dýrum boðskap í litlu orðarými svo að sú hætta gæti vofað yfir að sálarókyrrð geri vart við sig hjá óvönum lesanda. En allt má taka í áföngum. 

Á baksíðu bókarinnar er þess getið að form ljóðanna kalli fram „ákveðinn hugleiðslublæ“ og þess vegna megi kyrja þau ef lesandi gefur sig á vald textanum. Það verður spennandi að heyra síðar af því hvernig til tekst með þessa hugleiðsluaðferð.

Ljóð af þessu tagi verður að lesa með tilþrifum og blæbrigðaríkri röddu svo þau njóti sín til fulls – eða í sjálfsnæði við kertaljós og hugarmýkt – lesa lágri röddu og dulúðugri svo sálin ein heyri.

Sr. Davíð Þór er skáld gott og gaman verður að fylgjast með honum þegar hann geysar næst fram á ritvöllinn með aðra bragarhætti að vopni. Íslenska þjóðkirkjan býr vel að eiga svo kröftugt og fjölhæft trúarskáld í liði sínu. 

Bókin er afskaplega snotur og smekkleg – hún er 32 bls. í hentugu broti - og ljóðaerindin - eða vísurnar - eru 21.

Útgáfan er styrkt af Tónmenntasjóði kirkjunnar.

hsh


Hér fer höfundur nokkrum orðum um bók sína






  • Guðfræði

  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut