Ný prestaköll

14. nóvember 2020

Ný prestaköll

Holt í Önundarfirði - eitt sinn prestssetur, eitt sinn Holtsprestakall, þannig breytist tíminn ... en kirkjan stendur enn og mun standa áfram!

Prestakallaskipan landsins er ævagömul og snýst um skipulag í kirkjumálum. Þessari skipan hefur verið margoft breytt. Prestaköllum hefur fækkað á umliðnum öldum eins og gefur að skilja. Árið 1737 voru þau 188 og nú eru þau 70.

Það þykir eflaust tíðindum sæta þegar gömul og rótgróin prestaköll eru lögð niður og sameinuð öðrum.

Eitt elsta prestakall landsins heyrir nú sögunni til. Það er Holtsprestakall í Önundarfirði. Það er komið undir Ísafjarðarprestakall ásamt Bolungarvíkur- og Þingeyrarprestakalli – og Ísafirði sjálfum. Þá eru kunnugleg prestaköll horfin úr henni Reykjavík: Laugarnes, Langholts,- og Ásprestaköll.

Fyrir nokkru mátti lesa í Stjórnartíðindum auglýsingu um sameiningu prestakalla sem kirkjuþing hefur samþykkt og tóku þær gildi um leið og þær birtust eða hinn 7. október.

Fimm ný prestaköll

Suðurprófastsdæmi: Selfoss- og Eyrarbakkaprestaköll, sameinist í eitt prestakall, Árborgarprestakall.

Reykjavíkurprófastsdæmi eystra: Digranes- og Hjallaprestaköll, sameinist í eitt prestakall, Digranes- og Hjallaprestakall.

Reykjavíkurprófastsdæmi vestra: Ás-, Langholts- og Laugarnesprestaköll, sameinist í eitt prestakall, Laugardalsprestakall.

Vestfjarðaprófastsdæmi: Bolungarvíkur-, Holts-, Ísafjarðar- og Þingeyrarprestaköll, sameinist í eitt prestakall, Ísafjarðarprestakall.

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi: Akureyrar- og Laugalandsprestaköll, sameinist í eitt prestakall, Akureyrar- og Laugalandsprestakall.

Nöfnin á hinum sameinuðu prestaköllum eru sérstaklega góð á þeim sem kennd eru við Laugardal, Árborg og Ísafjörð. Samsett nöfn á prestaköllum eru iðulega stirð og ekki vænleg til hversdagslegar notkunar.

Á kirkjuþingsfundi í þessum mánuði var og samþykkt sameining Reykholts- og Hvanneyrarprestskalla. Hana á eftir að auglýsa í Stjórnartíðindum.

Kirkjan.is nefnir þetta hér vegna þess að prestaköll hafa verið að greina frá þessum sameiningum á heimasíðum sínum og kynna hver er sóknarprestur og hver er prestur - og djákni. Auk þess verða hin nýju prestaköll að laga heimasíður sínar og Facebókar-síður að nýju heiti þar sem það á við.

Sóknarprestar í nýju prestaköllunum

Árborgarprestakall: sr. Guðbjörg Arnardóttir
Digranes- og Hjallaprestakall: sr. Gunnar Sigurjónsson
Laugardalsprestakall: sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir
Ísafjarðarprestakall: sr. Magnús Erlingsson
Akureyrar- og  Laugalandsprestakall: sr. Svavar A. Jónsson

Ásamt sóknarprestunum starfa prestar í hinum nýju prestaköllum og djáknar í sumum þeirra. 

Stjórnartíðindi flytja oft athyglisverð tíðindi eins og nafn þeirra ber með sér. Meðan kirkjan býr enn við lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 er skylt að auglýsa gerninga kirkjuþings þar. Breyting verður þegar og ef frumvarp það sem sem nú liggur fyrir alþingi verður samþykkt. Þá liggur ekki þessi stjórnartíðindabirtingakvöð á þjóðkirkjunni. Hins verður opnað sérstakt vefsvæði, væntanlega á kirkjan.is, fyrir formlega gjörninga kirkjuþings og þeir birtir innan fjögurra vikna frá samþykki þeirra eins og segir í 14. gr. frumvars til laga um þjóðkirkjuna.

hsh


Minningarsteinn um Brynjólf Sveinsson að Holti í Önundarfirði. Hann var biskup í Skálholti 1639-1674. (Mynd: HSH).
Í Biskupasögum Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal, II. bindi, R. 1911-´15, segir svo á bls. 332: 

„Þessi blessaði biskup var fæddur til þess dauðlega ljóss og lífs að Holti í Önundarfirði á Vestfjörðum Anno 1605, sjálfa Krossmessu um haustið, sem innfellur á þann 14. dag Septembris, er þá bar upp á föstudag, eptir miðaptan, af heiðarlegum, ættgöfugum og guðhræddum foreldrum.“

 

 


  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Frétt

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí